Færsluflokkur: Pepsi-deildin
16.11.2014 | 00:30
Eitthvað nýtt fyrir Íslendinga?
Oft er talað um að ein helsta ástæða þess Norðmennirnir, sem fóru til landnáms á Íslandi, rifu sig upp og héldu í langa siglingu út á úfið Atlantshafið, hafi verið að þeir vildu þoldu ekki agavald Haraldar hárfagra.
Og að andúð á aga og undirgefni hafi æ síðan verið þjóðareinkenni Íslendinga.
Þetta kann að vera hæpin kenning en engu að síður ber nýrra við þegar útlendingar lýsa yfir aðdáun á einstökum aga, skipulagi og liðsanda hjá íslenska landsliðinu í fótbolta, svo að varla hefur annað eins heyrst nema þá í hefðbundnum aðdáunaryfirlýsingum varðandi aga og skipulag hjá Þjóðverjum.
Agaleysi hefur verið og er oft okkur Íslendingum fjötur um fót á mörgum sviðum, en á hinn bóginn geta ofstrangur agi, undirgefni verið vandamál og leitt í ógöngur, ef hún bælir niður réttlætiskenndi og viðleitni til fjálsrar sköpunar og hugkvæmni.
Vandfetaður meðalvegur hlýtur hins vegar að verða keppikefli og áskorun á flestum sviðum þjóðlífs okkar.
Þess vegna er það fagnaðarefni þegar íslenskur agi dúkkar allt í einu upp sem útskýring á góðu gengi okkar, sem vekur aðdáun og hrifningu erlendis.
Varla kynnst öðrum eins aga og hjá Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.10.2014 | 23:30
Hvað er sem öllu líður er liðið breytt.
Það hefur komið fram í fjölmiðlum að margir erlendir handboltaleikmenn dáist að því hvernig íslensku landsliðsmennirnir fórni sér fyrir liðið og leggi sig fram í ljósi þess hve miklu lakari kjör sé hægt að bjóða þeim en landsliðsmönnum margfalt stærri þjóða.
Smám saman hefur þessi liðsandi orðið þekktur og árangur liðsins á þessari öld talinn kraftaverki líkastur.
Stærðarmunur íslensku þjóðarinnar og annarra þjóða er í bilinu 15 faldur til 300 faldur.
Þetta á við jafnt um knattspyrnu og handbolta, jafnvel þótt miklu fleiri iðki knattspyrnu en handbolta.
Þess vegna á það ekki að vera svo mikið erfiðara að komast inn á stórmót í fótboltanum en í handboltanum.
Vitað er hve mikið skipulagsstarf og yfirlega liggur að baki þjálfun handboltalandliðsins fyrir leiki og mót og hve mikið er lagt á leikmennina við það.
Þess vegna ætti vel að vera hæg að ná fram sama aga hjá landsliðunum í báðum greinum.
Hvort sem talið um takmarkaðan aga fyrr á tíð er ýkt eða ekki leynist hitt ekki, að eftir að Lars Lagerback tók við liðinu hefur það breyst smám saman til mikils batnaðar.
Liðið nýtur þess að vísu að vera þróað upp úr yngra landsliðinu, sem kom fram á sjónarsviðið fyrir nokkrum árum, en sú skýring hrekkur ekki til.
Það býr áreiðanlega meira að baki, og sé svo, er það vel.
Snerist um að djamma með strákunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.10.2014 | 19:46
Einsdæmi: 8:0 eftir 225 mínútur á stórmóti
Það getur vel verið að Holland vinni Ísland í kvöld enda um að ræða eitt af bestu liðum heims. Til þess þurfa Hollendingar að skora 3 mörk gegn engu í síðari hálfleiknum, en þeir skoruðu reyndar þrjú mörk í síðari hálfleik í síðasta leik sínum.
En eftir tvo og hálfan leik er markatala Íslands 8:0, og ég man ekki eftir neinu líku þessu á stórmóti fyrr hjá íslenska landsliðinu.
Annað mark Gylfa var tær snilld snillings sem nýtti til fullnustu sekúndubrot sem var afrakstur mikillar baráttu íslenska liðsins.
Áfram Ísland! Áfram á þessari braut !
Sögulegur sigur á bronsliði HM | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2014 | 19:50
Það var kominn tími á Stjörnuna.
Það er ástæða til að óska Stjörnunni til hamingju með fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn í knattspyrnu karla.
Ég hef látið þá skoðun í ljósi undanfarin ár að í liðinu í Garðabænum blundaði möguleiki á því að þetta gerðist, - spurningin gæti hins vegar verið hvenær það gerðist.
Það var kominn tími á þessi tímamót sem gera umhugsunina um mótið næsta sumar ennþá skemmtilegri.
Í knattspyrnu geta smáatriði og heppnisatriði ráðið úrslitum í viðureign tveggja góðra og ósigraðra liða þar sem það er synd að annað þeirra skuli þurfa að lúta í lægra haldi.
Markstengurnar og dómarinn eru hluti af leikvellinum og þannig reyndist það vera í þessum leik þar sem gæfan og "meistaraheppnin" féllu Stjörnumegin.
Stjarnan Íslandsmeistari í fyrsta sinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2014 | 15:44
Enginn er betri en mótherjinn leyfir.
Það var ekki skortur á skoruðum mörkum sem felldi Fram niður úr úrvalsdeild í dag. Liðið skoraði álíka mörg mörk og og jafnvel fleiri en liðin í efri hluta deildarinnar.
Það fékk hins vegar á sig á sig langflest mörk allra.
Nú er komið í ljós að tapleikur Fram gegn Fjölni um daginn var úrslitaleikurinn fyrir Fram.
Þann leik vann Fjölnir örugglega, endurtók þetta á móti ÍBV nú og sýndi styrk sinn.
Fram sýndi hins vegar í mótinu að geta náð jöfnu eða unnið hvaða lið sem er á góðum degi. En illu heilli gerðist það ekki gegn Fjölni og enginn er betri en mótherjinn leyfir.
Engin ástæða er til að barma sér við fallið. Þegar talað er um "falldraug" Fram fólst hann fyrst og fremst í því hér um árið að liðið bjargaði sér ár eftir ár á ævintýralegan hátt á lokamínútum keppninnar í úrvalsdeildinni og setti í eitt skiptið heimsmet í heppni.
Það má alls ekki fara að trúa á slíkt, heldur er betra að takast strax á við viðfangsefnið, að sigra í hverjum leik fyrir sig.
Ung og efnileg lið hafa áður fallið og komið tvíelfd til leiks næstu tvö árin á eftir, fyrst árið sem þarf að vinna sig upp og síðan árið, þar sem liðið getur í ljósi góðrar reynslu og úrvinnslu úr góðum efniviði leikmanna látið ljós sitt skína í úrvalsdeildinni.
Reimleikar í Safamýri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.9.2014 | 18:11
Halda haus og horfa "Fram" á við.
Nú, þegar syrt hefur í álinn hjá Fram á lokaspretti Íslandsmótsins, ætti samt ekki að vera ástæða til þess að líta kolsvörtum augum á það, sem liðið hefur verið að gera í sumar.
Þar vekur athygli að í viðureignum við bestu liðin í deildinni hafa Framarar ekki aðeins átt ýmsa mjög góða leiki, heldur tapað þeim furðu mörgum með litlum mun og jafnvel átt góða möguleika á jafntefli eða sigri.
Þetta hefur verið grátlegt, því að það hefði gagnast Frömurumum mun betur að vera upp á sitt besta og ná í stig frá neðstu liðunum frekar en hinum efstu og slá með því tvær flugur í einu höggi: Annars vegar að fjölga sínum stigum og hins vegar að fækka stigunum hjá þeim liðum, sem helst hafa keppt við Framara um að halda sér í deildinni.
Lið Fram er ungt og sömuleiðis þjálfarinn en geta átt framtíðina fyrir sér, sama hvernig fer í þetta sinn.
Þegar þannig háttar verður að gefa því og þjálfaranum minnst þrjú ár til að bæta sig og safna þeirri reynslu sem tryggir þann stöðugleika og sjálfstraust sem nægir til þess að ná því takmarki sem stefna þarf að.
Stjörnumenn völtuðu yfir Framara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.8.2014 | 08:59
Varnarleikurinn reynist lykillinn sem oftar.
Markatölur Framliðsins í sumar hafa verið athyglisverðar. Liðið skoraði lengi vel álíka mörg mörk og efstu liðin, en fékk hins vegar svo mörg mörk á sig, að þessi góða markaskorun nýttist ekki.
Stundum er sagt að það sé mikill munur á áferð íþróttakeppni eftir því hvort hún snýst um að forðast ósigur eða stefna að sigri.
Hið fyrrnefnda sást löngum á HM enda reyndust góðar og stabilar varnir happadrýgstar á lokasprettinum og markatölurnar í samræmi við það. Best er þegar hvort tveggja fer saman, sóknargeta og varnargeta.
Ungur þjálfari og konrnungt Framlið þarf að fá frið og tíma til þess að safna reynslu og stöðugleika. Það væri ósanngjarnt að heimta að liðið springi út á einu sumri.
Þrjú sumur gæti þurft og þá þarf að sýna skilning og þolinmæði og fara ekki á taugum heldur leyfa liðinu að þroskast og eflast.
Bjarni: Allt liðið að spila mjög fínan varnarleik | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.7.2014 | 19:56
Þolinmæði er þörf hjá ungum leikmönnum og þjálfara.
Lið Fram í úrvalsdeild glímir nú við falldrauginn einu sinni enn. Liðið byrjaði að vísu á Íslandsmótinu með því að spila ágætan fótbolta og hafði áður staðið sig vel í Reykjavíkurmótinu.
En leikmennirnir eru flestir ungir og skortir reynslu. Falldraugurinn er ekki það eina sem er sálrænt áreiti heldur líka það að Fram hampaði bikarmeistaratitli í fyrra, öðrum af stóru titlunum í fyrsta sinn í 20 ár.
Það er alltaf erfitt að fylgja slíku eftir og í raun er ósanngjarnt að bera saman bikarkeppnina og Íslandsmótið, því að möguleikarnir á að krækja í bikarinn eru miklu meiri en að hampa Íslandsbikarnum, svo miklu færri er leikirnir í bikarkeppninni.
Jafn ungt lið og Framliðið er verður að sýna liðinu og ungum þjálfara þess þolinmæði.
Leikmenn þurfa tíma til að öðlast keppnisreynslu og rétt hugarfar, - kunna að taka mótlæti og vinna úr því.
Það er ekki raunhæft að búast við árangri fyrr en í þriðja Íslandsmóti liðsins.
Framarar á botninn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.7.2014 | 09:29
Þeir eru snemma "meðetta".
Afburða hæfileikar koma misjafnlega fram hjá snillingum. Sumir fara inn á brautir sem í ljós kemur að voru ekki þær leiðir, sem löðuðu fram það besta hjá þeim.
Þjálfari í Reykjavík taldi austfirska drenginn Vilhjálm Einarsson kannski geta orðið liðtækan kúluvarpara og gat greinilega ekki ímyndað sér að hann gæti orðið besti íþróttamaður landsins um árabil sem langstökkvari og þrístökkvari, jafnað gildandi heimsmeit í síðarnefndu greininni og hreppt Ólympíugull.
Þegar ég var íþróttafréttaritari Sjónvarpsins ákvað ég að það gæti verið góð tilbreyting að taka mynd af einhverjum knattspyrnuleik í yngri flokkunum í Sjónvarpinu 1969 og fór vestur að Melavöll í því skyni.
Einn ungu drengjanna vakti sérstaka athygli í þessum leik því að hann var svo leikinn og fljótur að þar var augljóslega gríðarlegt efni í knattspyrnumann á ferðinni.
Sex árum síðar var hann maðurinn, sem skoraði snilldarmark í frægum sigurleik við Austur-Þjóðverja, en þeir voru þá með lið sem var eitt af þremur bestu knattspyrnulandsliðum heims.
Drengurinn er frá Vestmannaeyjum og nafn hans er Ásgeir Sigurvinsson.
Hann var valinn besti leikmaðurinn í þýsku Bundesligunni árið 1983 og þáverandi landsliðsþjálfari Þjóðverja sagði síðar, að ef Ásgeir hefði haft þýskan ríkisborgararétt hefði hann orðið fyrirliði vestur-þýska landsliðsins.
En það er ekki nóg að miklir hæfileikar komi snemma fram og þroskist til afreka. Að baki verður að liggja sterkur karakter sem þolir það andlega álag sem fylgir alltaf með.
Þess vegna er stundum eins og miklir hæfileikamenn hreinlega gufi upp eða fái aldrei að njóta sín þegar þennan óhjákvæmilega grunn vantar.
Sá hæfileikana strax í yngri flokkunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.6.2014 | 09:43
Stoltur af Mist.
Á mínum aldri er það gangur lífsins að við hin eldri þurfum oft á tíðum að takast á við erfiða sjúkdóma, sem yngra fólkið á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af.
Þess vegna er þungbært þegar upp koma tilfellli þar sem þetta snýst við, og fréttin um að Mist, bróðurdóttur mín, þurfi að glíma við óvænt veikindi, einmitt þegar hún blómstrar hvað best í íþrótt sinni, snertir alla í fjölskyldunni.
Í nótt var ég að horfa á fyrsta Íslendinginn, sem leikur í HM í knattspyrnu í kjölfar jafnteflis kvennalandsliðsins í knattspyrnu gegn gömlum "erkifjendum" okkar, Dönum og maður fyllist ánægju yfir því þegar glæsilegt afreksfólk eins og Mist ber hróður landsins út um lönd.
Við í fjölskyldunni vissum um veikindi Mistar þegar landsleikurinn var að bresta á og hugur okkar var hjá henni þegar hún þurfti að takast á við svo óvenjulegt og erfitt verkefni sem þessar tvær stóru áskoranir voru fyrir hana.
En eins og hennar var von og vísa eru þau viðbrögð, sem hún sýnir í tengdri frétt á mbl.is, okkur öllum til eftirbreytni og uppörvunar. Ég er afar stoltur af æðruleysi hennar, hugrekki og viljafestu.
Fleiri systkinabörn mín og börn mín hafa áður þurft að standa frammi fyrir "verki, sem þau hafa þurft að klára" eins og Mist orðar glímuna við sinn óvænta sjúkdóm, og staðið sig eins og hetjur.
Það er ómetanlegt að eiga slíkar fyrirmyndir þegar á bjátar í lífsins ólgusjó.
Verk sem ég þarf að klára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 09:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)