"Vertu þægur". "Sjálfum þér fyrir bestu."

Reglan í blaðamennsku er sú að forðast sé að vitna í einkasamtöl, einkum þau sem beðið er um trúnað í. Ef báðir aðilar að einkasamtalinu samþykkja birtingu er málið auðleyst. Stundum er eðli máls sant slíkt, svo sem eins og í þjóðfélagi þöggunar og ótta að ekki er hægt að una við þrýsting eða hótanir. Slíkt á erindi við alla þjóðina.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir upplýsti um slíkt í borgarafundi í gærkvöldi. Það var rétt hjá henni að nafngreina ekki ráðherrann en eftir situr að einhver hinna ellefu hafi beitt hana þrýstingi.

Þeim ráðherrum, sem ekki áttu hlut að máli, það kann að þykja slæmt að sitja undir slíku en ég tel vega þyngra að Sigurbjörg hafi upplýst um það hvernig hún fékk skilaboð um að "tala varlega, það væri henni fyrir bestu." Það er ekkert einkamál ráðamanna að stunda slíka pólitík.

Í þessum skilaboðum, ef rétt er eftir haft, fólst hótun um það að Sigurbjörg skyldi annars hafa verra af.

Sjálfur fékk ég slík skilaboð frá einum af ráðherrunum meðan ég var fréttamaður hjá Sjónvarpinu. Eftir sjónvarpsviðtal við ráðherrann tjáði hann mér einslega frá óánægju vegna meintrar hlutdrægni minnar í starfi og misnotkun á aðstöðu minni.

Ég fræddi ráðherrann um að sérstök rannsókn hefði leitt í ljós að þessar ásakanir hefðu ekki átt við rök að styðjast.

"Allt í lagi," sagði ráðherrann. "Það vissi ég ekki. Ef svo er skulum við láta þetta liggja milli hluta í bili, en mundu það, Ómar minn að vera þægur."

Ég greindi frá þessu í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" sem dæmi um þann þrýsting og dulbúnu hótanir sem beitt væri í þjóðfélagi þöggunar og ótta.

Bæði ég og kona mín fengum skilaboð þess efnis að ég skyldi "vera þægur, það væri okkur báðum fyrir bestu. Ég fékk þau margsinnis."

Orðalagið sem Sigurbjörg greindi frá er kunnuglegt. Fyrir fimm árum greindi ég opinberlega frá þöggun þess tíma en fólki virtist láta sér það í léttu rúmi liggja og una við þetta ástand ótta og þvingunar.

Nú stígur fram fólk sem loksins er nóg boðið. Það stóð upp úr í mínum huga eftir borgarafundinn í gærkvöldi.


mbl.is Guðlaugur kemur af fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er mjög ósammála um að hún hafi ekki átt að nefna ráðherrann, á meðan er þetta bara eins og hvert annað slúður eins og Jónas Kristjánsson margreyndur ritstjórinn hefur sagt og kallar dapurlegt þegar kínverjar springi í höndum barna. - Þó að ástandið í samfélaginu í alvarlegt og óvenjulegt þá mega ekki öll siðferðisviðmið hverfa. Það gildir svo sannarlega um mótmælendur líka sem oft á tíðum hafa farið offari með orðbragði og aðgerðum. Fólk þarf að vera trúverðugt þegar það er með alvarlegar ásakanir.

Gaius (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 13:56

2 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Við vitum að svona lagað hefur fengið að viðgangast í okkar þjóðfélagi. Þetta er alveg ólíðandi og spurningin er hvort það má ekki greina frá nafni þess sem stundar svona hótanir.

Úrsúla Jünemann, 13.1.2009 kl. 14:27

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þöggunin og þvingunin byggist á einkaviðtölum og meðan enginn rýfur þögnina um þetta heldur ofríkið velli.

Ómar Ragnarsson, 13.1.2009 kl. 15:17

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvers eðlis voru "skilaboðin" sem Sigurbjörg fékk ? Ef þau voru SMS-skilaboð sem hægt er að rekja og sanna á Sigurbjörg tvímælalaust að upplýsa um það frekar en að láta afgreiða þetta sem "slúður."

Ég nafngreindi hiklaust á sínum tíma ráðherra sem las mér pistilinn af því að hann gerði það í viðurvist undrandi kvikmyndatökumanns, sem var með mér.

Þar með var ekki hægt að sjá að þetta væri neitt trúnaðarviðtal.

Ómar Ragnarsson, 13.1.2009 kl. 15:40

5 identicon

Og mér hefur sagt blaða/fréttamaður sem hefur starfað með Ómari Ragnarssyni, að hann skirrist ekkert við að ljúga upp á mann og annan, ef honum finnst það passa!  Er þessi yfirlýsing ekki jafn stöndug og yfirlýsingar "stjórnsýslufræðingsins", Ómar?

Halldór Halldórsson (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 15:51

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Allar fréttir eru hafðar eftir einhverjum. Fólk er ekki beðið um að sanna það sem það segir, hvort sem um er að ræða til dæmis Geir Haarde eða einhvern annan.

Fólk ræður hins vegar sjálft hverju það trúir eftir að hafa vegið og metið orð og gerðir viðkomandi, jafnvel árum saman.

Ég gæti lagt fram "sönnun" fyrir einhverju en einhver annar gæti lagt fram "sönnun" fyrir hinu gagnstæða. Dæmi: Loftslagsbreytingar í heiminum undanfarin ár.

En ef ljóst er að Geir Haarde hefur sagt ósatt um einn hlut minnka verulega líkurnar á að fólk almennt trúi öllu sem hann segir.

Og það sama gildir um alla aðra, stjórnmálamenn sem Stígvélaða köttinn.

Þorsteinn Briem, 13.1.2009 kl. 17:10

7 Smámynd: Þór Jóhannesson

Í svona umræðu umræðu gleymist alltaf aðal atriðið - hvaða erindi hafa stjórnmálamenn í að vera að segja fólki hvernig það á að haga sér? Þó hlutirnir séu sagðir "undir rós" er það ekki neitt skárra en bein hótun. Því jú, slík afskiptasemi með svona óbeinum skilaboðum eru ekkert annað en hótun. Vonandi hefur þessi kona þetta skjalfest eða upptekið (það hefur aldeilis sannað sig að það borgar sig að tryggja öll leynisamtöl með upptökum) og þá á hún auðvitað að birta það. Ef ekki mun hún því miður verða "afhausuð" í umræðunni - því slíkt er afl yfirvaldsins.

Flestir sem hafa stigið fram með sannanir eru "teknir af lífi" í pressunni sem öll er á bandi yfirvaldanna. Skemmst er að minnast framlags G. Péturs (sem þó var með myndband sem sönnun um háttarlag Geirs þegar hann er ósammála) - ég hugsa að G. Pétur nagi sig í handabökin í dag yfir að hafa stigið fram.

Þetta land er ekkert skárra en Rússland!

Þöggunin og spillingin er ekki síðri hér og fjölmiðlar eru gjörsamlega ónýtir og vinna verin fyrir yfirvöld án þess að blikna orðið - þrátt fyrir fögur fyrirheit á Borgarfundinum um fjölmiðla.

Þór Jóhannesson, 13.1.2009 kl. 18:25

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú hefur komið í ljós að umrædd skilaboð voru send og það hefur verið staðfest af báðum aðilum. Sigurbjörg hefur því ekki logið upp á neinn en ég tel Ingibjörgu Sólrúnu mann að meiri að staðfesta þetta og vísa til nýrri bloggpistla minna um það.

Ómar Ragnarsson, 13.1.2009 kl. 18:42

9 Smámynd: Þór Jóhannesson

Það eitt að "hótunin" hafi komið frá formanni Samfylkingarinnar gerir hana þó bara mun alvarlegri en frá óbreittum Heilbrigðisráðherra.

Þór Jóhannesson, 13.1.2009 kl. 18:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband