Nú tek ég undir með Jóni Gunnarssyni.

Við Jón Gunnarsson erum ekki sammála um alla hluti en ég er 100% sammála því, sem hann segir um Reykjavíkurflugvöll. Völlurinn hefur þá sérstöðu að hann er jafn mikilvægur og allir hinir innanlandsflugvellirnir til samans, af því að hann er önnur endastöð alls innanlandsflugs.

Ísland er að vetrarlagi einhver mesti rokrass í heimi og því er fráleitt að gera völlinn að einnar brautar flugvelli 2016. Ef talan 92% nýting er rétt, sem varpað hefur verið fram um nýtingarhlutfall vallarins með einni braut, jafngildir það því að ófært sé til flugs á völlinn  sem samsvarar 30 dögum á ári.

Það er ótrúlegt ábyrgðarleysi að ætla sér að fara svona með völlinn, eins og til stendur 2016 þegar það liggur ljóst fyrir að enginn annar flugvöllur er í sjónmáli í staðinn nema Keflavíkurflugvöllur.

Allt fram til þessa dags hafa framfarir í samgöngum á Íslandi byggst á því að gera þær hraðari, öruggari og ódýrari.

Þannig styttu Hvalfjarðargöng leiðina fram og til baka til höfuðborgarinnar að vestan og norðan um alls 82 kílómetra. Það hafa verið kallaðar framfarir til þess.

Í Svíþjóð fékkst sátt í áratuga deilu um Brommaflugvöll, sem er inni í borginni. Hún fólst í því að fastsetja flugvöllinn í 30 ár og skoða stöðuna að nýju þá. 30 ár eru lágmark til þess að hægt sé að nota völlinn og byggja upp á honum og við hann.

Ég hef bent á möguleika á að lengja a-v-brautina og gera hana að aðalbraut vallarins og gera stutta, nýja n-s-braut svo að völlurinn verði úr lofti líkur stafnum T í stað stafsins X eins og nú er.

Það eru engir peningar til að gera þetta eins og er, og þess vegna er eina leiðin að "frysta" völlinn í 30 ár til 2044, því að íbúðabyggð, sem nú á að setja niður þar sem na-sv brautin stutta er, myndi eyðileggja möguleikanna á T-laga flugvelli.

1940 var ákveðið að gera tveggja brauta innanlangsflugvöll þar sem núverandi völlur er.

2001 var naumur meirihluti með því í kosningum, sem ekki voru bindandi, að leggja völlinn niður.

Síðan eru liðin 12 ár. Eina lausnin er "frysting" í 30 ár, eða til ársins 2044. Þá setjast menn niður að nýju og skoða stöðuna.

Niðurlagning Reykjavíkurflugvallar er tvöfalt stærra risaskref aftur á bak en Hvalfjarðargöng voru áfram 1998. Ferðaleið þeirra sem ætla að fljúga fram og til baka myndi lengjast um 170 kílómetra.

Það er glæsilegt heimsmet í afturför, því að Keflavíkurflugvöllur yrði eini innanlandsflugvöllur heims, sem staðsettur yrði úti í horni landsins, eins langt frá öllum byggðum landsins og mögulegt er.


mbl.is Lokaorrustan um flugvöllinn hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enginn hefur ákveðið að innanlandsflugið verði flutt frá Reykjavík til Keflavíkur.

Og beinlínis rangt að halda því fram að innanlandsflugvöllur geti ekki verið á öðrum stað á höfuðborgarsvæðinu en Vatnsmýrarsvæðinu, til að mynda á Hólmsheiði eða landfyllingu.

Isavia hélt því fram 21. mars síðastliðinn að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði yrði um 93%?!

Á árunum 2002-2004 var nýtingarhlutfall Ísafjarðarflugvallar um 93% en Reykjavíkurflugvallar OG Vestmannaeyjaflugvallar um 98%.

Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007-2018, bls. 30


"Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum hefur frá árinu 1921 verið veðurathugunarstöð, sem er fræg fyrir að hafa mælt einn mesta vindhraða sem mælst hefur á norðurhveli jarðar."

Og harla ólíklegt er að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði og Ísafjarðarflugvallar yrði það sama.

Ísafjarðarflugvöllur er
á landfyllingu úti í sjó við rætur brattrar fjallshlíðar og fjallið Kubbur (Kubbi) er nokkur hundruð metrum frá suðurenda flugbrautarinnar.

"Skutulsfjörðurinn er girtur bröttum fjöllum, sem eru nærri sjö hundruð metrar að hæð."

11.1.2008:


"Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær áskorun til samgönguyfirvalda um að leggja til fjármuni svo hægt verði að gera þær úrbætur sem nauðsynlegar eru til að Ísafjarðarflugvöllur geti þjónað millilandaflugi."

Þorsteinn Briem, 11.9.2013 kl. 20:18

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

11.9.2013 (í dag):

"Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tekur upp hanskann fyrir borgaryfirvöld og segir mikilvægast að ná sátt um framtíðarskipulag innanlandsflugvallar og hann eigi að vera í Reykjavík.

Hvort það yrði í Vatnsmýrinni eða annars staðar væri hins vegar mál sem leysa yrði í góðri sátt borgar, landsbyggðar og ríkis. Virða yrði skipulagsvald Reykjavíkur.

Innanríkisráðherra sagði viðræður hafa staðið yfir við borgaryfirvöld frá því í sumar um að völlurinn fengi að starfa áfram með fleiri en einni braut lengur en kemur fram í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur."

Innanríkisráðherra segir að virða þurfi skipulagsvald Reykjavíkur


6.9.2013:


Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga telur fráleitt að taka skipulagsvaldið af Reykjavík


Og þær undirskriftir sem komnar eru varðandi Reykjavíkurflugvöll eru einungis um 28% af þeim sem voru á kjörskrá í síðustu alþingiskosningum.

Þar að auki eru þessar undirskriftir langt frá því að vera eingöngu undirskriftir Reykvíkinga og undirskriftasafnanir eru ekki kosningar, sem hafa nú þegar farið fram varðandi Reykjavíkurflugvöll.

Og ekki er kosið um nákvæmlega sama mál þar til einhverjir verða ánægðir með niðurstöðuna.

"78. gr. Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.

Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir."

Stjórnarskrá Íslands


7.9.2013:


"Það eru skýr hagkvæmnisrök fyrir því að þétta borgina í stað þess að halda áfram að þenja hana út, nýta þannig betur fjárfestinguna í gatna- og veitukerfum, draga úr umferð og auðvelda fólki að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur til að ferðast á milli staða.

Kannanir sýna að nýjar kynslóðir borgarbúa vilja frekar búa þétt en dreift.

Í þriðja lagi fylgir flugvellinum ógn við öryggi borgarbúa með stöðugu lágflugi yfir íbúðahverfi.

Sú ógn fer vaxandi ef umsvif á vellinum aukast með fjölgun ferðamanna. Völlurinn er líka orðinn frekari á umhverfi sitt en áður, eins og áform um fyrirferðarmikil lendingarljós og fellingu gamals skógar á útivistarsvæðum borgarbúa sýnir.

Völlurinn
er raunar á alls konar undanþágum frá öryggisreglum, sem ekki þyrfti ef hann væri annars staðar."

Hjarta á röngum stað - Ritstjóri Fréttablaðsins


Ákveðið hefur verið að Landspítalinn verði áfram við Hringbraut, samkvæmt deiliskipulagi sem samþykkt var af borgarstjórn Reykjavíkur 13. desember síðastliðinn, Reykvíkingar starfa flestir vestan Kringlumýrarbrautar og þar er nú verið að þétta byggðina.

Deiliskipulag fyrir Landspítala við Hringbraut samþykkt


Og þeir sem starfa bæði og búa vestan Kringlumýrarbrautar, til að mynda á Vatnsmýrarsvæðinu, geta gengið eða hjólað í vinnuna í stað þess að fara þangað akandi frá austurhluta Reykjavíkur, sem veldur mun meiri innflutningi á bensíni, meira sliti á götum og bílum, meiri mengun, mun fleiri árekstrum og slysum.

En það er einskis virði í augum "umhverfisverndarsinnans" Ómars Ragnarssonar.

Þorsteinn Briem, 11.9.2013 kl. 21:31

3 identicon

Steini Briem,

Er þetta ekki tilvalin málamiðlun?

http://www.visir.is/besta-malamidlun-i-vatnsmyri-utilokud/article/2013130319029

Nýr flugvöllur kostar amk 25 milljarða. Við höfum ekki efni á slíku í nánustu framtíð. Eigum við ekki frekar að nota peningana í að styrkja heilbrigðiskerfið?

Jóhann (IP-tala skráð) 11.9.2013 kl. 23:36

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verðmætasta byggingarlandið í Reykjavík, 135 hektarar innan girðingar flugvallarins á Vatnsmýrarsvæðinu, töldu Samtök um betri byggð árið 2001 að væri að minnsta kosti fjörutíu milljarða króna virði, eða 80 milljarðar króna á núvirði.

Kostnaður við flugvöll á Hólmsheiði var áætlaður árið 2006 um tíu milljarðar króna, eða 15 milljarðar króna á núvirði.

Og þennan kostnað fengi ríkið greiddan að fullu og miklu meira til með sölu til Reykjavíkurborgar á því landi sem ríkið á nú á Vatnsmýrarsvæðinu.

16.2.2012:


Reykjavíkurborg á, ásamt einkaaðilum, 87 hektara af 150 á Vatnsmýrarsvæðinu (58%), að sögn Gísla Marteins Baldurssonar.

Ríkið gæti því fengið um 37 milljarða króna með sölu á 63 hekturum
(42%) á flugvallarsvæðinu til Reykjavíkurborgar, eða 22 milljörðum króna meira en flugvöllur á Hólmsheiði myndi kosta, samkvæmt ofangreindum tölum.

Reykjavíkurborg og einkaaðilar eiga meirihlutann af Vatnsmýrarsvæðinu - Kort


Flugvöllur á Hólmsheiði
yrði í einungis 15 kílómetra fjarlægð frá Lækjartorgi og áætlaður ferðatími þangað frá flugvellinum er 15 mínútur, samkvæmt skýrslu frá september 2006 um framtíðarflugvallarstæði í Reykjavík.

Lóðir á Vatnsmýrarsvæðinu yrðu mun dýrari en á Hólmsheiði en það skilur Ómar Ragnarsson engan veginn.

16.6.2012:


"Sérbýli sem kostar 40 milljónir í Hvarfahverfi [í Kópavogi] myndi kosta 65,6 milljónir [64% meira] ef það væri í Þingholtunum.

Íbúð í fjölbýli sem í Hvörfum væri metin á 19,8 milljónir kostaði 29,4 milljónir í Þingholtunum, sem er dýrasta hverfið á höfuðborgarsvæðinu."

Þingholtin eru dýrasta hverfið á höfuðborgarsvæðinu

Þorsteinn Briem, 12.9.2013 kl. 00:08

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Einhver þarf að borga fyrir lóðirnar. Ekki detta þessir peningar af himnum ofan.

Áður en menn tala um að fremja harakiri á flugvellinum 2016 þarf nýr flugvöllur á Hólmsheiði með öllum sínum mannvirkjum að vera tilbúinn.

Eða halda menn að það hefði gengið að veginum fyrir Hvalfjörð hefði verið lokað upp á þau býti að einhvern tíma kæmu ef til vill göng í staðinn?

Ómar Ragnarsson, 12.9.2013 kl. 00:27

6 identicon

Steini,

Kynntu þér nýjustu kostnaðartölur og tækniatriði um Hólmsheiði.

http://www.isavia.is/files/flugvallarstaedi-holmsheidi---nothaefisstudull_vefur.pdf

Svo kostar smáaura að flytja tengivirkið á Geithálsi.

http://www.visir.is/verdur-ad-rifa-spennuvirki-a-holmsheidi/article/2013130319624

Jóhann (IP-tala skráð) 12.9.2013 kl. 01:00

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Flugsvið Landhelgisgæslunnar yrði að sjálfsögðu einnig á innanlandsflugvelli á Hólmsheiði.

Þyrlur Landhelgisgæslunnar fljúga á um fimm kílómetra hraða á mínútu, þannig að það tæki þær um þrjár mínútur að fljúga með sjúkling af flugvelli á Hólmsheiði á þyrlupall við Landspítalann við Hringbraut, ef á þyrfti að halda, eða jafn langan tíma og nú tekur að flytja sjúklinga með sjúkrabíl frá flugvellinum á Vatnsmýrarsvæðinu að Landspítalanum við Hringbraut.

Og í langflestum tilfellum eru sjúklingar fluttir með sjúkrabíl að Landsspítalanum af öllu höfuðborgarsvæðinu.

Þar að auki eru sjúklingar á Suðurlandi, Vesturlandi og Norðvesturlandi nú þegar fluttir á Landspítalann með þyrlum.

Og í fjölmörgum tilfellum eru sjúklingar á öðrum landsvæðum einnig fluttir þangað með þyrlum, auk allra þeirra sem sóttir eru af hafinu allt í kringum landið í alls kyns veðrum.

"Fastur kostnaður flugsviðs Landhelgisgæslunnar er um 80-85% af árlegum rekstrarkostnaði sviðsins og að mestu óháður því hversu margar flugstundir loftfaranna eru.

Það þýðir meðal annars að fækkun eða fjölgun flugtímanna fer ekki að hafa áhrif fyrr en hún er orðin veruleg."

Ársskýrsla Landhelgisgæslunnar 2003, bls. 9-10


Og enginn hefur ákveðið að sjúkraflug með flugvél frá Norðausturlandi og Austurlandi til Reykjavíkur yrði lagt af með því að færa Reykjavíkurflugvöll af Vatnsmýrarsvæðinu.

Mun kaldara og snjóþyngra er á veturna á þúsundum flugvalla í Norður-Ameríku og Evrópu en á Hólmsheiði, þar sem meðalhitinn er -0,8 stig í janúar, eina mánuðinum sem þar er undir frostmarki, og hér á Íslandi fer lofthitinn hækkandi.

Arlandaflugvöllur við Stokkhólm
er bæði millilanda- og innanlandsflugvöllur, eins og fjöldinn allur af öðrum flugvöllum við höfuðborgir í Evrópu, og meðalhiti í Stokkhólmi í janúar er -2,9°C, rúmlega tveimur gráðum lægri en á Hólmsheiði.

"Stockholm Arlanda Airport is 37 km north of Stockholm."

"Since its opening Stockholm Arlanda has always managed to continue its operations during heavy snowfall and difficult weather.

The airport administration claims to be world-leading at clearing snow from the runways.

Arlanda has a policy to never close due to snowfall."

"The airport was first used in 1959."

Og enda þótt meirihluti Reykvíkinga starfi vestan Kringlumýrarbrautar búa langflestir íbúa á höfuðborgarsvæðinu austan hennar og flestir þeirra búa mun nær Hólmsheiði en Vatnsmýrarsvæðinu.

Fjölmörg fyrirtæki
eru einnig austan Kringlumýrarbrautar, frystur fiskur og saltfiskur er fluttur út frá Sundahöfn og ferskur fiskur með flugi frá Keflavíkurflugvelli.

Og engin ástæða til að leggja af millilandaflug til Reykjavíkurflugvallar, enda þótt flugvöllurinn yrði færður til innan Reykjavíkur.

Þorsteinn Briem, 12.9.2013 kl. 02:13

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hvað með flugvöll yst á Seltjarnarnesi þar sem gólfvöllurinn er?

Guðjón Sigþór Jensson, 12.9.2013 kl. 07:56

9 identicon

Ekki hef ég enn hitt flugmann sem líst á Hólmsheiðina. Og varðandi "þyrluskreppi" á spítala er ekkert hægt að segja en að það yrði fokdýrt bull.
Flest sjúkraflug (oft svona 400 á ári) eiga sér stað með hefðbundnum flugvélum sem eru hraðskreiðari en þyrlan.

Jón Logi (IP-tala skráð) 14.9.2013 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband