Færsluflokkur: Bloggar

Dæmalaus afturhaldshugmynd.

Eitt af því sem svonefndri "Landsnefnd" var falið að gera 1770 og finna möguleika á að bæta samgöngur á Íslandi. Ekkert af því, sem þá var lagt, var framkvæmt. Í því fólst stöðnun en þó ekki bein afturför og það var ekki fyrr en í lok 19. aldar sem hægt og bítandi en þó með vaxandi hraða.

Sú stefna felst í því að gera samgöngur greiðari, hraðari og öruggari til hagsbóta bæði fyrir þéttbýli og dreifbýli, fyrir höfuðborg og landsbyggð, jafnt vegna atvinnulífs, menningar og heilbrigðisþjónustu.

Því er með ólíkindum þegar borgarfulltrúar höfuðborgarinnar nær einróma ætla að beita sér fyrir þeim ótrúlegu tímamótum að í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar verði stigið skref aftur á bak, og ekki aðeins fyrsta og stærsta skref aftur á bak sem tekið hefur verið í þjóðarsögunni, heldur stærsta skref aftur á bak sem mögulegt er að taka.

Til að sveipa þennan gerning blekkingarblæju er talað um að "færa flugvöllinn" þótt fyrir liggi að ekkert annað nothæft flugvallarstæði sé í landi Reykjavíkur og því síður neitt fjármagn til að byggja hann.

Staðreyndin er þessi: Málið snýst um það að færa innanlandsflugið til Keflavíkur og lengja ferðaleið þeirra, sem það þurfa að nota, um 170 kílómetra samtals ef farið er fram og til baka.

Það er aðeins eitt ráð til ef þetta á að ganga fram: Ef það kemur í ljós þegar fyrir liggja niðurstöður í prófkjörum og uppstillingum framboðanna í Reykjavík í næstu borgarstjórnarkosningum, að meirihluti komandi borgarfulltrúa ætlar að hrekja innanlandsflugið í burtu, þarf að vera búið að ganga frá því að hægt verði að bjóða fram sérstakan þverpólitískan "Höfuðborgarlista" þeirra, sem vilja afstýra þeirri kúvendingu í samgöngumálum að gera samgöngur erfiðari, óöruggari, tímafrekari og dýrari.  


mbl.is Tveir vilja flugvöll í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein af fyrirmyndum allra sjónvarpsmanna.

David Frost hefur líklega verið fyrsti erlendi sjónvarpsmaðurinn sem íslenskir sjónvarpsmenn vildu taka sér til fyrirmyndar. Í upphafi sjónvarps á Íslandi fór séra Emil Björnsson, fyrsti fréttastjóri og dagskrárstjóri frétta- og fræðsluefnis í kynnisferð til Bandaríkjanna en hafði líka dvalið við nám í Bretlandi áður en brautryðjendastarf hans við sjónvarpið hófst.

Það ér því áreiðanlega ekki tilviljun að einn af fyrstu bresku sjónvarpsþáttunum, sem sýndir voru í íslenska sjónvarpinu, ef ég man rétt, voru þættir með nafninu "Frost over England", '- nafnið dæmigert fyrir húmor og hugkvæmni David Frost.

Fyrir fyrstu íslensku sjónvarpsfréttamennina og dagskrárgerðarmennina skemmdi ekki fyrir að Frost var á svipuðum aldri þeir og angaði af æskufjöri, gáfaður, ferskur og fjörugur.

Hann var kornungur miðað við aðra þekkta menn, aðeins einu ári eldri en ég, og ég og jafnaldrar mínir hrifumst af honum.

Á hans tíma voru fjölmiðlamenn í sjónvarpi eins og hann og Walther Chroncite að verða áhrifavaldar í þjóðmálum og stjórnmálum heimsins.

Sagt er að eftir ferð Chroncite til Vietnam 1968 eftir Tet-sókn Vietkong þar sem hann endaði magnaðan pistil með hinum fleygu orðum, sem hann endaði oft fréttir sínar og pistla á: "That´s the way it is", hafi Johnson þáverandi forseti sagt: "Fyrst Chroncite segir þetta er málið tapað." Og í kjölfarið ákvað hann að bjóða sig ekki fram um haustið, en það jafngilti afsögn.

Nú safnast helstu erlendu brautryðjendurnir einn af öðrum til feðra sinna. Þeir komu sjónvarpinu og áhrifum þess á kortið og þar með samlíkingunni um fjórða valdið. Á því valdi er vandasamt að halda en David Frost gerði það flestum öðrum betur.   


mbl.is Sir David Frost látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Írakslykt af þessu.

Breska þingið má hafa heiður fyrir að hafa ekki samþykkt það að ráðist sé á Sýrland án þess að rannsóknarnefnd Bandaríkjaþings hafi staðfest það óyggjandi að stjórnarher Sýrlands hafi staðið að eiturefnaárás á óbreytta borgara.

Meðan Saddam Hussein var í náðinni hjá bandarískum stjórnvöldum lyftu þau ekki litla fingri til að stöðva eiturefnaárásir hans og aðrar árásir á Kúrda.

Kanarnir réðust ekki á her Saddams fyrr en hann hafði ráðist á Kuveit og lagt olíulindirnar þar undir sig.

Þegar Saddam gerðist óþægur á valdatíma George W. Bush var talað um "óyggjandi sannanir um að hann réði yfir "gereyðingarvopnum." Þau fundust aldrei.

Ég var í hópi þeirra milljóna sem bundu miklar vonir við Barack Obama þegar hann tók við völdum.

Mér fannst hins vegar fráleitt að sæma hann Friðarverðlaunum Nóbels.

Eftir það hefur Obama valdið vaxandi vonbrigðum og nú virðist hann jafnvel kominn fram úr George W. Bush í mannréttindabrotum og njósnum gegn eigin þegnum og herskáum yfirlýsingum og aðgerðum í Miðausturlöndum.

Að vísu var það grunsamlegt hve seint Sýrlenska stjórnin veitti rannsóknarnefnd Sþ leyfi til að fara inn á svæðið, þar sem talið er að eiturefnum hafi verið beitt.

En meðan óyggjandi sannanir liggja ekki fyrir liggur ekkert á að ráðast á Sýrlendinga, auk þess sem sporin frá því í Írak 2003 hræða. Það er Írakslykt af þessu, skítalykt af málinu.


mbl.is Búast við árás á hverri stundu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líka vetur í júlí. "Hvar erum við?"

Það er ekki nýtt að fjallvegir teppist vegna snjóa í ágúst. Það er meira að segja ekki nýtt að fjallvegir teppist í júlí. Ég minnist þess að ófært varð á leiðinni milli Norðurlands og Austurlands í júlí 1967.

Rúta Jóns Ágústssonar var þá á leið frá Egilsstöðum til Reykjavíkur frá héraðsmóti Sjálfstæðismanna í Neskaupstað. Ég fór suður eftir ballið ásamt fólkinu í hljómsveit Magnúar Ingimarssonar með flugvél Flugfélags Íslands frá Egilsstöðum, en í rútunni hjá Jóni var "eftirlitsmaður" Sjálfstæðisflokksins með því að héraðsmótahaldið færi vel og siðsamlega fram.

Svo slysalega hafði hins vegar viljað til að hann sjálfur hafði einn manna dottið í það í Neskaupstað og lá því sofandi í íáfengissvefni í aftursæti rútunnar ófær um að fara um borð í flugvél.

Var því ákveðið að hann héldi einn áfram suður í rútunni með Jóni.

Norðanhret gekk yfir landið og á Möðrudalsfjallgarði þurfti Jón að fara út til að moka snjó.

Þegar Jón kom til baka inn í bílinnn eftir moksturinn, barst hrollkalt loft inn í bílinn, svo að farþeginn, "eftirlitsmaðurinn" hrökk upp af værum áfengisblundi.

"Hvar erum við?" spurði hann ringlaður.

"Við erum hérna rétt hjá", svaraði Jón og "eftirlitsmaðurinn" lagðist aftur til svefns, hæstánægður með svarið.  


mbl.is Vetur í ágúst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eigi kann ég skip að festa...."

Ýmsar ráðstafanir þarf nú að gera í ágúst, sem venjulega eru gerðar um hávetur, svo sem að binda lausa hluti niður.IMG_0245

Hefur svo verið allt frá landnámstíð og nú er brýnt fyrir fólki að gera það.

Frægasta atriðið í þessa veru úr Íslendingasögunum er líklega atriðið í Gísla sögu Súrssonar, þegar bundin voru skip í Dýrafirði og Gísli mælti þessi afdrifaríku orð: "Eigi kann ég skip að festa  ef þetta tekur veður upp." IMG_0240

Mér verður oftast hugsað til þessa þegar ég er að binda flugvélar, sem standa úti.

Eftir að ég flutti Örkina að austan og suður til viðgerðar í Sandgerði, verður að huga að henni þar til hún fer í hús, sem verður væntanlega nú í september.

Í fyrradag fór ég austur á Selfoss til að binda FRÚna þar sem hún standur á Selfossflugvelli og sagði þá við sjálfan mig: "Eigi kann ég flugvél að binda ef þessa tekur upp."

Og í dag var það Örkin, sem binda þurfti þannig að ekki væri hætta á að hún fyki í kvöld.

Meðan ég var að binda hana, leit ég upp til gluggans sem vestfirska frúin lítur út um þegar hún er að gæta að því hvað bóndi hennar er að sýsla.

Og þá kom auðvitað fram á varirnar orðrétt vestfirska setningin úr Gísla sögu Súrssonar: "Eigi kann ég skip að festza ef þetta tekur veður upp."

 


mbl.is Lentu í ófærð á Vestfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg nákvæmni.

Í haustóveðrinu í fyrra skeikaði um hálfa til eina gráðu um hitaspá Veðurstofunnar fyrir norðausturland og því snjóaði mjög mikið á svæði þar sem annars hefði rignt mikið.

Í gær fór ég inn á vefinn til að skoða spána fyrir næsta sólarhring og var spáð 21 millimetra í Reykjavík.

Í morgun kom síðan raunveruleg tala; 20,8 millimetrar. Skekkja upp á 0,09% eða minna en einn hundraðasta!  Betra gerist það varla.


mbl.is Stefnir ekki í neitt stórflóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþarf nýyrði: "Réttarstörf."

Ég hef aldrei fyrr heyrt annað orðalag um réttirnar en það að það orð nái yfir öll þau störf sem þær byggjast á. "Réttarstörf" er óþörf lenging, svona svipað og að sagt væri um réttasönginn að hann væri "réttasöngstörf". 

Þar að auki eru réttir fleirtöluorð og réttarstörf þvi hæpið orð.

Réttir halda áfram í dag, það er ekki flóknara en það.


mbl.is Réttarstörf halda áfram í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn er órætt um hlutverk varaflugvallar.

Enn er eftir að ræða um mörg atriði varðandi Reykjavíkurflugvöll. Til dæmis hefur ekkert verið minnst á hlutverk vallarins sem varaflugvallar.

Mismunurinn á Íslandi og öðrum löndum er sá að Ísland er lítil eyja langt frá öðrum löndum, en í öðrum löndum er völ á tugum eða jafnvel hundruðum varaflugvalla án þess að það þurfi að fljúga meira en 1300 hundruð kílómetra til að lenda á þeim.

Á Íslandi er Reykjavíkurflugvöllur varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll ásamt Egilsstöðum og Akureyri.

Höfuðkostur Rvíkurflugvallar er sá hvað hann er stutt frá Keflavík og að þar eru veðurskilyrði betri að meðaltali en í Keflavík. Keflavíkurflugvöllur er berskjaldaður fyrir þeim röku loftmössum, sem helst loka flugvöllum á sunnaverðu landinu og koma úr sunnanáttum.

En Reykjavíkurflugvöllur nýtur þess að Reykjanesfjallgarðurinn tekur oftast mestan rakann úr þessum loftmössum og því eru skilyrði þar betri hvað heildina varðar á hverju ári.

Á Akureyri eru aðflugsskilyrði erfið vegna fjalllendis og Egilsstaðaflugvöllur með betra aðflug.

En ef Reykjavíkurflugvöllur er lagður niður, kostar það 340 kílómetrum lengra flug frá Keflavík að fljúga þangað en til Reykjavíkur. Það þýðir aukið eldsneyti sem því nemur í hverju flugi og það veldur ekki aðeins auknum kostnaði, heldur verður þá í mörgum tilfellum  að henda út farþegum eða farangri og fragt.

En mestu varðar það, að það er hið mesta óráð að fækka nothæfum millilandaflugvöllum á landi sem hefur jafn fáa slíka og er svo fjarri varaflugvöllum og Ísland er.  


mbl.is Yfir 60.000 undirskriftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgarnar í veðrinu.

Óskaplega er það leitt

sem almættið hér gaf:

Annað hvort er alltof heitt

eða að fenna í kaf.


mbl.is Hitinn hægði á smölun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenn flýting hugsanlega til góðs.

Ýmsir fletir eru á því máli að flýta göngum og réttum víða um land. Sums staðar munar 2-3 vikum á réttatímanum núna og því sem var hér á árum áður og einhverjir kynnu að giska á það hve mikið fallþunginn verður minni á styttiri beitartíma. Verður fróðlegt að sjá tölurnar, en þær eru hugsanlega ekki einhlitar, því að sums staðar verður fénu beitt á tún.

Gamli tími réttanna miðaðist við aðstæður í sveitum sem eru mikið breyttar. Þegar ég var í sveit fyrir 60 árum stóð heyskapurinn oftast fram undir miðjan september, enda afköstin við heyskap svo margfalt minni en nú.

Ef féð er tekið fyrr af fjalli og rekið seinna upp minnkar hættan og tjóni vegna hugsanlegrar ofbeitar og haginn batnar sem því nemur. Þess vegna þarf það ekki endilega að hafa minni fallþunga í för með sér þótt féð sé styttra á fjalli.

Alla jafna er hlýrra í ágústlok en í miðjum september, þótt einstaka hret geti gert. Birtutíminn er líka lengri. Þetta tvennt á að geta komið til góða og gert smölunina auðveldari og öruggari og afköstin meiri.

Af framangreindu er hægt að draga þá ályktun að flýting gagna og rétta sé af hinu góða.


mbl.is Fyrstu réttirnar fyrir norðan í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband