Færsluflokkur: Bloggar
1.11.2013 | 00:31
"Að vera fangi í líkama sínum".
Hugsanir okkar, tilfinningar, vitsmunalíf og skynjun er öll bundin við líkama okkar í þessu jarðlífi. Að því leyti erum við íbúar í þessum jarðneska líkama meðan við lifum hér á jörðinni og getum ekki haft aðsetursskipti.
Sem betur fer er oftast gott að eiga það heimilisfang sem líkami okkar er, þótt gæðunum sé misskipt.
En veikindi geta gert það að verkum að líkaminn breytist úr góðu heimili í fangelsi.
Fyrir nokkrum árum lést kona, sem hafði sagt, að hún óskaði sér þess eins að verða ekki hjálparlaus í ævilokum sínum í eigin líkama.
Þetta urðu þó dapurleg örlög hennar síðustu árin. En, eins og Shakespeare segir: "Enginn má sköpum renna og best er það."
Í banalegu föður míns átti hann afar erfitt með að tjá sig og hélt löngum stundum dauðahaldi í hönd mér og greip fast án þess að geta mælt orð frá vörum, hversu mjög sem hann óskaði þess, þessi mikli sagnamaður og kjaftaskur, sem hann hafði verið.
Samt varð banalega hans að kórónu lífs hans, langt umfram það sem nokkur hafði búist við af honum, full af örvæntingu en alltaf með ívafi óbilandi baráttu og einstaks humors.
Of langt mál er að segja frá því hér, en upphaf og endir frásagnar minnar á Söguloftinun í Landnámssetrinu af litríkum, skemmtilegum og einstökum persónum sem ég kynntist aðallega á æskuárum mínum, byrjar og endar við legstein foreldra minna og síðustu vikunum í lífi hans, þegar hann var fangi í deyjandi líkama sínum.
![]() |
Lést tvítug í líkama smábarns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.10.2013 | 17:44
Þarf að lengja brautina á Egilsstöðum.
Stærsti ókosturinn við flugvöllinn á Akureyri er hve miklar og háar hindranir eru í kringum völlinn.
Eina hindranalitla leiðin að vellinum er úr NNA inn fjörðinn, en þá er fráflugið mjög erfitt til suðurs og raunar ekki notað.
Brautin er sú lengsta utan suðvesturhornsins en það skiptir ekki máli vegna þess að fjöllin í kring skelfa erlenda flugstjóra mest, einkum þá sem aldrei hafa gert aðflug að vellinum.
Stærsti kostur vallarins er sá að við hann er stærsta þéttbýlið og mesta þjónustan utan suðvesturhornsins, hann liggur nær miðpunkti landsins en nokkur annar flugvöllur, og þess vegna er hann ákjósanlegur sem miðstöð sjúkraflugs.
En fyrir ókunnuga flugstjóra falla þessir kostir allir í skuggann af því hvað blindaðflugið er vandasamt.
Suðvestan við völlinn eru Súlur, 1144 metra háar, og skammt sunnan við þær Kerling, 1539 metrar, eitt af hæstu fjöllum landsins.
Þess vegna hefði fyrir löngu átt að vera búið að lengja flugbrautina á Egilsstöðum, sem enn er miklu styttri en brautin á Akureyri. Aðflugið eystra er svo miklu auðveldara en á Akureyri að það skelfir ekki ókunnuga flugstjóra.
Á Egilsstöðum snýst málið eingöngu um það að færa hringveginn, sem liggur við suðurenda brautarinnar og skerðir lengd hennar og skapar hindrun, sem eyðileggur 200 metra af suðurendanum þegar lent er til norðurs.
Það kostar að vísu að minnka tún býlisins á Egilsstöðum, en skaðabætur vegna þess geta varla talist vera nema lítið brot af því sem vinnst með því að lengja brautina upp í minnst 2200 metra.
![]() |
Aðflug að Akureyrarflugvelli mistókst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.10.2013 | 22:11
Góð auglýsing fyrir Airbus.
Svo lengi sem ég man eftir, eða frá því um 1960, hefur það verið skilyrði bifreiðaeftirlitsins fyrir því að þrír farþega megi vera í aftursæti bíls, að hver þeirra hafi yfir 43 sentimetra breidd að ráða, þ. e. 17 tommum.
Sama ákvæði um lágmarksbreidd sæta gilti um flugvélar.
Þegar hönnuðir Airbus fór að hanna flugvélar verksmiðjunnar, allt frá ATR 42 og upp úr, ákváðu þeir að auka þessa breidd upp í 18 tommur eða tæpa 46 sentimetra, og ég hef áður bloggað um þetta atriði.
Í flugvél með sex sætum í hverri röð þýðir þetta að skrokkbreidd vélarinnar er 15,3 sentimetrum meiri en hjá Boeing og maður finnur fyrir því, þótt ótrúlegt sé, rétt eins og maður finnur fyrir þessu í fullskipuðu aftursæti bíla, eins og ég hef áður fjallað um hér á síðunni.
Vonandi er rannsóknin á vegum Airbus gerð af óhlutdrægni, en betra hefði samt verið að einhver annar aðili hefði gert hana, því að útkoman varð fyrirsjáanlega Airbus í hag.
![]() |
Ein tomma skiptir miklu máli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.10.2013 | 20:20
Best að ráðherrar eigi ekki atkvæðisrétt á þingi.
Í frumvarpi stjórnlagaráð til nýrrar stjórnarskrár er leitast við að jafna valdahlutföllin í hinni þrískiptu stjórnskipun þannig að dregið verði úr ofurvaldi framkvæmdavaldsins, þ. e. ríkisstjórnarinnar á kostnað Alþingis. Einnig að draga úr því þrúgandi oddvitaræði sem oft hefur ríkt á þingi.
Gott dæmi um það að ráðherra telur sig ekki þurfa að bíða eftir afgreiðslu þingsins er einhliða yfirlýsing sem umhverfisráðherra gaf um það að hann hefði afturkallað ný náttúruverndarlög.
Eitt atriði viðleitni til að draga úr yfirgang ráðherra er það atriði í frumvarpi stjórnlagaráðs að ráðherrar sem sæti eiga á Alþingi sem kjörnir þingmenn, verði að víkja sæti á Alþingi meðan þeir gegni ráðherraembætti og varamenn koma í þeirra stað.
Einnig að auka völd þingnefnda og formanna þeirra og efla eftirlitshlutverk þingsins með framkvæmdavaldinu.
Þessi tilhögun, að ráðherrar megi ekki jafnfram vera þingmenn, er að vísu umdeild.
Til dæmis er bent á að varaþingmennirnir séu ólíklegir til þess að rísa gegn vilja ráðherranna, sem þeir sitja fyrir.
Hitt hlýtur að vega þyngra að ráðherrar sinni betur ráðherrastörfunum í stað þess að deila og drottna á þinginu og vera með nefið ofan í hvers þingmanns koppi.
![]() |
Ráðherrar geti vikið sem þingmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.10.2013 | 15:03
Tveir atburðir hafa gerbreytt stöðunni.
Fyrir rúmri viku vissi enginn nema að Jón Gnarr ætlaði í framboð í næstu borgarstjórnarkosningum.
Þá leit líka út fyrir að flugvallarmálið yrði svo mikið hitamál í næstu kosningum að jafnvel nýtt framboð um hann gæti komið til skjalanna.
Nú hefur hvort tveggja breyst, Jón Gnarr á förum en flugvallarmálið fryst ( þó ekki na-sv-brautin, því miður) og allt önnur staða er komin upp í einu vetfangi í borginni.
Jón Gnarr skilur eftir sig merkan feril og áhrif, þótt ekki sé nema fyrir það, að hann er fyrsti borgarstjórinn í meira en áratug, sem situr heilt kjörtímabil.
Á árunum 2002-til 2010 voru nefnilega hvorki meira né minna en sjö borgarstjórar í embætti í Reykjavík !
Meðal fylgismanna Jóns er Óttar Proppé og hann kemur fyrst upp í hugann sem arftaki Jóns, skarpur maður og snjall.
En nú er erfitt að spá um hvað tekur við og spennandi tímar framundan í borgarmálunum.
![]() |
Jón Gnarr hættir í vor |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.10.2013 | 20:15
Rangar síbylju fullyrðingar um Álftanesveginn.
Ef það er rétt hjá talsmönnum midi.is að ekki hafi verið hætta á ferðum varðandi miðasöluna eins og talsmenn KSÍ segja, er það ekki nýtt að rangfærslum sé bætt um þessar mundir.
Fyrir nokkrum dögum bað ég Ólaf Kr. Guðmundsson, sérfræðing hjá umferðaröryggisstofnun Evrópu, að reikna út slysatíðni Álftanesvegar og bera hana saman við aðra vegarkafla sem Vegagerðin hefur gert á höfuðborgarsvæðinu.
Ólafur notaði tölur Vegagerðarinnar og reiknaði eftir tveimur formúlum; annars vegar aðferð Vegagerðarinnar, þar sem öll óhöpp og slys eru talin saman, og hins vegar eftir aðferð, sem notuð er almennt í Evrópu, þar sem aðeins eru teknar tölur um slys á fólki.
Merkilegt að algengasta aðferðin í Evrópu sé ekki notuð hér en það sem svosem ekkert nýtt að við Íslendingar viljum séríslenskar aðferðir, oft vegna þess sem við köllum "séríslenskar aðstæður".
Gallinn við að taka öll óhöpp með er sá, að þá virðast sum umferðarsvæði vera miklu hættulegri en þau raunverulega eru. Þannig koma til dæmis næsta umhverfi Hagkaupa og Fjarðarkaupa með sínum stóru bílastæðum svo illa út vegna alls konar minni háttar árekstra og hnubbs, að ætla mætti að þar sé lang hættulegast að vera á ferli á bíl.
Hvað um það, báðar aðferðirnar við útreikning á slysatíðni, þar sem miðað er við vegalengd kaflans og fjölda bíla að meðaltali, gefa nánsta sömu niðurstöðu.
Samkvæmt reikniaðferð Vegagerðarinnar er Álftanesvegur númer 22 af 44 vegarköflum, þ. e. 21 vegarkafli er með hærri óhappatíðni en hann.
Enn magnaðri verður niðurstaðan eftir evrópsku aðferðinni, sem byggir á slysatíðni síðustu fimm ára.
Þar lendir Álftanesvegur í 23. sæti af 39 !! 22 vegakaflar eru með meiri slysatíðni og þeir verstu með miklu hærri slysatíðni en Álftanesvegur.
Allir hættulegustu vegarkaflarnir eru innan marka Reykjavíkurborgar á sama tíma og þingmenn hafa ákveðið að ekki fari króna í endurbætur á vegakerfinu í heil tíu ár !!
Meðal verstu kaflanna eru Hringbraut vestan Vatnsmýrar, Flugvallarvegurinn, Breiðholtsbraut og Bústaðavegur.
Það hefur verið notað sem mótbára gegn endurbótum á þessum vegarköflum, að þær séu svo dýrar.
Það er mikil einföldun, því að til dæmis er tiltölulega ódýrt að laga versta hluta Bústaðarvegarins, þar sem hann mætir Reykjanesbraut, þarf engin dýr mislæg gatnamót til, því hafa má þessa lagfæringu svipaða einföldum úrlausnum í ýmsum borgum Evrópu, sem ekki hafa fundið náð hér á landi af óskiljanlegum ástæðum.
Slysatíðnin er svo há á efstu 6-10 vegarköflunum á höfuðborgarsvæðinu, að yfirgnæfandi meirihluti slysanna verða þar.
Nú spyr ég: Hve lengi ætlum við að láta ráðamenn komast upp með það að setja fram rangar fullyrðingar í þvílíkri síbylju að við förum að trúa þeim?
Og nýta sér þessar blekkingar til þess að keyra með offorsi í gegn fráleita loftkastalalausn í Gálgahrauni.
![]() |
Skýringar KSÍ um miðasölukerfið rangar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
29.10.2013 | 00:28
Vonbrigði með Obama.
Kjör Baracks Obama 2008 fyllti mann svipuðum vonum og kjör John F. Kennedys 1960. Kennedy var drepinn illu heilli áður en kjörtímabili hans lauk og enda þótt sumum finnist henta að segja, að hann hefði farið sömu óheillaleiðina í Vietnam og Johnson fór, eru mun meiri líkur og gögn sem benda til þess að hann hefði jafnvel frekar dregið úr afskiptum af Vietnam ef hann hefði verið kosinn.
En Obama stefnir á að sitja tvö kjörtímabil og á flestum sviðum hefur hann valdið vonbrigðum, þótt hann hafi staðið sig nokkuð vel baráttu sinni fyrir almannatryggingum.
Kjörorð hans frá 2008, "yes, we can!" hefur umbreyst í "no, we can´t!"
Hann hefur fylgt þannig hernaðarstefnu að veiting Friðarverðlauna Nóbels til hans var hneyksli og skammarleg.
Hann heldur enn í kenningu Bush um að hryðjuverkaógnin hafi komið að mestu frá Afganistan, þótt fyrir liggi að Osama Bin Laden var árum saman í Pakistan og að flestir hryðjuverkamennirnir komu frá Saudi-Arabíu og öðrum löndum en Afganistan.
Obama lét fjárplógsmennina og helstu gerendur í bankakreppunni 2008 sleppa og hefur haldið mörgum sömu haukunum í hernum í fjármálum og voru á snærum Bush til að hafa áhrif á hernaðarumsvif og mannréttindabrot Bandaríkjamanna.
Obama sveik meira að segja loforð sitt um að leggja pyntingafangelsið í Guantanamo niður.
Verst er að Obama virðist ætla að bæta í þá stefnu Bush að gera Bandaríkin og önnur lönd af löndum "Stórabróður" sem er með nefið ofan í öllu. Það er stutt á milli þess að njósnað sé um alla og til þess að innleiða ástand eins og var í Austur-Þýskalandi með sitt STASI.
Með því að haga sér svona stefnir Obama-stjórnin að því að hjálpa dauðum Osama Bin Laden til þess að ná fram þeim vilja sínum að eyðileggja mannréttindi, frelsi og lýðræði á Vesturlöndum.
Verst af öllu er það, að ekki er í augsýn neinn annar sem orðið gæti skárri forseti, heldur virðist Obama vera illskásti kosturinn eins og er, því miður.
![]() |
Vega og meta hleranir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
28.10.2013 | 18:03
Knattspyrna er hópíþrótt.
Knattspyrna er íþrótt þar sem ellefu leikmenn verða að spila vel saman til að árangur náist. En um knattspyrnu eins og til dæmis hópsöng gildir það, að ekki er endilega víst að geta liðsins verði í hlutfalli við getu leikmanna sem einstaklingar. Útkoman getur bæði verið lakari en samanlögð getan eða betri en samanlögð geta.
Eitt sinn var settur saman söngkvartettinn "Einsöngvarakvartettinn" sem var skipaður fjórum söngvurum í allra fremstu röð á Íslandi. En útkoman varð ekki samræmi við samanlagða afburða getu söngvaranna hvers um sig.
Það heyrðist alveg langar leiðir að nafnið á kvartettinum var réttnefni, "Einsöngvarakvartettinn", því að hver rödd skar sig of mikið úr til þess að hámarks samhljómur yrði útkoman.
Dæmi um það að einn leikmaður hafi skilað liði sínu í fremstu röð er Maradona í liði heimsmeistara Argentínu 1986. En hann var líka einstakur leikmaður og liðið lék þannig að hann fengi að njóta sín.
En dæmin um hið gagnstæða eru fleiri, af því að við erum að tala um hópíþrótt og hópsöng.
![]() |
Lið Real Madrid betra án Bale |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.10.2013 | 08:40
"Það þurfti aðstöðu, mannskap og peninga."
Varðandi fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um það hvort íslenskir stjórnmálamenn hafi verið hleraðir, vísa í fyrri bloggpistla mína um hleranir á símum siðsumars 2005.
Síðasta svarið sem ég fékk frá einum af sérfræðingum, sem ég leitaði til, var þessi: "Hafðu engar áhyggjur af því að sími þinn sé hleraður, því að til þess að það lýsi sér eins og þú hefur lýst, þarf aðstöðu, mannskap og peninga."
Svarið sýndi hins vegar, hverjir gátu komið til greina sem hlerendur.
Eins og þessar hugsanlegu hleranir komu fram var ljóst, að ef þær voru stundaðar, voru engir Íslendingar undanþegnir, allt frá æðstu ráðamönnum og stjórnmálamönnum og niður úr.
![]() |
Voru íslenskir stjórnmálamenn hleraðir? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.10.2013 | 21:40
Óreiðukækur stjórnmálamanna.
Ég verð að viðurkenna, að ég er ekki nógu djúpt hugsandi til að skilja þá áralöngu áráttu og kæk stjórnmálamanna, að ákveða upphæðir sem renna í gegnum skattheimtu í tiltekin mál, en fara síðan ekkert eftir því æ ofan í æ, oftast þannig að svikist er um að nota féð í það sem það á að fara, en það tekið traustataki og sett í eitthvað annað.
Ef eitthvað gjald eða skattur reynist hafa verið full hár að mati ráðamanna, af hverju minnka þeir hann þá ekki í fjárlögum í stað þess að "stela" af honum og nota í annað?
Svo er alveg brandari að sjá hvernig pólitískir stundarhagsmunir snúa meginstefnum flokkanna á haus.
Lengi vel var það stefna Sjálfstæðisflokksins og hægri manna að takmarka bæri möguleika RUV til auglýsinga svo að einkareknu stöðvarnar fengju meira auglýsingafé.
Að sama skapi vildu vinstrimenn hið gagnstæða.
Nú hefur þetta snúist við, allt vegna pólitiskra stundarhagsmuna varðandi það að Sjálfstæðismenn vilja draga burst úr nefi Stöðvar tvö.
![]() |
Rýmka auglýsingaheimildir RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)