27.1.2009 | 23:53
Kerfið hrundi undan eigin þunga.
Af hverju eru gerðar "atlögur" á borð við þá sem Sigurður Einarsson lýsir ? Væntanlega vegna þess að þeir sem atlöguna gera telja að hún muni bera árangur þar sem "bráðin" muni ekki standast atlöguna.
Íslenska fjármálakerfið þandist stjórnlaust út og varð því auðveldari bráð fyrir þá sem gátu hagnast á falli þess. Talað var um að betra væri ekki að gera ekkert uppskátt um það hve veikum fótum kerfið stóð miðað við það að baktryggingar íslenska Seðlabankans og ríkisins voru augljóslega aðeins brot af því sem þær hefðu þurft að vera.
Suss ! Suss !
Auðvitað þýddi ekkert að leyna þessum hrikalegum veikleikum kerfisins og jöklabréfanna, atlögumennirnir vissu þetta mæta vel.
Kerfið varð sífellt stærra og þyngra jafnframt því sem fjaraði undan því á sandinum sem það var byggt á og óveður brast á þar að auki.
Þetta minnir á Sovétkerfið sem á endanum hrundi undan eigin þunga.
Sérkennilegt er að Kaupþing skyldi, úr því að þörf var á að halda í hverja krónu til að verjast "atlögunni", lána 280 milljarða á sérlega óábyrgan hátt í aðdraganda hrunsins eins og átti að koma fram í Kompásþættinum sem aldrei var sýndur.
Og einkennilegt er hjá sjónvarpsstöð, sem berst í bökkum og þarf að velta fyrir sér hverri krónu, að eftir að hún er búin er að eyða peningum í þennan þátt þá skuli hún ekki nota hann.
![]() |
Atlaga felldi íslenska kerfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.1.2009 | 18:37
Verður sleggjan með ?
Það hefur verið haft á orði í vetur að þingflokkur Frjálslynda flokksins sé fjórklofinn, þ.e. að hver þingmaður um sig myndi í raun þingflokk. Kannski er þetta eitthvað orðum aukið en allir vita um stöðu Kristins H. Gunnarssonar í flokknum.
Á borgarafundi á Selfossi í gærkvöldi afneitað til dæmis Grétar Mar innflytjendastefnu flokksins ákveðið. Í Reykjavík eru flokkadrættir á milli Jóns Magnússonar og fylgismanna hans úr Nýju afli og annarra hópa.
Til dæmis er himinhrópandi munur á stefnu Jóns og Ólafs F. Magnússonar og hans vina í flokknum. Kannski verður það skásta lausnin fyrir flokkinn í ljósi þessa að fría sig alveg við þessa ríkisstjórn. Sennilegast er auðveldast að fá samstöðu um það.
Og þó. Kristinn H. Gunnarsson skar alveg sig frá hinum í afstöðunni til vantrauststillögu á ríkisstórnina í haust.
![]() |
Óvíst með Frjálslynda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.1.2009 | 18:27
Svona gera menn ekki í öðrum löndum.
Sagt hefur verið að forseti Bandaríkjanna og hliðstæðir ráðamenn séu "lame duck", lömuð önd, síðustu mánuðina fyrir kosningar. Samt hafa þeir ótvírætt umboð fram að embættistöku þess sem tekur við.
Það þykir ekki siðlegt að binda hendur eftirmannanna umfram það sem brýn nauðsyn beri til og í sumum tilfellum, eins og til dæmis síðastliðið haust, hafði jafnvel Obama og McCain með í ráðum þegar hann greip til fjármálaaðgerða síðastliðið haust.
Ég get ekki ímyndað mér að erlendis viðgengist það að ráðherra í ríkisstjórn tæki ákvörðun um stórt umdeilt mál, sem á að binda hendur eftirmanna hans í fjögur ár.
En svona er þetta ekki á Íslandi. Einar tekur stóra ákvörðun eftir að forsætisráðherra hans er búinn að biðjast lausnar fyrir sig og alla ráðherrana.
Einar rökstuddi þetta sem svo í fréttunum nú rétt áðan að nú ætti það ekki lengur við sem sagt hefði verið að hvalveiðar sköðuðu ímynd landsins, því að útrásarvíkingarnir hefðu hvort eð er skaðað ímynd landsins miklu meira!
Þar með er búið að gefa tóninn. Okkur Íslendingum er sem sagt óhætt að skaða ímynd landsins á ýmsum sviðum og hafa engar áhyggjur af því af því að við munu aldrei getað skaðað hana eins mikið og Davíð og kó.
![]() |
Hvalveiðar leyfðar til 2013 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
27.1.2009 | 16:35
Gullkornin falla.
Gullkorn Ingibjargar Sólrúnar halda áfram að falla. Hún kom á málfund í Háskólabíói og lét 1500 fundargesti vita af því að þeir væru líkest til ekki fulltrár þjóðarinnar. Þetta varð fleygt og féll í grýttan jarðveg. Mér fanst þetta vanhugsað hjá Ingibjörgu úr því að hún kom á þennan málfund og sat hann allan.
Með þessu talaði hún niður til þjóðarinnar sem sat heima í stof og fylgdist með og tók þetta til sín, að minnsta kosti að stórum hluta. Hún var greinilega ekki í jarðsambandi við grasrótina.
Ummæli hennar í dag voru hins vegar gullkorn að mínu mati. Þegar upp átti að hefjast þref um ummæli forsetans, sem kom Ingibjörgu og Steingrími J. ekki við, valdi hún hárrétt tækifæri til að fara af vettvangi með skemmtilegum ummælum.
![]() |
Ekki tími fyrir málfund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.1.2009 | 14:29
Þeirra tími mun koma.
Ég var á borgarafundi á Selfossi í gærkvöldi eins og kemur fram í öðrum bloggpistli og meðal pallborðsgesta var Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra. Á honum dundu spurningar og sumar mjög hvassar og eitraðar.
Ég gat ekki annað en dáðst að rósemi hans og yfirvegun. Unga fólkið myndi kalla það mega-kúl. Hann svaraði öllu skýrt og vafningalaust. Þetta er ekki öllum gefið.
Þegar ég sé nú hina ungu vonarstjörnuna, vænan og efnilegan mann, Ágúst Ólaf Ágústsson, stíga líka til hliðar, get ég ekki annað en spyrt þessa tvo menn svolítið saman hvað það snertir að þeir vægja nú báðir fyrir óvæginni atburðarás sem þeir gátu ekki séð fyrir.
Þeirra tími reyndist ekki vera fyllilega kominn. En eitt er víst: Þeir eru reynslunni ríkari og báðir þoka nú á þann veg að þeir eiga að geta komið aftur, öflugri en nokkru sinni fyrr. Þeir eru það ungir að þegar þeir til dæmis bera sig saman við Jóhönnu Sigurðardóttur eiga þeir eftir næstum eilífð eftir pólitísku tímatali til að ná þangað sem hæfileikar þeirra og mannkostir segja til um.
Kannski varð það Ágústi Ólafi til trafala að hann skynjaði grasrót flokksins betur en aðrir og flutti forystunni skilaboð frá henni sem ekki voru góð.
Hann tók það til dæmis að sér að koma oftar á ólgandi borgarafundi en aðrir talsmenn Samfylkingarinnar og honum hefði aldrei dottið í hug að segja eitthvað við fundarmenn sem mátti túlka á þann veg að þeir væru ekki þjóðin.
Hann las andrúmsloftið og á þessum fundum snart hann þann hluta þjóðarinnar, sem hrunið mikla bitnar verst og ósanngjarnast á, og sýndi að hann er maður fólksins. Það er tjón fyrir Samfylkinguna og stjórnmálin að þessirungu menn þoki um sinn en þeirra tími mun koma, sannið þið til.
![]() |
Ég er ekki að fara í fússi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.1.2009 | 09:45
Síðustu fjörbrotin í Kastljósinu.
Það vakti athygli mína hvað Ágúst Ólafur Ágústsson var uppspenntur og ákafur í Kastljósinu í gærkvöldi. Þar þrætti hann meðal annars fyrir það að hann hefði hvað eftir annað verið settur út í kuldann af Ingibjörgu Sólrúnu.
Hún byrjaði með því að gera hann ekki að ráðherra og síðan hélt þetta áfram og birtist best og sjáanlegast í lokaviðræðunum við Sjálfstæðisflokkinn þegar formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins komu á fundinn en Ingibjörg var studd af Össuri svila sínum inn til viðræðnanna og Ágúst Ólafur var víðs fjarri.
Nú kemur í ljós að það voru síðustu pólitísku fjörbrot hans sem birtust okkur í Kastljósinu. Hann hafði alltaf átt undir högg að sækja eftir eftirminnilega kosningu sem varaformaður á landsfundi flokksins sem Halldór Blöndal lýsti þannig að hann hefði fengið 900 atkvæði á 600 manna fundi.
Ágústi Ólafi tókst aldri að sanna sig sem varaformaður enda virtist flest gert til þess að hindra hann í því.
![]() |
Ágúst Ólafur hættir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
27.1.2009 | 09:36
Báðir stjórnarflokkarnir brugðust.
Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bera bæði ábyrgð á því sem aflaga hefur farið í stjórn landsins síðan þessi flokkar mynduðu ríkisstjórn í júní 2007 þótt ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sé sýnu meiri.
Sjálfstæðisflokkurinn leiddi þessa ríkisstjórn sem stærsti flokkur þjóðarinnar og hélt fast í það valdakerfi og þá stefnu sem flokkurinn hefur fylgt í 17 ára slímsetu sinni á valdastólum og fólst í sjálftöku- og oftökustjórnmálum og blindri trú á villt frelsi í fjármálum.
Sú stjórn, sem nú virðist í burðarliðnum, hefði átt að vera mynduð eftir kosningarnar 2007 í kjölfar þess að þáverandi stjórnarflokkar í heild töpuðu fylgi og að í raun var þá orðið löngu tímabært að gefa Sjálfstæðisflokknum frí eftir allt of langa stjórnarsetu.
Ég benti á oddaaðstöðu Framsóknarflokksins í Sjónvarpsumræðum kvöldið eftir kosningar en þáverandi forysta Framsóknarflokksins var ráðvillt og ekki hafði orðið sú brýna endurnýjun sem nú hefur komist á þar á bæ.
Samfylkingin brást með því að selja Fagra Ísland fyrir baunadisk og standa að því með Sjálfstæðisflokknum að viðhalda þeirri sjálfgræðistefnu spillingarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk að ástunda áfram óáreittur í skjóli Samfylkingarinnar.
Samfylkingin flaut að feigðarósi í stjórnarsamstarfinu í ljúfu faðmlagi við þá sem hún hafði áður kallað höfuðandstæðinga sína og viðskiptaráðherra hennar axlaði fyrstur ábyrgð.
Nú kemur í ljós að í raun var hann einn um það. Hinir ráðherrarnir munu hins væntanlega sitja áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Ég bloggaði nýlega um þrá Samfylkingarinnar til að vera "stjórntæk" og hefur birst í því að vera reiðubúin til að snúast eins og vindhanar í grundavallamálum eins og Kárahnjúkamálinu.
Það er rétt hjá Geir að Samfylkingin hefur hangið á því lími sem Ingibjörg Sólrún hefur verið, en rétt eins og 1979 notaði sundurleit grasrót flokksins tækifærið þegar formaðurinn var fjarri til að gera uppreisn. Samfylkikngin var þá ekki stjórntækari en það að formaðurinn mátti ekki bregða sér af bæ án þess að allt færi í háaloft.
Og líklega er það rétt hjá báðum formönnunum þegar þeir lýsa óeiningu innan fyrrverandi samstarfsflokks. Davíð stóð eins og biti í hálsi Sjálfstæðismanna og það og fleira tafði fyrir því að þeir gætu tekið á ýmsum málum og leyst deiluefni flokkanna.
![]() |
Samfylkingin bugaðist" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.1.2009 | 09:12
Mesta ábyrgðin lá ofar.
Það er áreiðanlega rétt hjá Jóni Sigurðssyni að ábyrgðin á bankahruninu lá í meginatriðum hjá þeim sem lögðu línurnar, höfðu forráð á afli stofnana og settu löggjöfina. Gallað regluverk og andvaraleysi ollu því að bankakerfið gat vaxið stjórnlaust án þess að eftirlitsstofnanir væru efldar.
Röng stefna Seðlabankans og kynding undir þensluna af völdum stjórnvalda olli því að krónan var allt of hátt skráð, þjóðinni boðið upp á skefjalausa skuldasöfnun og erlendum fjárfestum leyft að hengja það Daemoklesarsverð upp yfir þjóðina sem Jöklabréfin eru.
Ekkert var gert til að efna gjaldeyrisvaraforðann meðan það var hægt, og þegar loks var reynt að bregðast við var það um seinan.
Þess vegna er það með ólíkindum eftir að ríkisstjórnin sagði af sér og stjórnendur Fjármálaeftirlitsins voru látnir taka pokann sinn skuli stjórnendur Seðlabankans vera þeir einu sem enn sitja.
En það verður vonandi ekki mikið lengur. Þegar þeir eru farnir hafa öll slagorðin af Austurvelli haft áhrif: 1. Við viljum ríkisstjórnina burt. 2. Við viljum stjórn Seðlabankans burt. 3. Við viljum stjórn Fjármálaeftirlitsins burt. 4. Við viljum kosningar.
Segi menn svo að mótmæli utan þings hafi ekki áhrif.
![]() |
Fjármálaráðuneyti of svifaseint |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.1.2009 | 00:03
Breytingar á kosningalögunum.
Atli Gíslason þingmaður í Suðurkjördæmi sagði á borgarafundi í kvöld að VG myndi í ríkisstjórn beita sér fyrir breytingum á kosningalögum að minnsta kosti að því leyti að afnema þann ósanngjarna þröskuld á atkvæðismagn sem samkvæmt síðasta þjóðarpúlsi Gallup hefði svipt 16 þúsund kjósendur rétti til fulltrúa á þingi.
Þetta eru næstum því eins margir kjósendur og voru samtals í Norðvesturkjördæmi og ekki myndu menn una því að heilt kjördæmi fengi engan þingmann.
Viku eftir að ég ræddi persónukjör og afnám þröskulds í Moggagrein tók Steingrímur J. Sigfússon í svipaðan streng í grein í blaðinu.
Komið hefur fram að Samfylkingin vilji hvort eð er breyta stjórnarskránni vegna ESB málsins og ætti þá að vera hægur leikur í leiðinni að lagfæra kosningalögin, sem ekki eru hluti af stjórnarskránni.
Og nú er að sjá hvort ráðamenn VG standa á skoðun sinni í væntanlegri stjórn.
![]() |
Ekki verið samið um neitt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)