Færsluflokkur: Pepsi-deildin

Án Gylfa og Jóhanns Bergs er mikið verk framundan.

Á fyrstu sjö mínútum leiksins við Þýskalands í kvöld mátti nstum því sjá það greinilega hvað það munar um fjarveru Gylfa og Jóhanns í landsliðinu okkar. 

Við vítateiginn galopnaðist svæði, þar sem vantaði íslenskan varnarmann, og Gylfi Þór er ekki síður mikilvægur í vðrninni en sókninni.

Seinni hálfleikurinn var skárri og vonandi að hægt sé að þróa leik liðsins áfram fyrir næstu leiki.  

Framundan er mikil verk hjá liðinu og þjálfurunum að endurheimta þann styrk sem landsliðið náði á blómaskeiði sínu. 


mbl.is Hörmuleg byrjun varð Íslandi að falli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

And the winner is: To step aside.

Hægt og bítandi birtast ensk orð og orðtök í íslensku máli með því að troða sér inn í málið í hrárri þýðingu, sem aldrei hefur verið notuð áður, og útrýma fjölda góðra íslenskra orða og orðtaka.  

Eitt dæmið, tekið hrátt upp, beint úr ensku, er þegar fólk fer ekki lengur afsíðis, dregur sig í hlé, segir af sér, víkur úr starfi, er vikið úr starfi, breytir til, hættir einhverju eða tekur sér frí eða hlé. 

Nei, það er gömul og gróin íslenska, og það virðist talin úrelt og hallærislegt að nota þessi orð, heldur skulu ensku orðin "step aside" allsráðandi hér eftir. 

Með því færist málnotkunin á nýtt stig, - afsakið - verður á nýju leveli af því að hin enska hugsun skín í gegn með hinni nýju og hráu þýðingu. 

Sigurvegarinn er því ný málnotkun og ný hugsun upp á ensku, - afsakið - the winner is: step aside í lélegu dulargervi. 


mbl.is Reynir að stíga til hliðar á þinginu til að sjá leikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búbbi og Ásgeir, snilldartilþrif sem aldrei gleymast.

Nú er hann fallinn frá, blessaður, knattspyrnusnillingurinn Jóhannes Eðvaldsson, sem skóp svo mörg ógleymanleg augnablik á ferli sínum sem ber að þakka og lúta höfði í virðingu. 

Austur-Þjóðverjar voru eina þjóðin sem vann heimsmeistarana Vestur-Þjóðverja á HM í knattspyrnu 1974 og enginn átti von á því að íslenska landsliðið byði upp á þá veislu, sem var á boðstólum á Laugardalsvellinum árið eftir og það í Evrópukeppni. 

Hjólhestaspyrna Jóhannesar var bara eitt af mörgum snilldartilþrifunum sem hann sýndi í landsleikjum. 

Í landsleik við Norðmmenn, ef rétt er munað, bjuggu hann og Ásgeir Sigurvinsson til ógleymanlegt mark, þegar Ásgeir sendi eina af sínum heimsfrægu þrumusendingum af eigin vallarhelmingi á ská yfir í teig andstæðinganna, þar sem Jóhannes stökk rétt enn einu sinni höfði hærra en allir aðrir og skallaði boltann í netið. 

Í myndbandinu sem fylgir tengdri frétt á mbl.is er hægt að mæla sérstaklega með marki Ásgeirs Sigurvinssonar sem sýnir muninn á frábærum knattspyrnumanni og algerum snillingi. 

Afar löng og há sending berst fram völlinn og Ásgeir tekur langan og ofurhraðan sprett til að ná til boltans og skjóta honum þegar hann kemur niður úr fluginu. 

Ef hægt er á myndinni eða atvikið skoðað aftur sést, að þegar boltinn er enn á fluginu aftan að Ásgeiri, styttir hann örlitið tvö skref í bruninu án þess að hægja á sér og stillir þannig atrennuna á fullri ferð að boltanum, að hann smellhittir hann og skorar óverjandi mark. 

Síðar í leiknum gerist svipað hjá öðrum frábærum Íslendingi, Elmari Geirssyni, en þótt íðilsnjall og afar sprettharður sé, tekst honum ekki að stilla skreflengdina á sama hátt og afburðasnillingurinn á undan honum og missir boltann frá sér. 

Nú eru þeir báðir horfnir af velli, bræðurnir Atli og Jóhannes. Enn er í minni þegar Atli kom fyrst inn á í leik í Íslandsmótinu, aðeins 17 ára gamall og skoraði í fyrstu snertingu glæsilegt mark af löngu færi. 

Takk, bræður, takk.    


mbl.is Hjólhestaspyrna Jóhannesar gegn Austur-Þjóðverjum (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konurnar áttu kvöldið.

Það má segja að konurnar hafi átt kvöldið í valinu um Íþróttamann ársins, með lið ársins, þjálfara ársins og íþróttamann ársins í efstu sætum. 

Einkum var þetta kvöld Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, sem hlaut hinn eftirsótta titil í annað sinn, líklega fyrsta konan, sem það afrekar, og þar að auki með fullt hús stiga í atkvæðagreiðslunni og hæsta stigafjöldann í 65 ár. 

Það var til marks um víðsýni að Haukur Gunnarsson hlaut þann verðskuldaða heiður að vera tekinn inn í Frægðahöll ÍSÍ. 

Til hamingju!  


mbl.is Sara Björk er íþróttamaður ársins 2020
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt gullaldarlið aðallandsliðsins í uppsiglingu?

U21-landsliðið sem nú stefnir á annað af tveimur stærstu mótunum sem í boði eru í vinsælustu íþróttagrein heims á ekki aðeins skilið hrós og heiðður heldur getur, ef rétt er á haldið og arkað að auðnu, verið í fæðingu hópur sem getur orðið að nýju gullaldarliði eftir nokkur ár. 

Verði þannig í stöðu tll þess að jafna árangur landsliðsins frá síðustu árum, en þar að auki stefnt að því að ná enn lengra. 

Til hamingju, strákar!  


mbl.is Sæti Íslands á EM öruggt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynslóðaskipti hjá örþjóð. Kannski fimm ár í nýtt gullaldarlið.

Fyrir rúmum áratug eignuðust Íslendingar gullaldarlið í knattspyrnu í unglingaflokki, Gylfa Þór Sigurðsson, Kolbein Sigþórsson og kó. +

Þá spáðu margir því og þvi var spáð á þessari síðu, að ef þessi liðsheild héldi áfram að þroskast yrði möguleiki á fyrsta alvöru gullaldarliði Íslendinga í knattspyrnu eftir fimm ár. 

Sú varð raunin, svo ótrúlegt sem það var að þjóð sem gat rúmast við nokkrar götur í erlendri borg, gæti ungað út svona mörgum góðum leikmönnum sem gæti enst nógu mörg ár til að komast á eitt EM, hvað þá HM. 

Það spilaði með að við vorum afar heppnir með þjálfaratvíeykið Lagerbeck og Heimi Hallgrímsson auk einstaklega góðrar stemningar hjá þjóðinni. 

Í síðasta leiknum til að komast á næsta HM leiddu Íslendingar í 83 mínútur. 

Þegar skoðaðar eru myndir af þeim tíu mínútum sem þá voru eftir sést áberandi, að gömlu jaxlarnir og máttarstólparnir, sem eru búnir að afkasta einstaklega erfiðri leikaðferð án mistaka, eru að verða búnir með allt af tanknum, orðnir örlítið hægari og einn þeirra, hinn frábæri fyrirliði, verður að fara af velli og skipta út við frískari mann. 

Þetta var einfaldasta atriði í heimi íþrótta og lífinu sjálfu. Það voru komin kynslóðaskipti, aldurinn farinn að sækja á. 

Þetta eru eðlilegar fréttir og góðu fréttirnar eru þær, að nú hillir undir svipaða framtíðarkynslóð og 15 árum fyrr, sem er að gera góða hluti á stórmótum unglingalandliðsins. 

Þetta er von sem getur ræst ef allt fellur með okkur. 

En það er augljóst, að á tímum eins og núna þegar heimsfaraldur heggur skörð í hópa bestu afreksmanna þjóða, geta Íslendingar ekki krafist þess að vera með jafn stórt og víðfeðmt úrval af leikmönnum í hæsta gæðaflokki og stórþjóðirnar.  


mbl.is Ísland steinlá í kveðjuleik Hamréns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Messistælar hjá Gylfa.

Það var tær snilld að sjá hvernig Gylfi Þór Sigurðsson skoraði mörk Íslands í dag. 

Virtist engu skipta hve margir mótherjar voru fyrir innan hann í teignum, hvert skref og hver hreyfing var hárnákvæmt framkvæmd og boltinn fór í gegnum glufuna, sem þessi meistari gat galdrað fram og auðvitað í bláhornið þeim megin sem markvörðurinn átti síður von á. 

Sjálfur Messi hefði ekki getað gert þetta betur. 

Síðar í leiknum fékk sóknarmaður Íslands hárnákvæma sendingu inn fyrir en stóð ekki alveg nógu rétt í skrefinu þegar hann spyrnti í boltann. 

Þetta minnti á sigurleikinn sæla við Austur-Þjóðverja 1975 þegar Ásgeir Sigurvinsson fékk langa sendingu fram og brunaði beint að boltanum og spyrnti honum hárnákvæmt í skrefinu, en síðar í leiknum fékk Elmar Geirsson sams konar sendingu og stóð ekki rétt í skrefinu og missti af færinu. 

Þegar atrenna Ásgeirs var skoðuð, skref fyrir skref, sást að ca tíu síðustu skrefunum fyrir spyrnuna, hafði hann eitt skrefið aðeins styttra, þannig að atrennan passaði upp á tommu. 

Það væri gaman að greina hinar hárnákvæmu hreyfingar og skref Gylfa á svipaðan hátt og það, hvernig það var engu líkara en að hann laðaði það fram hjá mótherjunum að það opnaðist leið fyrir boltann á réttu augnabliki. 


mbl.is Tvö mörk frá Gylfa og Ísland í úrslitaleik í Búdapest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Partísmitin og djammsmitin verri?

Ekki skánar myndin þessa dagana af smitfréttum síðustu vikna, þegar þjálfari FH talar um að "17 partismit" í Vestmannaeyjum hafi stöðvað íslenska fótboltann, smitsjúkdómasérfræðingur á Landsspítalanum upplýsir, að við aðstæður eins og ríktu á fimmtán þéttsettnum skemmti- og veitingastöðum í miðbænum í Reykjavík um helgina, verði hvert smit að jafnaði sterkara og illvígara en ella og í þriðju fréttinni er greint frá fjölda veikindatilfella, sem hafa leitt erfið eftirköst yfir sjúklinga, svo að framhad á því 

Logi er að vonum svekktur yfir þeim vandræðum, sem bakslagið núna hefur valdið varðandi þátttöku í Evrópukeppni. 

Hvað partí- og djús-og djammsmit varðar, liggur beinast við að álykta sem svo, að því meira, sem fjör, djamm og þrengsli séu, því meira fjör og stuð verði á kórónaveirunni. 

 

 

  


mbl.is Sautján partísmit stöðvuðu fótboltann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjargar "Krýsuvíkurleiðin" eina ferðina enn?

Stundum hafa íslensk handboltalandslið bjargað sér á ævintýralegan hátt með því að fara langsótta "Krýsuvíkurleið" eftir að beinni leið lokaðist. 

Þetta kann að verða erfiðara í þeirri hörkubaráttu sem ríkir í vinsælustu íþrótt heims, en landsliðið okkar hefur sýnt í leikjunum í undankeppni EM að það getur alveg staðið sterkum lansliðum á sporði, þótt þeim árangri hafi verið glutrað niður í leikjum við lakari andstæðinga. 


mbl.is Sæti Íslands í umspilinu tryggt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Krýsuvíkurleið" á EM?

Íslensk íþróttasaga geymir mörg dæmi um það hvernig erfiðleikar í undankeppni stórmóta hafa gert það að verkum, að leiðin á mótin hefur orðið lengri og tvísýnni en ella. 

Hefur slíku verið lýst til dæmis með því að það hafi gerst of oft að eins konar "Krýsuvíkurleið" hafi orðið ofan á, en þegar sú leið var upphaflega lögð fyrir rúmum sjö áratugum var sungið um það í gamanbrag við lagið Lórelei:  "Ég veit ekki af hvers konar völdum sá vegur lagður er", sem var skopstæling á þýðingu ljóðsins: "Ég veit ekki af hvers konar völdum svo viknandi ég er."

Ef liðsandinn og baráttuandinn verður áfram eins og hann var í kvöld í hetjulegri viðureign við ofurefli, er aldrei að vita að það verði hægt að fara hina löngu og seinförnu Krýsuvíkurleið undankeppni stórmóts einu sinni enn.  


mbl.is Er EM-draumurinn úti?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband