Færsluflokkur: Bloggar

Veldur hver á heldur og hvað gert er.

Vindmyllur hafa marga kosti sem orkugjafar. Orkan er hrein og mikil á einu vindasamasta landi veraldar, og þær eru afturkræfar ef menn telja of langt gengið. Ókostirnir eru skrykkjótt orkuframleiðsla, hávaði og sjónmengun. Erlendis hafa menn sum staðar kippt að sér höndum varðandi útþenslu þeirra og fjolda.

Vindmyllur eiga erindi til Íslands, á því er enginn vafi. Eins og í öðru verðum við hins vegar að gæta okkar í því að rasa ekki um ráð fram. Sígandi lukka er best og það er ekki síður atriði að vanda vel við valið á vindmyllusvæðum en að vanda valið á þeim svæðum, þar sem þær megi alls ekki vera.


mbl.is Almenningur hlynntur vindorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munurinn á Háaleitisbraut og Hofsvallagötu.

Í borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar var gerð róttæk en nauðsynleg og vel heppnuðu breyting á Háaleitisbraut, sem hafði verið ein af helstu slysagötum borgarinnar. Í stað tvisvar sinnum tveggja akbrauta hraðbrautar kom annars vegar tvískipt húsagata og hins vegar einbreið og bugðótt 30 km metra gata, afar huggulega útfærð.

Á einu augabragði hurfu slysin og óhöppin, enda er útfærslan afar einföld og auðskiljanleg.

Öðru máli gildir um Hofsvallagötu og götu úti á Granda sem nú er búið að breyta. Þar eru settar út í göturnar bogadregnar breikkaðar gangstéttir með stuttu millibili sem þjóna engum tilgangi öðrum en að koma ökumönnum í vandræði þegar þær birtast allt í einu fyrir framan þá.

Þessar útbungandi gangstéttir gagna engum, hvorki gangandi né hjólandi, rugla ökumenn bara í ríminu. Á milli þeirra er tvöföld umferð sem allt í einu breytist í þrengsli þar sem íslenskir bílstjórar, sem kunna ekki alþjóða umferðarregluna "fyrstur kemur, fyrstu fær", öðrum nöfnum "tannhjóls / rennilás" umferð byggist á.   

Þetta sleppur kannski að mestu í sumar og haust en þegar snjóar yfir þetta í vetur fer gamanið að kárna.

Þetta var gert að mestu án samráðs við íbúa og nú sitja menn uppi með þetta vegna þess að það er nýbúið að henda í þetta miklu fé og það erdýrt er að breyta því til baka.


mbl.is „Reykjavík er bílaborg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruglingur varðandi bílategundir.

Stundum getur verið erfitt að ákveða hvar takmörk blílgerða liggja. Nokkuð ljóst er að þeir þrír bílar sem í grundvallaratriðum voru sama bílgerðin allan framleiðslutímann eru Volkswagen Bjalla, 21 milljónir, en næst á eftir henni koma tveir, Ford T og, - merkilegt nokk, Fiat 124/Lada Nova/Topas, sem eru sami bíllinn framleiddur í nokkrum löndum, í alls um 17 milljónum eintaka.

Toyota Corolla hefur að vísu selst gríðarlega í næstum 40 ár, en hefur breyst algerlega í ótal kynslóðum á þessum tíma, var afturhjóladrifinn með vélina langsum frammi í og heilan öxul að aftan í fyrst en breyttist síðan í framhjóladrifinn bíl með vélina þversum frammi í.

Volkswagen Golf hefur verið framleiddur í sex "kynslóðum" og Skoda Ocatvia einnig í nokkrum kynslóðum og því ekki hægt að leggja saman allar sölutölurnar og segja að Golf og Octavia hafi allfaf verið sama bílgerðin, sami bíllinn.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafa General Motors lofað Ford að komast upp með það að auglýsa Ford F sem mest selda pallbíl Bandaríkjana, en allan tímann hafa sölutölur tveggja sams konar gerða af pallbílum, framleiddum af GM, Chevrolet og GMC, ekki ekki verið lagðar saman eins og eðlilegt hefði verið, því að það eru áðeins smávægilegar útlitsbreytingar sem skilja þessa bíla GM að.

Fleiri dæmi mætti nefna eins og Fiat 600/Seat600/Zastava750, Willys Cj3/Ford jeppa og Willys CJ5/Mahindra jeppa.

Núverandi Porche 911 á fáa hluta sína sameiginlega með upphaflegu gerðinni, þótt enn sé vélin fyrir aftan afturhjólin, sem er einstakt meðal bíla heimsins.    


mbl.is 4.000.000. Oktavian af færibandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minkurinn átti ekki að hafa möguleika á sínum tíma.

Mjög nauðsynlegt er nú, þegar til stendur að margfalda laxeldi hér á landi, að fram fari viðamiklar rannsóknir á þessu sviði og upplýsingar og skoðaaskipti geri auðveldara að taka ákvarðanir í þessu efni.

Sumt af því sem fullyrt er í tengdri frétt á mbl.is hringir þó bjöllum, til dæmis það, að ekki sé ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að eldislax sleppi úr kvíum eða því að hann eigi möguleika til að lifa utan þeirra.

Hvort tveggja var fullyrt um eldisminkana hér á landi, að þeir slyppu ekki út og einnig að þeir ættu enga lífsmöguleika ef þeir slyppu út.

Annað átti eftir að koma í ljós. Hér ber að vanda til verka og fara að með fyllstu gát.


mbl.is Segja laxeldi komið til að vera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algerlega ný hegðun og öfgar ?

Hið óvenjulega og harða hausthret í fyrra var einstætt fyrir það hve snemma það brast á. Nú stefnir í annað eins og það tíu dögum fyrr en í fyrra !

Er þetta tilviljun, tvö ár í röð? Hvað hefur breyst frá því sem verið hefur undanfarna áratugi?

Jú, í allt sumar hefur verið miklu hlýrra á Grænlandi en áður, allt frá suðuroddanum og norður eftir austurströndinni, enda hefur ísinn horfað lengra norður en nokkru sinni fyrr og íslaust á stórum svæðum á ströndinni þar sem áður var ævinlega ís.

Öfgarnar á milli þessa stóra hlýja svæðis og hefðbundins kuldapolls norðvestan við Grænland eru meiri en áður var og þessi aukni munur er afleiðing af hlýnun andrúmslofts jarðar, sem endurspeglast í hærri meðaltölum hita ár eftir ár en áður var, þrátt fyrir hörð haust- og vetraráhlaup.

Óvenju mikið hefur verið um stóra borgarísjaka við norðvestanvert landið og sumir kunna að segja sem svo að það hljóti að vera merki um kólnun lofthjúps.

En svona stórir borgarísjakar, sem sumir hverjir eru á við stórar spildur af jöklum, eru tilkomnir vegna þess að af völdum hitans brotna mun fleiri og stærri spildur úr skriðjöklum Austur-Grænlands en áður.

Nú má alveg víst telja, að þeir, sem standa harðir á því að veðurfar fari ekkert hlýnandi, muni andmæla þessum skýringum mínum kröftuglega eins og þeir eru vanir. Já, það er fjör, jafnt í veðrinu og í deilum um það !


mbl.is Smala í kappi við tímann og veðrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð vatnsveita.

Það er lærdómsríkt að koma í Yosemite þjóðgarðinn í Kaliforníu og að Hetch-Hetchy miðlunarlóninu í samefndum dal, sem liggur samhliða Yosemite dalnum og utan þjóðgarðsins.

Yosemite dalurinn er mun stærri og magnaðri en Hetch-Hetchy og á sínum tíma var ákveðið að þyrma hinum stærri dal en nýta hinn smærri til að sinna vatnsþörf San Fransisco, því að ekki fannst nein önnur leið til þessarar vatnsöflunar.

Mér var bent á þegar til stóð að búa til Hálslón að það væri sambærilegt við Hetch-Hetchy. En því fer víðsfjarri.

1. Vatnið í Hetch-Hetchy er tært og dalurinn algerlega afturkræfur ef vatninu yrði hleypt af honum. Hann myndi fljótlega gróa upp á ný og verða eins og hann var áður en honum var sökkt. Og hinn friðaði dalur við hliðina er stærri og stórfenglegri. Hálslón er hins vegar aurugasta miðlunarlón veraldar, nánast drullusúpa, og Hjalladallur óafturkræfari eftir því sem tíminn líður og aurinn fyllir upp dalinn.

2. Menn fundu ekki aðra möguleika til að uppfylla vatnsþörf, algera frumþörf San Fransisco en vatnið í Hetch-Hetchy.  Þegar Hálslón var gert framleiddum við Íslendingar hins vegar þegar þrisvar sinnum meira rafmagn en við þurftum til eigin nota.

3. Hetch-Hetchy miðlunin var gerð fyrir löngu siðan þegar viðhorf Bandaríkjamanna voru á svipuðu stigi og viðhorf okkar eru öld síðar.


mbl.is Kjarreldar ógna vatnsbóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg atburðarás í ríki byssunnar ?

Rökin fyrir almennri byssueign í Bandaríkjunum og miklu meira manntjóni og limlestingum af völdum hennar en í sambærilegum ríkjum eru aðallega tvenns konar.

Annars vegar, að landið sé "frontier"- land, þ. e. land með því ástandi, sem ríkir þegar verið er að vinna ný lönd til búsetu. Löng hefð sé fyrir almennri byssueign til að veiða sér til matar og verja sig fyrir ásókn villtra dýra. Sömuleiðis að verja sig fyrir frumbyggjunum.

Hins vegar er það sjónarmið að það séu grundvallar mannréttindi að hver og einn geti varið sig fyrir árásum með því að eiga og nota til þess nógu öflug vopn.

Nú vill svo til að svipuð lönd og þjóðfélög finnast, svo sem Kanada og Ástralía og þar ríkir allt annað ástand, minni skotvopnaeign og margfalt færri skotnir, þótt þau lönd séu óumdeilanlega ekki síður "frontier"- lönd en Bandaríkin.

Yfirgnæfandi meirihluti Bandaríkjamanna býr ekki lengur í dreifbýli, úti á sléttunum eða í fjallendi, heldur einfaldlega í borgum og bæjum og hið gamla kúreka- og landnámssamfélag því víðs fjarrri.

Byssueignin sem sjálfsvarnarúrræði fæðir smám saman af sér óteljandi aðstæður og atvik þar sem sjálfsvörn er notuð sem afsökun fyrir því að drepa fólk af öllum stigum og á öllum aldri, allt niður í tveggja ára börn.

Nýlegt atvik, þar sem lögreglumaður elti uppi hettuklæddan blökkumann, drap hann síðan "í sjálfsvörn" og var á eftir sýknaður af dómstóli, er dæmi um það hugarástand sem byssutrúin fæðir af sér og þær afleiðingar sem hún hefur.  

Sýknudómurinn olli smá óróa um stundarsakir en síðan yppta menn öxlum og taka atvikum eins og þessum sem óhjákvæmilegum og eðlilegum í ríki byssunnar.

 


mbl.is Skaut 2ja ára barnabarn í sjálfsvörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð og ný gerð af...?

Úr því að vændi er bannað á Íslandi er varla við því að búast að bylgja erlendra "drive-in" þjónustu skolist hingað til lands með eftirfarandi lýsingu:  

 Á kvennamenn með hánni hýrri

er hrópað: Vaktu! Vaktu!  

Og gerðu kaup í góðri og nýrri

gerð af Aktu-taktu !


mbl.is Bjóða upp á „drive-in“ vændishús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grettir okkar daga.

Af hverju varð Mike Tyson tekjuhæsti íþróttamaður heims en jafnframt sá sem mestu tapaði? 

Skýringin er líklega sá mannlegi harmleikur og stóra dramatík sem felst í því að vera í nokkur misseri einhver útrúlegasta blanda af afli, hraða og tækni, sem sagan kann frá að greina eins ogTyson var þegar hann var upp á sitt besta, en missa síðan kjölfestu sína, þjálfara og fósturföður, Cus D´amato, sogast inn i vandræðamál og hjónaskilnað og hrynja í kjölfari niður í óvæntasta og greypilegasta ósigur hnefaleikasögunnar, aðeins 24 ára gamall.

Lenda síðan í fangelsi í þrjú ár, rísa aftur upp í mestu hæðir fyrst á eftir, en tapa óvænt á ný eftir aðeins rúmlega eitt ár. Tyson tókst enn 2002 að komast á þann stall að fá að keppa við Lennox Lewis um heimsmeistaratitilinn í þungavigt, en tapaði illa fyrir einum af allra bestu þungavigtarhnefaleikurum sögunnar.

Við Íslendingar þekkjum vel Tyson Íslendingasagnanna, Gretti sterka Ásmundarson. Eitt meginstefið í þeirri sögu er setningin "sitthvað er gæfa og gjörvileiki."

Grettir vann afrek en tapaði líka fyrir Hallmundi. Hann bjargaði skipsfélögum sínum með því að synda í land í Noregi og sækja eld í fjallakofa, en var síðan kennt um það að það kviknaði í kofanum og menn brunnu inni.

Hann stóð eitt augnablik á þröskuldi þess að verða sýknaður, en lét augnabliks bræði eyðileggja það fyrir sér og dæma sig í lengstu útlegð Íslandssögunnar.  

Mótsagnirnar í Grettis sögu gera hana svo sterka og áhrifaríka, - þetta, að aðalpersónan er í senn frægur og illræmdur, bæði að afrekum og endemum;  - dáður eða hundeltur.

Tyson er Grettir okkar daga á alheimsvísu, það blasir við. Þess vegna er engum sama um hann, þess vegna er hann svo frægur og þess vegna stefnir hann hugsanlega í átt að jafn ömurlegan dauðdaga og gerði sögu Grettis svo ógleymanlega.                                            


mbl.is Segist vera að deyja úr alkóhólisma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan endurtekur sig.

Fyrir um 60 árum var svipað ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar og nú. Kreppan, sem kom eftir "gróðæri" stríðsins var það djúp, að núverandi gjaldeyrishöft blikna í samanburðinum. Fólk fékk skömmtunarmiða fyrir ýmsum nauðsynjum og svonefnt Fjárhagsráð réði öllu um innflutning í smáu og stóru.

Langar biðraðir mynduðust við búðir þegar þær fengu takmarkaðar sendingar af jafn einföldum hlutum eins og sokkum.

Sem dæmi má nefna að KR fékk að flytja inn eitt par af nýjum stökkskóm rétt fyrir EM í frjálsum íþróttum, og sagði Torfi Bryngeirsson mér það, að ef hann hefði ekki unnið hlutkesti um skóna hefði það kostað hann gullið í langstökkinu, svo lélegir voru stökkskór hans þá orðnir.

Um 1950 var andinn þannig í þjóðfélaginu og í stjórnmálunum að ekki var talið hægt að komast hjá því að setja á nýjan stóreignaskatt, svipaðan auðlegðarskattinum nú, og með svipuðum deilum og skoðanaskiptum um hann og nú.

Núverandi ríkisstjórn setti strax í forgang ráðstafanir sem gagnast mest þeim sem einna mest hafa umleikis í þjóðfélaginu og þar gilti loforðið "efndir, - engar nefndir" svo sannarlega.

Því þarf engum að koma á óvart að við allra fyrsta tækifæri verði auðlegðarskatturinn lagður af, rétt eins og stóreignaskatturinn á sínum tíma.  


mbl.is Auðlegðarskattur ekki framlengdur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband