Færsluflokkur: Bloggar

Eitt það besta sem á dagana hefur drifið.

Ég var heppinn á sínum tíma að Lionsklúbburinn Ægir hafði Sólheima í Grímsnesi sem höfuðverkefni sitt þegar ég gekk í hann og hefur verið svo alla tíð síðan.

Ef þetta hefði ekki gerst, hefði ég aldrei gert þáttinn um göngugarpinn Reyni Pétur, sem gangan mikla kom í kjölfarið á, en þessi þáttur var eitt af þeim verkum á fjölmiðlaferlinum sem ég er hamingjusamastur með.

Með framkomu sinni og einstæðri þekkingu á ákveðnu sviði vísinda braut Reynir Pétur niður múra, sem þá höfðu að miklu leyti lokað leiðinni milli almennings og vistfólks á stofnunum af svipaðri gerð og Sólheimar eru.


mbl.is Samfélag engu öðru líkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstaða borgarmálefna.

Borgar- og sveitarstjórnarmál hafa yfirleitt þá sérstöðu að einhugur er yfirleitt um meira en 90% af viðfangsefnunum, enda snerta almennar stjórnmálaskoðanir þau yfirleitt ekki.

Þess vegna geta svonefnd "sérframboð" fengið mikið fylgi og sömuleiðis geta framboð einstakra stjórnmálaflokka fengið miklu meira fylgi en viðkomandi flokkar hafa á landsvísu.

Það er helst að staða stjórnmálaflokka á landsvísu hafi áhrif þegar kjósendur nota tækifærið í byggðakosningum til að refsa þeim fyrir það að hafa valdið vonbrigðum á landsvísu.

Um þetta eru mörg dæmi úr sögu kosninga í Reykjavík. Í bæjarstjórnarkosningunum í ársbyrjun 1958 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 57% atkvæða og 10 bæjarfulltrúa af 15 vegna óánægju með vinstri stjórnina, sem þá sat og sprakk seinna á árinu.

Einkum fór Alþýðuflokkurinn herfilega út úr þessum kosningum.

Allt fram til 1978 fékk Sjálfstæðisflokkurinn mun meira fylgi í Reykjavík en á landsvísu og sama var að segja á þeim árum um Sósíalistaflokkinn og síðar Alþýðubandalagið í Neskaupstað.

Meirihlutinn féll í Reykjavík 1978 af því að borgarstjórnarkosningarnar voru á undan alþingiskosningum það ár og margir kjósendur voru óþreyjufullir að láta í ljós óánægju sína með ríkisstjórnina, sem Sjálfstæðismenn leiddu.

Davíð Oddsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn síðan í nýjar hæðir í borginni, langt umfram fylgi hans á landsvísu.

Næstum aldar gömul reynsla sýnir að kjósendur vilja festu í stjórn borgarinnar.

Þegar hinir hefðbundnu stjórnmálamenn höfðu klúðrað bórgarmálefnum á þann hátt á árunum 2002-2010, að við völd höfðu verið sjö borgarstjórar í fimm mismunandi meirihlutum, refsuðu refsuðu kjósendur þeim fyrir þetta með því að kjósa alveg nýtt, ferskt og öðruvísi framboð, sem myndaði meirihluta, sem setið hefur allt kjörtímailið.

Sú staðreynd blasir við að stöðugur meirihluti 2010-2014 tók við af glundroðanum frá 2006-2010 sem leiddi af sér hverja vandræða uppákomuna á fætur annarri. Þótt ró kæmist yfir borgarmálin 2009-2010 eru kjósendur búnir að gleyma því ef þeir á annað borð urðu varir við það, því að sú ró fór afar lágt, því að ekkert "fréttnæmt" var að gerast.

Jón Gnarr hefur verið óvenjulegur og gengið mun betur við að rækja hlutverk sitt en búist var við.

Hann hefur vakið athygli erlendis, oftast mjög jákvæða athygli, sem fulltrúi Reykvíkinga og verið óhræddur við að láta til sín taka í málefnum, þar sem hann hefur ákveðnar skoðanir þótt þær séu kannski ekki allra eða að öllum líki útfærsla hans á þeim. Hann hefur sótt á og vaxið á kjörtímabilinu.

Höfuðkostur hans hefur verið hreinskilni þess sem er óhræddur við að koma til dyranna eins og hann er klæddur. Hann er einn þeirra sem fólki getur þótt vænt um eins og hann er.  

Þennan kost hafði Steingrímur Hermannsson á sínum tíma, - sagði hreint út að hann "hefði verið plataður" ef svo bar undir og naut meiri vinsælda kjósenda en dæmi hafa verið um eftir að skoðanakannanir voru teknar upp um það efni.

  


mbl.is Björt framtíð fengi sex í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningin sem enginn spyr.

Rökin fyrir sæstreng til Skotlands og sölu raforku þangað eru skýr:

1. Fjölbreytni eykst í notkun íslenskrar raforku. 2. Umframorka í raforkukerfi okkar upp á mörg hundruð megavött nýtist í satð þess að detta niður dauð.  3. Orkuverðið verður hærra en nú fæst hjá stóriðjunni.  4. Þessi hækkun færir miklu meira inn í þjóðarbúið en sem nemur hækkuðu verði sem við sjálf þurfum að borga og samsvarar því að hærra verð á fiskafurðum til útlanda skilar miklu meira í þjóðarbúið en sem nemur hækkuðu fiskverði til neytenda innanlands.

Ókostirnir yrðu nokkrir: 1. Orkan er ígildi hráefnis sem selt er úr land og hún skapar störf þar en ekki hér á landi.  2. Ákveðin áhætta er tekin með því að leggja mikið fjármagn í þennan lengsta sæstreng heims.

Enginn spyr þó spurningarinnar um það hvaða áhrif hærra orkuverð muni hafa á virkjanafíkn og græðgi Íslendinga.

Ekki er hægt að sjá að sú skammgróðahugsun á kostnað komandi kynslóða hafi gefið neitt eftir við Hrunið.

Því gæti hærra orkuverð um sæstreng hreinlega valdið því að vaðið yrði í skefjalausar virkjanaframkvæmdir með tilheyrandi spjöllum á einstæðri íslenskri náttúru á sama tíma og mestu orkubruðlarar heims, Bandaríkjamenn, líta á hliðstæð náttúrufyrirbæri eins og Yellowstone sem "heilög vé" sem ekki verði snert, þrátt fyrir þar sé að finna langmestu samanlagða jarðvarma- og vatnsorku í allri Norður-Ameríku og að gildi Yellowstone sem náttúruverðmætis sé minna en hinna íslensku verðmæta.  


mbl.is Bretar áhugasamir um sæstreng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gallar tölvuheimsins.

Heimur okkar og daglegt líf er að verða svo tölvustýrt, að þeim atvikum fjölgar stöðugt þar sem allt stöðvast og engin leið er að koma því aftur í gang, eins og stöðvun leiksýningar í Þjóðleikhúsinu ber vitni um.

Bíllinn stöðvast og enginn mannlegur máttur virðist geta komið honum í gang á ný vegna þess að tölva eða forrit hefur "krassað" eða hrunið.

Í sýningu einni nýlega var hápunkturinn sungið og leikið lag. Þegar til átti að taka kom það bara alls ekki. Tölvan eða öllu heldur snjalltölvan, sem lagið átti að koma úr, "fraus".

1983 munaði hársbreidd að heimurinn færist í kjarnorkustyrjöld vegna bilunar í sovésku eldflaugavarnarkerfi.

"..vélar unnu störfin og enginn gerði neitt..." var einu sinni spáð um árið 2012 þegar tölva gegndi starfi forsætisráðherrans og örgjörfi væri hinn raunverulegi yfirmaður útvarpsstjóra.

Allt virðist stefna í þessa átt, hægt og bítandi. Spáin um að "enginn gerði neitt" rættist ekki og rættist þó. Hún rættist ekki að því leyti til að æ fleiri störf skapast við að gera við, uppfæra, endurhanna og stilla tölvur og tól, en spáin rættist ef henni hefði verið breytt í "...og enginn gat gert neitt...", ekki haldið áfram sýningu i leikhúsi og ekki komið í veg fyrir kjarnorkuragnarök.


mbl.is Leikhúsgestir sendir heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt menningarhlutverk í heila öld.

Það má ekki minna vera en að lesandi Morgunblaðsins í 66 ár óski blaðinu til hamingju með aldarafmæli sitt og þakki fyrir sig, svo stóran þátt hefur það átt í því að halda uppi fréttaflutningi, skoðanaskiptum og umfjöllun um hvaðeina sem getur aukið þá þekkingu sem nauðsynleg er fyrir gróandi þjóðlíf og lýðræði.

Lengst af á þessari aldar vegferð sinni hefur Mogginn borið höfuð og herðar yfir aðra prentmiðla og stundum svo mjög, að til varð fyrirbæri sem kalla mætti Moggaheilkennið og fólst í því að það skipti öllu máli fyrir afar marga, líka á samkeppnismiðlunum, hvort eða hvernig Morgunblaðið hefði fjallað um ákveðin málefni.

Stundum var reyndar sagt að það segði meira um hagsmunina að baki Morgunblaðinu um hvað blaðið þegði en hvað það segði.

Ritstjórarnir hafa verið öflugir svo lengi sem ég man. Eyjólfur Konráð Jónsson var merkilegur hugsjónamaður sem barðist fyrir dreifingu eignarhalds í formi almenningshlutafélaga, en því miður gerðist hið gagnstæða of víða í þjóðfélagi okkar svo að efnt var í bálköstinn sem brann til grunna í Hruninu.

En ég tel á enga hallað þótt sagt sé að Styrmir Gunnarsson og Matthías Jóhannessen hafi átt stærstan þátt í þeirri blómaöld Morgunblaðsins sem mestur ljómi leikur um.

Nefna má sem dæmi skrif þeirra og viðtöl sem mörg hver voru hafin upp fyrir flokkapólitík, sem þá tröllreið íslenskum blöðum og að þeir stigu það skref að skera á bein tengsl blaðsins við Sjálfstæðisflokkinn. 

Mest munaði þó um það að blaðið var opnað upp á gátt fyrir þjóðmálaumræðuna og þarf ekki annað en nefna einhverja áhrifamestu blaðagrein okkar tíma "Hernaðinn gegn landinu" árið 1970 eftir Halldór Laxness til að sjá hve miklu þetta skipti.

En dökkir skuggar finnast líka í sögu blaðsins varðandi beitingu þess í flokkspólitískun tilgangi, eins og til dæmis þegar Bjarni Benediktsson, annars öflugur ritstjóri og einn af merkustu stjórmálamönnum og lögspekingum þjóðarinnar, freistaðist til að beita því svo harkalega gegn vinstri stjórninni 1956 til 1959 að Ólafur Thors hafði síðar orð á því að heldur langt hefði verið gengið.

En Bjarna var vorkunn að því leyti að á þessum tíma var dagblöðunum, Alþýðublaðinu, Þjóðviljanum, Tímanum, Morgunblaðinu og Vísi , sem voru öll þá öll flokkspólitísk, beitt af mikilli hörku í stjórnmáladeilum.

Um leið og ég, ungur drengur, eignaðist smá peninga með blaðaútburði og blaðasölu gerðist ég áskrifandi að Þjóðviljanum til þess að ég gæti lesið mismunandi sjónarmið á heimili foreldra minna, sem tóku virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins og voru auðvitað voru áskrifendur að Morgunblaðinu.

Þetta gerði ég ekki vegna þess að aðhylltist kommúnismann heldur til að kynnast gagnstæðum sjónarmiðum.

Ég tel að eitt varasamasta tímabilið í íslenska blaðaheiminum hafi verið í kringum síðustu aldamót, þegar Alþýðublaðið, Tíminn og Þjóðviljinn höfðu gefist upp og bæði DV og Morgunblaðið, sem eftir voru, voru í höndum ráðandi valdaafla í stjórnmálum og efnahagsmálum.

Í lýðræðisríki verða gagnstæð sjónarmið að fá að birtast í fjölmiðlum, og að því leyti var tilkoma Fréttablaðsins nauðsynleg.

Að sama skapi er tilvera Morgunblaðsins nauðsynleg nú þegar Fréttablaðið hefur hvað magn og útbreiðslu snertir komist í svipaða aðstöðu og Morgunblaðið hafði áður.

Rétt eins og mér fannst það ekki skipta máli hverjir ættu og rækju Þjóðviljann þegar hann var öndverður póll við Morgunblaðið og Vísi, skiptir álit mitt á eignarhaldi Morgunblaðsins ekki máli varðandi tilvist þess, heldur vegur nauðsynin á framsetningu mismunandi skoðana þyngra.

Við þurfum minnst tvö eða þrjú dagblöð með ólíka sýn og skoðanir til þess að lýðræðið eigi lífsvon og þess vegna óska ég Morgunblaðinu, sem og keppinautum þess, velfarnaðar og þakka gamla Mogganum fyrir ómetanlegt framlag til íslenskra þjóðmála í heila öld.   

 


mbl.is Morgunblaðið 100 ára í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturför frá tímum Harðar Guðmundssonar.

Ísfirðingar og íbúar á Vestfjörðum hafa þá sérstöðu um samgöngur að vera að mestu leyti í svipuðu fari og fyrir 50 árum.

Þegar Hörður Guðmundsson var með sína flugstarfsemi á Ísafjarðarflugvelli hafði það það mikla kost, að hann gat brugðist við nær samstundis og farið með sjúklinga þaðan, og einnig var það stórt atriði, að þá og líka nú, var oft aðeins hægt að fljúga frá flugvellinum en ekki hægt að lenda þar, eins og þurft hefur þegar miðstöð sjúkraflugsins er annars staðar á landinu.

Það er merkilegt að samgöngur við þennan heila landsfjórðung skuli að sumu leyti vera lakara, öryggislega séð, en þær voru fyrir mörgum áratugum.


mbl.is Aukið sjúkraflug á Ísafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staða hlutlausra þjóða er oft erfið.

Það getur verið vandasamt fyrir ríki að stunda hlutleysisstefnu og Svíar hafa ekki farið varhluta af því.

Þegar Rússar réðust á Finna í vetrarstríðinu 1939-40 hugðust Bretar og Frakkar ráðast inn í Norður-Noreg og Norður-Svíþjóð og leggja undir sig leiðina frá Narvik til Kirjálabotns, þannig að Þjóðverjar fengju ekki nauðsynlegt járn frá námunum í Kiruna og Gellivara.

Þetta yrði gert án þess að Norðmönnum eða Svíum yrði sagt stríð á hendur og vonast til að þessar þjóðir sættu sig við gerðan hlut, enda var yfirvarpið það að senda herlið til Finnlands til að hjálpa Finnum í stríðinu við Rússa.

Fram að þessu höfðu Norðmenn og Svíar ekki tekið í mál annað en að selja hverjum, sem vildi, járnið og flytja það til hafnanna, þar sem það yrði flutt til Þýskalands.

Bretar og Frakkar urðu of seinir til að framkvæma áætlanir sínar vegna þess að Finnar gáfust upp fyrir Rússum og sömdu við þá frið.

Eftir að Þjóðverjar fóru í stríð við Rússa kröfðust þeir þess að fá að flytja herlið frá Noregi til Finnlands í gegnum Svíþjóð. Svíar voru í vonlausri stöðu til að neita þessu, vegna þess að land þeirra var umkringt af löndum, sem Þjóðverjar ýmist réðu yfir eða voru í bandalagi við Þjóðverja.

Komið hefur í ljós að ákveðin samvinna var á milli NATO og Svía á árum Kalda stríðsins, sem hefur sett hlutleysi þeirra á þeim árum í sérstætt ljós.

Svisslendingar áttu erfitt á stríðsárunum og í Þýskalandi var sagt í háði að ef Sviss ætti tvo fána, þennan venjulega og síðan annan fána, sem væri með hvítum krossi á hvítum fleti, og Svisslendingar myndu nota ef Þjóðverjar færu í hart við þá.

Á árum Kalda stríðsins urðu Finnar, lengst af undir forsæti Kekkonens, að sæta mikilli þvingun Rússa og fékk slík eftirlátsstefna hlutlausra þjóða alþjóðlega nafnið "Finnlandisering".

Bandaríkjamenn stunduðu sérkennilega hlutleysisstefnu á árunum 1939-1941 þangað til Þjóðverjar sögðu þeim stríð á hendur. Bandarískt hernám Íslands sumarið 1941 var í augum Hitlers ögrun, sem hann kvað Roosevelt hafa sýnt til þess eins að efna til ófriðar, en Þjóðverjar ekki látið freistast til að bregðast gegn.  

Þetta mat Hitlers kom fram í ræðunni sem hann hélt þegar hann sagði Bandaríkjamönnum stríð á hendur 11. desember 1941.     


mbl.is Mýkjast í afstöðu sinni gagnvart NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við vitum ekki ´enn að við eigum í raun ... auðlind..."

Þegar sumir segja að náttúruverndar- og umhverfisfólk vilji fara aftur inn í torfkofana varpa þeir ljósi á eigin hugsunarhátt, sem virðist byggjast á því að þeir séu sjálfir enn ekki komnir almennilega út úr torfkofunum, heldur standi í dyrunum eins og kýr, sem verið er að hleypa út í fyrsta sinn að vori og ætla að sleppa sér með því að æða stjórnlaust, stökkvandi með fáránlegum rassaköstum út í hinn nýja veruleika, sem blasir við.

Í þessari hugsun felst það að mæla öll verðmæti eingöngu í tonnum, megavöttum og skjótfengnum græðgisgróða án nokkurrar fyrirhyggju gagnvart framtíðinni og komandi kynslóðum.

Og því síður örlar í þessari hugsun á mati á öðrum verðmætum en þeim sem verða mæld í efnislegu magni.

Meira að segja virðist þessu fólki vera fyrirmunað að leggja peningalegt mat á neitt annað en efnislegt magn.

Þess vegna eru íslenskrar ferðamannaperlur vanmetnar og undirverðlagðar.

Ég hef reynt að lýsa hinum nýja veruleika svona:

 

Allvíða leynast á Fróni þau firn,  /

sem finnast ekki´í öðrum löndum: /

Einstæðar dyngjur og gígar og gjár /

með glampandi eldanna bröndum. /

Við vitum ekki´enn að við eigum í raun  /

auðlind í hraunum og söndum,  /

sléttum og vinjum og urðum og ám  /

og afskekktum, sæbröttum ströndum.


mbl.is Undirverðlagðar ferðamannaperlur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjörueðjan dregur úr hemlunar- og stýrigetu.

Enn hafa ekki fundist ráð til að framleiða hjólbarða sem hafa jafn mikið grip á hálu svelli og negld dekk. En í öðrum skilyrðum eru ýmis ónegld dekk jafn góð eða jafnvel betri.

Í upptalningu vegna neikvæðra áhrifa naglanna á götur Reykjavíkurborgar gleymist að geta þess, að þegar naglarnir rífa malbikið upp, sem að mestu leyti er því að kenna að ekki er nógu gott efni í götunum, myndast sleip tjörueðja á götunum sem einnig sest á dekkin.

Það veldur því að grip dekkjanna minnkar og dregur úr stýrigetu og hemlun auk þess sem eðjan sest á rúður og rúðuþurrkur og dregur úr útsýni.

Þegar jöklajeppum er ekið í jöklaferðalög, stansa menn oft þar sem bundna slitlagið endar og þvo dekkin með spritti til að auka gripgetuna.

Miðað við saltaustur á götur borgarinnar ættu negld dekk að vera óþörf innan borgarmarkanna.

Ég hef fengið orð í eyra fyrir að eiga jöklajeppa sem eru með neglda hjólbarða og sagt að ég sé ósamkvæmur sjálfum mér. Þessa jeppa nota ég hins vegar aðeins í jöklaferðir sem hafa undanfarinn áratug verið að meðaltali ein á ári.

Þess utan ek ég þessum bílum nokkra kílómetra einu sinni í mánuði til að halda þeim við.

Akstur minn á negldum dekkjum á götum borgarinnar er því varla meira en 200 kílómetra á ári af þeim um það bil 25 þúsund kílómetrum sem ég ek, eða 1 % af árlegum akstri, því að alla jafna ek ég á ónegldum hjólbörðum á örbílum mínum.

Tveir jöklajeppar sem ég ók á árum áður fuku á hálu svelli eftir og eyðilögðust eftir að þeir voru seldir og oft eru svell hálust og blautust neðst á jöklunum á vorin og snemmsumars.

Þess vegna fer ég oftast í slíkar ferðir á negldum dekkjum, þó ekki alltaf. Síðustu jöklaferð fór ég til dæmis á ónegldum 33ja tommu dekkjum á minnstu og léttustu gerð af Suzuki Vitara.


mbl.is Nagladekk leyfileg en óæskileg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinskilnisleg játning.

Algengustu viðbrögð fólks við Hruninu hvað snerti hegðun þess sjálfs í aðdraganda þess, eru þau að það hafi verið fórnarlömb græðgi annarra en ekki sjálfs sín. Orðið "forsendubrestur" hefur líka verið mikið notað um það þegar farið var út á ystu nöf og jafnvel lengra við skuldasöfnun en síðan hefðu allar forsendurnar breyst.

Megin forsendan fyrir glæfralegustu fjárfestingunum var óheyrilega hátt gengi krónunnar, sem flestum mátti vera ljóst að gæti ekki staðist til lengdar, þótt engan óraði fyrir því hve langt hafði verið gengið við að spenna upp ósjálfbæra þenslubólu með bókhaldskúnstum af áður óþekktri stærð.

Hið háa gengi krónunnar, allt að 30-40% hærra en raunhæft var, skapaði langstærsta neyslufyllerí allra tíma hér á landi ásamt þvílíkri skuldasöfnun, að skuldir heimilanna fjórfölduðust á nokkrum árum og sömuleiðis skuldir fyrirtækjanna.

Það var fullkomlega óeðlilegt að slíkt skuldafyllerí ætti sér stað í því sem virtist vera mesta góðæri (gróðæri) allra tíma. Þvert á móti hefði þessi tekjuaukning átt að nýtast til að greiða skuldir niður.

Þeir, sem tóku stærstu lánin og fjárfestu mest, tóku mjög mikla áhættu, en á þessum tíma var blásið á alla gagnrýni og ábendingar þess efnis að verið væri að byggja spilaborg eða blása upp efnahagslega sápukúlu sem hlyti að springa.

Játning Runólfs Ágústssonar er óvenjuleg þessi misseri sem allir reyna að sverja af sér þátttöku í því, sem skóp Hrunið. Að sönnu eru tugþúsundir Íslendinga sem urðu fyrir "forsendubresti" og tóku ekki þátt í dansinum um gullkálfinn, en hinir eru líklega fleiri sem létu græðgina blinda sig.  


mbl.is „Viðskipti gerð í anda græðgi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband