Færsluflokkur: Pepsi-deildin
10.10.2015 | 18:34
Tónn agaskorts var gefinn í fyrri hálfleik.
Eftir að Íslendingar voru í krafti djarflegs leiks komnir í tveggja marka forystu rétt eftir miðjan fyrri hálfleikinn fóru að koma brestir í hinn sænska aga sem hefur einkennt liðið síðustu misseri.
Menn fóru aðeins of langt út úr stöðum sínum og voru aðeins of seinir til baka til að koma vörninni til aðstoðar.
Örlítill herslumunur og einbeitingarleysi á mikilvægum augnablikum voru nóg til að gefa Lettum færi á að jafna leikinn.
Þessi tónn var gefinn strax í seinni hluta fyrri hálfleiks og við hann losnaði liðið ekki í síðari hálfleik.
Nú þarf að skerpa sænska agann og samheldnina til þess að setja undir þennan leka og þá mun sólin skína á heiði að fullu á ný.
Jafntefli gegn Lettum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.9.2015 | 20:49
Eftir 57 ára bið.
Þetta hefur verið löng bið, 57 ár ef ég tel þau rétt, sem maður hefur beðið eftir því að sjá íslenska landsliðið komast í úrslit á stórmóti.
Þetta byrjaði ekki gæfulega þegar Frakkar rassskelltu okkur í fyrsta leiknum sem við lékum í undankeppni og við komumst niður á jörðina.
Síðan hafa komið glætur hér og þar, svo sem þegar við unnum Austur-Þjóðverja 2:1 í undankeppni árið 1975 og þegar við stóðum uppi í hárinu á heimsmeisturum Frakka í lok síðustu aldar.
Það er síðan langt fram úr öllum vonum að Ísland skuli vera efst í sterkum riðli þegar aðeins tveir leikir eru eftir og komnir áfram, hvernig sem þeir tveir leikir fara.
Mörg met, svo sem mesta og háværasta stemningin á vellinum og nýtt met í þáttöku í þjóðsöngnum.
Knattspyrna er vinsælasta íþróttagrein veraldar þegar allt er lagt saman, áhugi alþýðunnar, fjárhæðirnar sem eru í spilinu og iðkun í öllum heimsálfum.
Þess vegna er þessi árangur svo magnaður.
Og svo má ekki gleyma því að í fyrstu tveimur leikjum sínum á EM í körfubolta hefur íslenska landsliðið staðið upp í hárinu á tveimur af sterkustu körfuboltaþjóðum Evrópu og rekið af sér þær úrtöluraddir, að liðið ætti ekki erindi í það sterka mót.
Ísland á EM í fyrsta sinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2015 | 21:39
Stuðhelgi í íslenskum íþróttum?
Það virðist óvenjuleg stuðhelgi í uppsiglingu á íþróttasviðinu hér á landi.
Fyrst kom annar sigurinn í röð yfir Hollendingum í undankeppni EM í fyrradag, eitthvað sem aldrei hefur gerst áður hjá þeim, síðan magnaður körfuboltaleikur við firnasterka þjóðverja í lokakeppni EM í dag, þar sem íslensku strákarnir sáu til þess að Þjóðverjar voru ekki vissir um sigur fyrr en á lokasekúndunum, og svo þetta, mikill sigur U21 knattspyrnulandsliðsins yfir sjálfum Frökkum í dag.
Og á morgun er möguleiki á að íslenska knattspyrnulandsliðið verði komið inn í EM jafnvel áður en leikurinn við Kazaka hefst.
Þetta er bara stórkostlegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.9.2015 | 20:46
Stærsta stund íslenskrar knattspyrnu?
Tvöfaldur sigur Íslendinga yfir einhverri bestu knattspyrnuþjóð heims í alvöru stórmótskeppni er þegar orðin stærsta stund íslenskrar knattspyrnu, hvernig sem framhaldið verður.
Við erum að uppskera árangurinn af því þegar ný gullaldarkynslóð kom inn á völlinn fyrir nokkrum árum, menn eins og Gylfi Þ. Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson, en þá man ég eftir því að veðjað var á þá hér á síðunni sem framtíðar gullaldarlið okkar.
3:0 markatala gegn Hollendingum í tveimur leikjum heima og að heiman er eitthvað sem enginn bjóst við fyrirfram, en auk þess að hafa fengið til liðs við okkur Lars Lagerback og Heimi Hallgrímsson, hið fullkomna þjálfarapar, og að vera að byrja að njóta þess að geta leikið knattspyrnu innan húss allt árið.
Íslenska liðið vann verðskuldaðan sigur þótt Hollendingar væru meira með boltann.
Geri Hollendingar jafntefli í næsta leik sínum, erum við komnir áfram á EM, hvernig sem allt veltist.
Ofan á þetta voru íslensku áhorfendurnir í Amsterdam líka sigurvegarar í að láta í sér heyra, þrátt fyrir að vera tuttugu sinnum færri!
Þetta er bara geggjað!
EM blasir við íslenska liðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 22:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.6.2015 | 23:55
Stefán Logi Magnússon hélt á boltanum.
Skoða má umdeild atvik úr leik Stjörnunnar og KR í kvöld á kvikmynd sem sýnd var í tíu fréttum Sjónvarpsins í kvöld og taka út úr henni tvær ljósmyndir.
Atvikið umdeilda varð þegar markvörður KR missti boltann úr höndum sér þegar Ólafur Karl Finsen kom aðvífandi að honum.
Það skýrist aðeins við að skoða það á kvikmyndinni, sem sýnd var í tíu fréttum Sjónvarpsins í kvöld og á ljósmyndunum tveimur.
Á fyrri myndinni sést Stefán Logi vera búinn að ná höndum um boltann og búinn að taka hann um 20 sentimetra upp af jörðinni, en jafnframt sést hvernig Ólafur Karl Finsen er á fullri ferð með tána í átt að boltanum.
Á seinni myndinni hefur Stefán Logi misst boltann í þann mund sem táin á Ólafi Karli skall á honum, svo að boltinn skrúfast upp.
Tveimur sekúndum síðar kastar Stefán Logi sér í átt að boltanum, sem Ólafur Karl er að rekja í átt frá honum, en Stefán er of seinn, nær ekki til boltans, en fellir Ólaf Karl.
P.S. Í fyrstu útgáfu af þessum pistli varð nafnabrengl á markvörðum og var það snarlega leiðrétt.
Upp úr sauð í sigri KR á Stjörnunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt 23.6.2015 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2015 | 20:11
Hvílíkur karakter í mótlætinu!
Þegar Tékkar skoruðu stórglæsilegt mark sitt hefðu mörg íslensk landslið fyrri tíma brotnað saman.
En það var öðru nær.
Strax eftir markið var eins og nýtt íslenskt lið væri komið á völlinn, þvílíkur var krafturinn í stanslausri sókn eftir það að tékkneska markinu sem skilaði flottu marki.
Þegar þetta er skrifað er staðan 1:1, en vonandi heldur íslenska liðið dampinum eftir þessa stórgóðu rispu. Hvílíkur karakter!
P. S. Ég var varla búinn að skrifa þetta fyrr en íslenska liðið skoraði annað glæsilegt mark. Og þetta allt í kjölfarið af bloggi hér á blog.is um það hve íslenska liðið sé afspyrnu lélegt!
Risastórt skref í átt til Frakklands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.3.2015 | 08:06
Yfirlætislaus en árangursrík snilld.
Hún var yfirlætislaus, snilldin á bak við markið, sem Eiður Smári Guðjohnsen skoraði til að opna markareikninginn í leiknum við Kasakstan. Það sem hann gerði virtist svo auðvelt en var samt aðeins á færi afburða knattspyrnumanns.
Hann kom á fullri ferð á hárréttum hraða og tíma til þess að fá draumasendingu til sín, límdi boltann við fótinn og skaut honum í næsta skrefi svo nákvæmlega og hratt að hann rataði á milli varnarmannanna á eina sekúndubrotinu sem þar var opnun, og þaut síðan áfram í bláhornið á markinu, sekúndubroti áður en markvörður Kasaka næði til hans.
Boltameðferð af þessu tagi er aðeins á færi afar fárra, þeirra allra bestu.
"Þessvegna völdum við hann" segir Lars Lagerback.
Jón Óttar Ragnarsson átti gott og gefandi viðtal við Eið Smára í einum þátta sinna á Stöð 2, viðtal við þroskaðan mann, sem nýtir lífsreynslu sína til að reyna að bæta líf sitt og annarra í kringum sig.
Þessvegna völdum við hann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.3.2015 | 13:42
Mistök í vörn = Hörð refsing. Mistök í sókn = Bara mistök.
Einn grundvallarmunur á því þegar varnarmaður gerir mistök og þegar mistök eru gerð í sókn er sá, að sé andstæðingurinn góður, refsar hann varnarmanninum grimmilega eins og gerðist í leik Íslendinga og Norðmanna í Algarve-mótinu í gærkvöldi.
Hefði norska sóknarkonan gert þau mistök að klúðra færinu hefði þau mistök verið skráð sem "bara mistök"; markatalan 0:0 óbreytt í stað þess að mistök íslensku varnarkonunnar breyttu stöðunni í 0:1.
Í venjulegum leik Barcelona eða Real Madrid sjáum við snillingana Messi og Ronaldo gera margar tilraunir, sem flestar misheppnast, jafnvel allar, en það nægir til að menn fyrirgefi þeim, ef þeir bara skora úr einni eða tveimur tilraunum sínum.
Varnarmennirnir, sem verjast þeim, fá hins vegar heldur betur að súpa seyðið af sínum mistökum, jafnvel þótt þau séu bara ein í viðkomandi leik.
Skelfileg mistök (myndskeið) | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2015 | 16:18
Lýsandi fyrirmynd.
Það virðist eitthvað svo öfugsnúið þegar kornungt og efnilegt fólk þarf að glíma við sjúkdóma, sem frekar láta á sér kræla á efri árum og það er gangur lífsins að hinir eldri þurfi að kjást við Elli kerlingu og fylgifiska hennar.
Þegar frændgarðurinn er stór er margt sem gleður og er uppörvandi en líkindin á áföllum eru einnig þeim mun meiri sem fólkið er fleira.
Fátt kom þó meira á óvart en það áfall þegar kornung frænka mín þurfti að horfast í augu við vágest af því tagi sem ungt fólk á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af.
Þetta dundi yfir þegar hún var einmitt að stimpla sig inn sem afrekskona í landsliðsklassa.
En það hefur verið sagt að sannur meistari öðlist ekki þann sess nema þegar hann hefur sýnt hvaða mann hann hefur að geyma þegar áföll dynja yfir og verst gengur.
Sannur meistari er sá sem snýr ósigri í sigur og eflist við hverja raun.
Svo sérkennlega sem það hljómar hefur fátt veitt meiri birtu inn í lífið og tilveruna síðasta árið en hetjuleg barátta Mistar Edvardsdóttur við krabbameinið, sem hún varð að horfast í augu við þegar engin átti sér ills von.
Hún er lýsandi fyrirmynd fyrir okkur öll.
Mist 1 - Krabbamein 0 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2014 | 21:52
Betra liðið vann á ódýru marki.
Í lok leiks Íslendinga og Tékka birtist tafla yfir hornspyrnur, tíma með boltann, heppnaðar sendingar o. s. frv. voru allar tölurnar áberandi Tékkum í vil.
Það var því betra liðið sem vann, á því er ekki vafi, þótt sigurmark þeirra væri ákaflega ódýrt og að með smá heppni hefði jafntefli verið mögulegt, einkum þegar sams konar atvik kom upp hinum megin á vellinum og boltinn hefði getað hrokkið af tékkneska markverðinum inn í markið eins og hjá Hannesi.
Strax eftir að Íslendingar höfðu skorað mark var áberandi hvað íslenska vörnin var opin gegn sóknum Tékka upp vinstra megin og það átti eftir að verða lykillinn að sigri þeirra.
Lið okkar er komið niður á jörðina og í þetta langri keppni eru allir möguleikar enn opnir.
Grátlegt sjálfsmark felldi íslenska liðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)