Gamalkunnugt fyrirbæri.

Það er ekki nýtt fyrir mér að vinir aðvari "óþæga" við afleiðingum þess ef þeir tali of opinskátt um hlutina. Sjálfur upplifði ég það fyrir 5-6 árum að vinir mínir heyrðu af því að brugguð væru launráð gegn mér sem myndu koma mér illa nema ég héldi mig á mottunni. Í þjóðfélagi þöggunar og ótta svínvirkar þessi aðferð sem ég lýsi betur í bloggi hér á undan.

Ingibjörg Sólrún er maður að meiri að staðfesta orð Sigurbjargar og ef ég á um tvo kosti að velja vil ég frekar taka þær útskýringar hennar gildar að hún hafi frekar meint þetta sem heilræði en hótun.


mbl.is Ingibjörg Sólrún kom boðum til Sigurbjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Heilræði" Ingibjargar Sólrúnar.

Nú hefur hulunni verið svipt af "slúðrinu" á borgarafundinum í gærkvöldi sem Jónas Kristjánsson kallaði svo fyrr í dag. Það var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem sendi Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur "heilræði" sem fólust í því, að því er Ingibjörg segir, um að Sigurbjörg skyldi tala varlega á fundinum, - það væri best fyrir hana sjálfa.

ingbjörg segist hafa gefið Sigurbjörgu þessi heilræði af velvilja en alls ekki sem hótun. En það er stutt á milli velviljaðra heilræða og hótunar á borð við það að halda sig á mottunni, - annars hefði viðkomandi verra af.

Berið saman þessar tvær setningar: "Farðu varlega, það er þér sjálfri fyrir bestu" og "haltu þig á mottunni, annars hefurðu verra af."

Ingibjörg Sólrún er hér í hlutverki sem ég kannast við af ferli mínum, þar sem góðir vinir mínur lentu í þeirri aðstöðu að aðvara mig vegna þess að þeir hefðu fengið vitneskju um að mér væru brugguð launráð sem myndu fara illa með mig ef ég færi ekki "varlega."

Vinir mínir gerðu þetta í góðri trú um að þeir væru að ráða mér heilt af velvilja.

En í þjóðfélagi þöggunar og ótta svínvirkar svona aðferð og hún virkar allra best þegar allir eru orðnir meðvitaðir um það að "fara varlega" og "vera þægir" eins og ég lýsi í öðru bloggi frá því fyrr í dag.

2003 lá fyrir að Davíð Oddsson hafði refsað eða hótað Sverri Hermannssyni, Erni Bárði Jónssyni, umboðsmanni Alþingis og Þjóðhagsstofnun þannig að ekki þurfti annað en "slúður" og kviksögur eftir það til að hræða fólk frá því að tjá sig eða gera eithvað sem það héldi að væri ekki hæstráðandanum þóknanlegt.

Ég veit um dæmi þess að þegar einhver sýndist ætla að verða "óþægur" fóru að berast honum til eyrna sögur um það hvernig til dæmis hæstráðandinn sendi menn út af örkinni með orðunum: "farðu og finndu eitthvað á hann."

Allir voru orðnir svo meðvitaðir um þetta að ákveðin samhjálp var komin í gang til að forðast refsingu hæstráðandans.


"Vertu þægur". "Sjálfum þér fyrir bestu."

Reglan í blaðamennsku er sú að forðast sé að vitna í einkasamtöl, einkum þau sem beðið er um trúnað í. Ef báðir aðilar að einkasamtalinu samþykkja birtingu er málið auðleyst. Stundum er eðli máls sant slíkt, svo sem eins og í þjóðfélagi þöggunar og ótta að ekki er hægt að una við þrýsting eða hótanir. Slíkt á erindi við alla þjóðina.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir upplýsti um slíkt í borgarafundi í gærkvöldi. Það var rétt hjá henni að nafngreina ekki ráðherrann en eftir situr að einhver hinna ellefu hafi beitt hana þrýstingi.

Þeim ráðherrum, sem ekki áttu hlut að máli, það kann að þykja slæmt að sitja undir slíku en ég tel vega þyngra að Sigurbjörg hafi upplýst um það hvernig hún fékk skilaboð um að "tala varlega, það væri henni fyrir bestu." Það er ekkert einkamál ráðamanna að stunda slíka pólitík.

Í þessum skilaboðum, ef rétt er eftir haft, fólst hótun um það að Sigurbjörg skyldi annars hafa verra af.

Sjálfur fékk ég slík skilaboð frá einum af ráðherrunum meðan ég var fréttamaður hjá Sjónvarpinu. Eftir sjónvarpsviðtal við ráðherrann tjáði hann mér einslega frá óánægju vegna meintrar hlutdrægni minnar í starfi og misnotkun á aðstöðu minni.

Ég fræddi ráðherrann um að sérstök rannsókn hefði leitt í ljós að þessar ásakanir hefðu ekki átt við rök að styðjast.

"Allt í lagi," sagði ráðherrann. "Það vissi ég ekki. Ef svo er skulum við láta þetta liggja milli hluta í bili, en mundu það, Ómar minn að vera þægur."

Ég greindi frá þessu í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" sem dæmi um þann þrýsting og dulbúnu hótanir sem beitt væri í þjóðfélagi þöggunar og ótta.

Bæði ég og kona mín fengum skilaboð þess efnis að ég skyldi "vera þægur, það væri okkur báðum fyrir bestu. Ég fékk þau margsinnis."

Orðalagið sem Sigurbjörg greindi frá er kunnuglegt. Fyrir fimm árum greindi ég opinberlega frá þöggun þess tíma en fólki virtist láta sér það í léttu rúmi liggja og una við þetta ástand ótta og þvingunar.

Nú stígur fram fólk sem loksins er nóg boðið. Það stóð upp úr í mínum huga eftir borgarafundinn í gærkvöldi.


mbl.is Guðlaugur kemur af fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæmur útsendingartími.

Franklin Delano Roosevelt Bandaríkjaforseti 1933-45 hefur verið í miklum metum hjá mér alla tíð enda einstakur maður og meðal fremstu forseta sem Bandaríkin hafa átt.

Eitt af því sem frægt varð á tíð hans var staðurinn sem hann hélt til þegar hann dró sig frá Washington, Warm Springs, og útvarpsræðurnar frægu "Fireside chats".

Það eru helst dellukarlar eins og ég sem vita hvað Warm Springs þýðir en engu að síður bætti það miklu við um vitneskju mína og skilning á Roosevelt og Elanor konu hans að sjá mjög góða heimildarmynd um feril Roosevelts frá því að hann fékk lömunarsjúkdóm og þangað til hann sneri aftur á fullu í stjórnmálin, fatlaður maðurinn.

Það liggur við að það hefði átt að vera skylduefni að sjá svona mynd því að hún hafði svo almennt gildi auk þess sem hún stækkaði afrek Roosevelts án þess að draga úr persónulegum göllum hans eða vandamálum.

En þetta er ekki í fyrsta sinn sem báðar sjónvarpsstöðvarnar sýna jafn gott efni á jafn slæmum tíma, efni sem höfðar til allra aldurshópa og dýpka skilning okkar á mannlegum vandamálum.

Fyrir venjulega Íslendinga þýddi nafn myndarinnar, "Warm Springs" ekki neitt og enga útskýringu var að finna í blöðunum á því um hvað myndin fjallaði.

Sýningu myndarinnar lauk um hálf tvö leytið. Fékk Stöð tvö þessa mynd svona ódýrt að það var ekki þess virði að setja hana á betri útsendingartíma og kynna hana eins og vert væri ?

Mér finnst þetta sýna lélegt mat á góðri söluvöru ef maður lítur á þá hlið mála. Perlum var ekki einu sinni kastað fyrir svín því að það eru ekki einu sinni nein svín (ég og aðrir hugsanlegir áhorfendur) á þessum tíma sólarhrings til að njóta þessa.

Það var alger tilviljun að ég datt inn á að horfa á þessa mynd sem ég hefði ekki fyrir nokkurn mun vilja missa af.


Bloggfærslur 13. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband