Færsluflokkur: Pepsi-deildin
19.11.2013 | 21:34
Enginn er betri en mótherjinn leyfir.
Á sama hátt og undravert var hvernig Ísland gat haldið jöfnu á móti Króatíu manni færri í 40 mínútur á föstudag var einnig magnað að sjá hvernig Króötum tókst að hafa yfirhöndina einum manni færri allan seinni hálfleikinn í Zagreb.
Haft var á orði fyrir leikinn í kvöld að Króatar þyrftu toppleik til að vinna og þeir áttu slíkan leik, höfðu yfirhöndina frá upphafi til enda.
Allar tölur, skot að marki, hornspyrnur o. s. frv. féllu þeim í vil.
Sannaðist hið fornkveðna að enginn er betri en mótherjinn leyfir.
Víst munaði um að missa Kolbein Sigþórsson en sennilega hefði það ekki snúið taflinu við, svo miklu betra var króatíska liðið í kvöld en fyrir fjórum dögum.
Íslendingar þurftu á hámarks dagsformi að halda, öllum mannskapnum og smá skammt af heppni.
Þetta féll ekki með okkur að þessu sinni en við getum verið stolt af því að hafa náð lengra en nokkru sinni fyrr í vinsælustu hópíþróttagrein heims.
19.11.2013 | 20:09
Betra liðið hefur yfir, - en er nú orðið fámennara liðið.
Þegar jafn gott lið og það króatíska er og heldur uppi nær stanslausri pressu lengst af fyrri hálfleik í kjölfar næstum heils síðari hálfleiks í leiknum í Reykjavík, þarf ekki nema ein mistök af hálfu Íslendinga til að þeim sé refsað grimmilega.
Eitt augnablik var hlaupið frá króatískum leikmanni yst til hægri og sending beint á hann gat ekki endað með öðru en marki.
En staðan breyttist mikið þegar Króatar voru allt í einu orðnir einum færri vegna glórulauss brots, sem að sínu leyti var gróft glappaskot þeim megin.
Íslendingar þurfa ekki að skora nema eitt mark til að komast yfir í leiknum. Nú verður þetta enn meira spennandi fyrir vikið í seinni hálfleiknum.
![]() |
Draumurinn úti - Króatar á HM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.11.2013 | 13:39
Hefði verið óráð að hafa hann með.
Í síðari leiknum við Króata veit enginn fyrirfram hvenær það augnablik eða þau augnablik koma þegar verður að vera hægt að treysta á iítrustu getu hvaða leikmanns sem er.
Augljóst var af atvikinu þegar Kolbeinn Sigþórsson tognaði á ökkla þegar hann var undir hámarks álagi að komast í marktækfæri, að ekki yrði hægt að treysta 100% á ökklann í seinni leiknum, - ævinlega yrði tekin einhver áhætta með það.
Það hefði verið mjög óþægilegt fyrir bæði hann og aðra leikmenn að vita af möguleikanum á því að þetta endurtæki sig.
Í svona mikilvægum leik má ekki taka hina minnstu áhættu og hugsanlega hefðu aðrir leikmenn orðið eitthvað ragari við að reyna krefjandi spil með Kolbeini eða að hann sjálfur hefði ekki verið með 100% sjálfstraust, jafnvel þótt ökklinn liti bara ljómandi vel út í upphafi leiks á þriðjudaginn.
![]() |
Kolbeinn fer ekki til Króatíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.11.2013 | 20:54
Sálfræðilegur sigur.
Þjálfari króatíska liðsins upplýsti aðeins eitt fyrir landsleikinn í kvöld, að lið hans yrði að skora mark.
Það tókst ekki, þótt Íslendingar væru einum færri í 40 mínútur eftir vafasaman dóm spánska dómarans og leikurinn í kvöld, bæði af hendi leikmanna og áhorfenda, var stórbrotinn sigur fyrir íslenska þjóðarsál.
Íslensku leikmennirnir eru vanir að leika á erlendri grundu þannig að leikurinn í Króatíu á ekki að verða erfiðari en það var að halda jöfnu í mestallan seinni hálfleik hér heima.
Ef Íslendingar ná að skora mark í þeim leik verða Króatar að vinna hann með eins marks mun.
![]() |
Ísland náði jafntefli manni færri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.11.2013 | 15:06
Loftið titrar af spennu.
Knattspyrna er vinsælasta íþróttagrein heims þegar allt er lagt saman. Hún er hópíþrótt. Hvort tveggja atriði sem gætu verið óyfirstíganleg hindrun fyrir örþjóð eins og okkur.
Vegna vinsælda íþróttarinnar getum við ekki nýtt okkur hið sama og á við um handboltann hvað snertir það að útbreiðsla hans er afar takmörkuð og leikmennirnir inni á vellinum á hverjum tíma mun færri en í knattspyrnunni.
Og fyrir fámenna þjóð er auðveldara að fóstra afreksfólk í einstaklingsíþróttum en í hópíþrótt.
Þess vegna er dagurinn í dag svo stór, hvernig sem allt fer, og á það skilið, ef svo má að orði komast, að loftið titri af spennu.
![]() |
Lykilmennirnir gætu misst af Króatíuför |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.10.2013 | 19:58
Erfitt, en verðskuldað, til hamingju!
Eftir æsispennandi lokamínútur er íslenskt knattspyrnulandslið í fyrsta sinn komið í umspil fyrir HM.
Til hamingju! En enn einu sinni þurftu allir að beygja sig fyrir því að veldi auglýsinganna viki öllu til hliðar þegar þær voru látnar taka yfir þannig að hinu lifandi augnabliki að sjá viðbrögðin var slátrað!
Skil þetta ekki. Gátu þessar auglýsingar komið á eftir hinu einstæða lifandi augnabliki?
?
![]() |
Ísland í HM-umspil í fyrsta sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.10.2013 | 11:53
Möguleikarnir eiga að vera meiri nú.
Einhvern tíma var spurt: Hvað er knattspyrna? Og svarið var: 22 leikmenn eltast við einn bolta og reyna að koma honum inn í mark, Brasilíumenn eru bestir en Þjóðverjar vinna.
Þetta síðasta er eitt af því sem var í veginum fyrir framgangi Íslendinga fyrir tíu árum, en er ekki eins nú.
Fleira má nefna varðandi meiri möguleika nú en þá fyrir Íslendinga til að komast á HM, sem ekki skal talið upp.
Markaskorunin hefur verið bæði meiri og öllu jafnari en fyrr hjá Íslendingum og vörnin virðist vera að smella betur saman.
Auðvitað er knattspyrnan þannig íþrótt að ekkert er gefið fyrirfram en það stekkur enginn lengra en hann hugsar og ef íslenska landsliðið hugsar dæmið rétt á það að geta stokkið langt.
![]() |
Ísland í svipaðri stöðu fyrir tíu árum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.10.2013 | 18:59
Brottrekstrar eru að verða sér íþrótt.
Svo er að sjá sem það sé að verða alþjóðleg íþrótt að reka þjálfara íþróttafélaga. Virðist stundum litlu sem engu skipta hvort viðkomandi liði gangi vel eða illa eða hvort óánægja hafi komið upp meðal leikmanna og jafnvel enn meiri ástæða til brottrekstrar ef betri árangur hefur náðst en nokkru sinni í sögu viðkomandi félags.
Miskunnarleysið virðist brottrekstra virðist fara vaxandi, bæði hjá þeim sem hafa valdið til að reka og ekki síður hjá íþróttafréttamönnum, sem virðast elska orðinn "...var rekinn...", Þau orð eru ekki notuð svona afdráttarlaust og alltaf þegar um er að ræða það þegar aðrir hætta störfum en íþróttaþjálfarar.
Spyrja má hvort ekki sé orðið fulllangt gengið í þessum efnum.
![]() |
Logi: Kom mér algjörlega í opna skjöldu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.10.2013 | 10:22
"Möguleikinn fjarlægi á að Ísland kæmist ekki í umspil úr sögunni"?
Stundum er hægt að fara afar langa og torsótta leið til þess að orða hluti. Ofangreind setning í fyrrsögn þessarar bloggfærslu úr veffrétt (véfrétt?) er dæmi um það.
Í setningunni eru tvær neitanir, "kæmist ekki áfram" og "er úr sögunni" en tvær neitanir gefa yfirleitt jákvæða niðurstöðu, í þessu tilfelli að Ísland komist áfram í umspilið, ef ég skil fréttina rétt.
Eða kannski skil ég hana ekki rétt, því að þetta er orðað á svo flókinn hátt.
![]() |
Ísland þarf jafngóð úrslit og Slóvenía nær í Sviss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.10.2013 | 21:02
Munaði einu marki á spánni og leiknum.
Það er alltaf gaman að spá fyrir um úrslit leikja, og þegar Bylgjan hringdi í mig í dag spáði ég því að Ísland ynni Kýpur 2:1. Ég óttaðist aðallega tvö sálræn fyrirbrigði:
1. Lymskuleg ummæli þjálfara Kýpurliðsins í gær um það að lið Íslands væri mjög gott og Kýpur á botninum gátu verið sögð til að gera Íslendinga of sigurvissa og værukæra.
2. Gamalt fyrirbrigði varðandi það að lið, sem er komið út úr baráttunni fái vissa ánægju af því að ráða úrslitum um röð efstu liða. Þetta hefur marg sinnis gerst, allt frá bestu liðum niður í firmalið eða jafnvel í mótum innan fyrirtækja.
Mér er enn í minni þegar fréttastofa RUV átti í síðasta leik sínum í keppni deilda innan fyrirtækisins enga möguleika á efstu sætum, en okkur tókst að blása okkur baráttuanda í brjóst í síðasta leiknum gefn því liði, sem þá var efst.
Við unnum það óvænt og með því vannst tvennt: 1. Við sýndum fram á að við gætum verið bestir, þrátt fyrir allt. 2. Við réðum úrslitum um það röð efstu liða.
Þess vegna spáði ég 2:1 en síðan kom í ljós að getumunur Íslands og Kýpur í kvöld var einfaldlega of mikill, enda eru við með lið, sem er eitthvert það besta sem við höfum átt, bæði að reynslu og getu, og býr yfir miklum karakter.
Til hamingju, Ísland !
![]() |
Kýpur engin fyrirstaða fyrir Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)