Færsluflokkur: Bloggar
24.8.2013 | 17:14
Laghentir menn í blokkum.
Þessi stutti pistill felur ekki í sér alhæfingar. En samt er það svo að óska má sumum laghentum monnnum, sem hafa mikið yndi af smíðum, þess að þeir eigi heima í einbýlishúsum frekar en blokkum.
Stundum eru þetta duglegir og vinnusamir menn sem vinna langan vinnudag.
Af því leiðir að helstu tómstundir þeirra eru á kvöldin og um helgar, einmitt á þeim tímum, sem það kemur sér verst fyrir þá sem búa með þeim í blokk, ef þeir búa í blokk, að hamarshöggin dynji og borar syngi.
Með ólíkindum er hvað hljóð frá slíkum höggum og borunum geta borist víða í stórri blokk.
Það getur stundum verið gaman að fylgjast með verkum þessara manna í huganum, en almennt séð ættu mjög laghentir menn, sem hafa yndi af smíðum snemma á morgnana og seint á kvöldin og um helgar helst ekki að búa í blokkum.
Í sumum blokkum eru margar leiguíbúðir, og ef mikið er um íbúaskipti í þeim fylgir því oft ýmsar tilfæringar eins og flísalagnir og fleira eins og skiljanlegt og eðlilegt er í lifandi samfélagi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.8.2013 | 12:04
Getur verið tap á "gullgæsinni" ?
Orka er dýrseld í heiminum, jafnvel þótt nýir orkuframleiðslumöguleikar séu komnir fram í Ameríku.
Örkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun voru kallaðar "gullgæsir" á sínum tíma.
Ég minnist þess að á fundi Viðskiptaráðs 2007 stóð "forstjóri utan úr bæ", Hörður Árnason, upp og sýndi fram á það með rekstrartölum Landsvirkjunar frá ákveðnu tímabili, þar sem aðstæður, gengi og annað, voru svipaðar í upphafi og enda tímabils, að rekstur þess væri algerlega óviðunandi og að það væri eitthvað meira en lítið að.
Nú segir 6,3ja milljarða tap á hálfu ári ekki alla söguna og þarf lengra tímabil til að átta sig til fulls á stöðunni. Á síðustu tveimur árum er hagnaðurinn á fyrri hluta hvors árs 2,7 milljarðar króna.
Sá hagnaður, 1,35 milljarðar að meðaltali á hálfu ári, getur samt ekki talist viðunandi miðað við hina miklu veltu fyrirtækisins.
Forstjórinn kýs að nota magn seldrar orku þegar hann setur fram jákvæða tölu, en hefði frekar átt að setja fram heildarsöluverð hennar til að gefa réttari mynd.
Það þýðir nefnilega lítið að selja nógu óskaplega mikið, ef það gefur ekki viðunandi arð.
Ráðstefna Isor fyrr í sumar endaði svona:
Fyrirspyrjandi úr sal:
"Ég hef fundið út við ítarlega skoðun að við fáum 20 mills fyrir orkueininguna, sem verið er að selja, en það kostar 40 mills að framleiða hana þegar allt er tínt til. Hvað skoðun hefur síðasti ræðumaður á því?"
Síðasti ræðumaður:
"Ég hef enga sérstaka skoðun á því, - en þetta er rétt."
Fundarstjóri sleit þá ráðstefnunni. Enginn spurði frekar að því hvort þetta gæti verið rétt.
![]() |
Landsvirkjun tapar 6 milljörðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
23.8.2013 | 19:33
Fann úrið sitt uppi í fjalli eftir 35 ár.
Jósafat Líndal, bóndi á Holtastöðum í Langadal og hreppsstjóri í Engihlíðarhreppi, týndi forláta vasaúri á göngu uppi i Holtastaðafjalli á öðrum áratug síðustu aldar. Þetta var sannkallað hreppsstjóraúr, með keðju og vandað hulstur eða "hús" utan um úrið.
35 árum síðar átti hann leið um fjallið sem oftar og rakst þá fyrir algera tilviljun á úrið góða þar sem það lá utan í litlum mel.
Hulstrið var kolryðgað, en þegar hann hafði opnað það og trekkt úrið upp, gekk það "eins og klukka", rétt eins og ekkert hefði í skorist.
Þetta þótti það óvenjulegt að úr því varð frétt í Morgunblaðinu. En hvað segir ekki í Biblíunni: Leitið og þér munið finna. Nema, að Jósafat vissi ekkert hvar hann hafði týnt úrinu og hafði því aldrei verið að leita að því.
![]() |
Veskið fannst tveimur árum seinna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.8.2013 | 19:01
"...gerir ekkert til héðan af..."
Ég hef oft sagt, að það sé aldrei of seint að læra að fljúga. Gæti bætt því við að það sé aldrei of seint að fara í fyrsta flugið.
Þegar amma mín heitin, Ólöf Runólfsdóttir, missti mann sinn, fór ég að suða í henni að fara með mér á æskustöðvar sínar, að Hólmi í Landbroti fram að sjö ára aldri, og eftir það að Svínafelli í Öræfum.
Ævinlega sagðist hún ekki vera nógu góð til heilsunnar og vildi ekki að taka áhættu, svona gömul, að fara í jafn langa ferð, jafnvel þótt ég flygi með hana í stað þess að aka.
Árin liðu og síðustu áratugina dvaldi hún á Hrafnistu.
Ég var farinn að halda að þetta þýddi ekki neitt og væri orðið of seint og hætti því að suða í henni, en spurði hana þó alltaf, þegar ég heimsótti hana eða hitti hana, hvernig heilsan væri.
Þegar hún var komin um nírætti minntist ég samt á þetta í tilefni af þessum háa aldri. Þá brá svo við að enda hún teldi sig varla geta farið í svona langt ferðalag, heilsunnar vegna, hefði hún ákveðið að slá til
Ég spurði hana hvort heilsan væri þá, þrátt fyri aldurinn, eitthvað skárri en venjulega.
"Nei", sagði hún, "en núna er ég bara orðin svo gömul og búin að lifa miklu lengur en ég gat vonast til, að ég gef bara skít í heilsuna og fer með þér. Það gerir ekkert til héðan af þótt ég drepist út af þessu ferðalagi", bætti hún við og hló.
Ferðalagið með henni varð ógleymanlegt, sérstaklega fyrir mig, því að hún spaugaði og sagði gamansögur af Skaftfellingum hennar tíma, bæði fyrir vestan og austan sand.
Þegar við flugum yfir Lakagíga og ég sýndi henni Tjarnargíg, sem ber líka nafnið Eldborg eða Eldborgígur, sagði hún mér frá sveitunga sínum forðum tíð, sem þótti ekki vera að sligast undan þekkingu eða vitsmunum og gjarn á að misskilja hlutina.
Konan hans hét Sigurborg eða Eldborg, - ég man ekki lengur hvort, - en hún var kölluð Bogga og þau hjónin áttu aðeins tvær dætur.
Hann var eitt sinn spurður hvort hann hefði komið í Eldborg og þá svaraði hann: "Það var tvisvar, - þegar við áttum hana Gunnu okkar og hana Siggu okkar."
Hann var eitt sinn spurður af því hvort hann hefði komi í Eldborg.
Við lentum á Svínafellstúninu og þetta var mikið ævintýri fyrir gömlu konuna, sem hafði hvorki flogið né komið að Svínafelli í meira en sjötíu ár.
Á leiðinni til baka hafði þessi háaldraða amma mín miklar áhyggjur af því að ég hlyti að vera orðinn mjög þreyttur og var að gauka að mér sælgæti og hressingu !
Hún amma Ólöf var einstök kona, þeim mun skemmtilegri og líflegri sem hún varð eldri.
![]() |
106 ára flaug í fyrsta skipti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2013 | 07:54
Það fyrsta, sem deyr í stríði, er sannleikurinn.
Í ofangreindum orðum felst mikill sannleikur, sem hvað eftir annað hefur sannast í styrjöldum. Þau eiga einnig við um aðdraganda styrjalda og eftirmála þeirra, því að sagt er að sagan sé skrifuð af sigurvegurum.
Hitler réttlætti innrás í Pólland með því að Pólverjar hefðu átt upptökin og sviðsetti atvik í því skyni við landamærin. Bandaríkjamenn fundu hæpnar ástæður, svonefnda atburði á Tonkin-flóa, til þess að stigmagna styrjöldina í Víetnam.
Georg W. Bush réttlætti innrásina í Írak með því að þar væri búið að koma upp gereyðingarvopnum. Aldrei fannst neitt, sem benti til þess að slík vopn hefðu verið þar.
Saddam Hussein var svo viss um að CIA vissi hvað væri satt í þessu efni, að hann vildi ekki beygja sig fyrir því að eftirlitsmenn Sþ, sem hann grunaði um græsku, færu sínu fram í landinu nema að takmörkuðu leyti.
Saddam sagði við réttarhöldin yfir honum, að hann hefði ekki trúað því að gerð yrði innrás í landið, heldur væru hótanir Bush bara látalæti til að kúga hann og Íraka.
Margir fögnuðu því þegar Fidel Castro steypti hinum gerspillta Battista, einræðisherra Kúbu, en voru grandalausir gagnvart því að Castro myndi innleiða annað einræði í staðinn.
Atburðirnir í Túnis, Egyptalandi og Sýrlandi sýna, að engu er að treysta varðandi stríðandi aðila.
Assad Sýrlandsforseti er að sönnu spilltur og firrtur einræðisherra, en það er gömul saga og ný, að oft koma öfgaöfl og jafnvel hreinir misyndismenn sér fyrir í hópi uppreisnarmanna og bjaga svo myndina af átökunum, að fáu eða engu er að treysta sem haldið er fram.
Beiting efnavopna í Sýrlandi gæti verið örþrifaráð hjá hvorum stríðsaðilanun, sem væri.
Og þessi beiting vopna af þessu tagi sýnir hve hættulegt og varasamt ástandið er orðið.
![]() |
Notkun efnavopna væri pólitískt sjálfsmorð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.8.2013 | 21:45
Hvað um "engar nefndir, bara efndir"?
Nú segir forsætisráðherra að aldrei hafi staðið til að láta loforð um skuldaniðurfellingar vera efnd í sumar.
Þá er það afgreitt.
Nú er að fá að úr því skorið hvort það hafi verið misheyrn hjá mörgum þegar sagt var "Engar nefndir - bara efndir."
Átti það að vera "Engar efndir - bara nefndir"?
Siggi heitinn flug endaði allar sínar greinar svona og ég geri það líka: "Mér bara datt þetta svona í hug."
![]() |
Stóð aldrei til að senda ávísun í pósti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.8.2013 | 09:59
Enn bakari hengdur fyrir smið.
Engum sem sá heimildarmyndina um árás á saklausa borgara í Bagdad duldist að þar var framinn stríðsglæpur. Og það sem verra var; athugasemdir og hegðun árásarmannanna báru vitni um djúpt virðingarleysi fyrir mannslífum og að þetta var í þeirra augum svipað því og að vera að eyða meindýrum, rétt eins og þegar harðsvíruðustu nasistarnir voru að drepa Gyðinga
Í stað þess að þessir menn væru látnir svara til saka fyrir athæfi sitt, er sá, sem upp kom um glæpina, dæmdur í tvöfalt lengri fangelisvist en verstu glæpamenn hér á landi myndu dæmdir fyrir.
Hér á við hið nístingskalda orðtak að hengja bakara fyrir smið.
Þótt Bandaríkin séu ekki eina ríkið sem telur sig þurfa að taka á trúnaðarbrotum varðandi ríkisleyndarmál, ber allt atferli bandarískrar stjórnvalda í þessu máli þess vitni, að hræða á rækilega alla þá, sem telja nauðsynlegt að upplýsa um harðræði, ofbeldi og glæpi, sem viðgangast í nafni "þjóðarhagsmuna og öryggis".
Það mun einfaldlega hafa þau áhrif, að þeir, sem standa fyrir slíku geti verið öruggari en áður með að ekki komist upp um þá.
Það er ein hinna dapurlegu hliða þess ríkis "stóra bróður", sem Bandaríkin stefna í að verða og skáka þar með jafnvel STASI og KGB í kommúnistaríkjunum sálugu.
![]() |
Manning situr inni fyrir Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.8.2013 | 23:15
Meðal annars hlaupið fyrir þá sem ekki geta hlaupið.
Reykjavíkurmaraþonið er jákvætt hlaup í hvívetna. Þessa dagana og kvöldin sér maður fólk vera á hlaupum um alla borg til að æfa sig fyrir hlaupið og margir þeirra, sem ætla að hlaupa, safna áheitum til góðra mála eins og glögglega kemur frá á netsíðum þessa dagana.
Það, að leggja af mörkum til söfnunar vegna áheita án þess að hlaupa er í raun víkkuð út mikil þátttaka í hlaupunum. Þetta er því jákvætt á margan hátt.
Það stendur mér nærri að segja frá því að Jónína Ómarsdóttir, kölluð Ninna, kennari við Rimaskóla, ætlar að hlaupa heilt maraþon fyrir Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, samtök, sem vinna fyrir fólk sem flest getur ekki hlaupið sjálft.
Sjálf þekkir Ninna vel til málefna þessara samtaka og skjólstæðinga þeirra. Hún hleypur fyrir frumburð sinn, Ara Óskarsson, sem fæddist svo fatlaður með klofinn hrygg, að hann lifði aðeins í fjóra daga. Hún á líka bróður, sem fæddist með sömu tegund fötlunar og þekkir því kjör þessa fólks frá blautu barnsbeini.
Móðir hennar og amma störfuðu lengi fyrir fatlaða, bæði fyrir kvennadeild samtakanna, íþróttafélag fatlaðra og ferðafélagið Flækjufót.
Rúmir 42 kílómetrar í einum rykk er drjúg vegalengd til að hlaupa. Vonandi gengur Ninnu vel að hlaupa alla leið og safna áheitum fyrir gott málefni.
P. S. Númer Ninnu er #1583.
![]() |
Hleypur fyrir 16 mánaða ofurhetju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 22.8.2013 kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2013 | 19:24
Um að gera "að láta á það reyna."
Einhvern veginn virðist það algengt sjónarmið hér á landi "að láta á það reyna" um sem flesta hluti.
Kannski er þetta gróið inn í þjóðarsálina síðan landnámsmennirnir fyrstu "létu á það reyna" hvort hér væri betra að búa en í Noregi.
Nú liggur að vísu ekki fyrir hvort um mælingamistök var að ræða varðandi atviks á mótum Reykjanesbrautar og Miklubrautar/Vesturlandsvegar (ekki "/Vesturlandsvegs" eins og segir í tengdri frétt eða hvort bílstjórinn tók bara áhættuna á því að "láta á það reyna hvort kraninn kæmist undir brúna.
Nýlega ók ég á eftir bíl með háan farm, sem hægði á sér niður í lötuhraða þegar hann fór undir skilti, sem er í sömu háð og brýrnar yfir brautina, að því er virtist vegna þess að bílstjórinn var ekki alveg viss um hæð farmsins heldur ætlaði á "láta á það reyna."
Hér um árið gerðist magnað atvik við einu stálgrindabrúna, sem þá var eftir á Suðurlandi, sem lýsti ótrúlegum vilja til "að láta á það reyna" hvort hann kæmist á flutningabíl yfir brúna, sem var talsvert þyngri en leyfilegt var og auk þess spurning um sentimetra, ef ekki millimetra, hvort hann slyppi í gegn.
Vegna þess hvað bíllinn var þungur svigjuðu hliðargrindur brúarinnar aðeins inn á við þannig að bíllinn rakst báðum megin utan í.
Í stað þess að hætta við, gaf bílstjórinn fulla gjöf og tróð bílnum við illan leik í gegnum brúna, þannig að bæði bíll og brú stórskemmdust.
En það var "um að gera að láta á það reyna."
![]() |
Kranabíll rakst upp undir brú |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hve oft hefur ekki verið fullyrt að einhver umbúnaður sé svo fullkominn að ekkert geti farið úrskeiðis.
Fullyrt var þegar fyrstu minkarnir voru fluttir til Íslands að útilokað væri að þeir gætu sloppið. Framhaldið þekkja allir.
Sauðfjársjúkdómar, sem ollu Íslendingum miklu tjóni, stöfuðu frá innfluttu fé, sem fullyrt var að hættulaust væri að flytja inn til landsins.
Sjóeldiskvíar áttu að vera pottþéttar þegar þær voru fyrst settar upp hér á alndi og 1912 átti Titanic ekki að geta sokkið.
Murphys-lögmálið er það eina sem ekki getur klikkað, sem sé það, að geti eitthvað á einhvern hátt farið úrskeiðis og sé hægt að framkvæma eitthvað rangt, muni það gerast fyrr eða síðar, og stundum miklu fyrr en nokkurn óraði fyrir.
Samanber tilkynninguna úr flugstjórnarklefanum: "Í þessari flugvél er öllu stjórnað sjálfvirkt af svo fullkomnum búnaði, að þar getur ekkert bilað...ekkert bilað...ekkert bilað....ekkert bilað... ekkert bilað.........."
Á YouTube má sjá þegar Airbus þotu var í fyrsta sinn flogið lágt og alveg sjálfvirkt í átt að flugbrautarenda og átti að hækka flugið og klifra. Það gerðist ekki og þessi stóra þota flaug áfram í sömu hæð inn í hávaxinn skóg og fórst þar.
![]() |
Býflugurnar sluppu út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)