"...ógna þau vindaský..."

Í ljóðinu um hinstu för Eggerts Ólafssonar talar "gamall þulur" um vindaský, sem ógni. Það má búast við að á norðaustanverðu landinu muni slík ský sjást í fyrramálið, og ég ætlaði að láta fylgja með mynd af einu slíku, sem ég tók á Sauðárflugvelli í dag, en skilyrðin til myndasendinga inn á bloggið virðast vera léleg hér fyrir austan.

Þegar svipað óveður og nú gekk yfir landið sumarið 2005 eða 2006 myndaðist stærsta "rotor"ský sem ég hef séð yfir Kverkfjöllum. Fjöllin eru 1920 metra há, en skýið var að minnsta kosti tvisvar til þrisvar sinnum hærra.

Það leit þannig út, að engu var líkara en að staflað hefði verið upp risavöxnum kringlóttum pönnukökum, eða hvítum bíldekkjum.

Ég vakti þá um nótt yfir flugvél á Sauðárflugvelli, sem ég hafði bundið niður eins vel og ég gat og líka grafið hjólin niður, nefhjólið þó mest. Skýjastaflinn kringlótti og ógurlegi fór þá af stað og stefndi hraðbyri í áttina að flugvellinum, en vegalengdin er um 35 kílómetrar.

Ég sá í hendi mér að ef hann færi yfir völlinn myndu ógnarsterkir vindar blása úr öllum áttum og að þá gæti orðið úti um flugvélina.

En um 7-8 kílómetrum fyrir suðvestan völlinn var eins og hann stöðvaðist og leystist upp.

Búast má við svipuðu fyrirbæri í fyrramálið og að þá muni reyna á hvort FRÚin er nógu vel bundin niður. Vonandi nær hvirfilhringiðan, sem myndast yfir Kverkfjöllum ekki að komast lengra en síðast.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband