6.10.2010 | 22:32
Þeir sem bruðla mest komast oftast best af.
Hrafn Gunnlaugsson er nálægt kjarna þess máls sem nú brennur heitt á þjóðinni. Í gegnum alla Gróðabóluna gekk sá hugsunarháttur í fjármálakerfi landsins að þeir, sem mest bruðluðu og bárust á, fengu mest lánað, en hinir sem ekki bárust á urðu útundan.
Hófsemi þeirra og ábyrgðartilfinning gerði það að verkum að þeir báru ekki utan sér að eiga mikið undir sér.
Síðan gerist æ ofan í æ, bæði hér á landi og erlendis, að þegar viðkomandi fyrirtæki hefur verið blásið nógu mikið út er það orðið svo stórt að ekki er talið hættandi á að setja það í þrot.
Viðurkennt er, til dæmis á Írlandi, að bankinn þar, sem nú þarf að fá afskrifðar hvorki meira né minna en 5000 milljarða króna, sé einfaldlega of stór til þess að hægt sé að láta hann rúlla.
Hér á landi hefði útgerðin, sem gumað var af að væri rekin af hagkvæmni sem þakka ætti kvótakerfinu, samkvæmt því átt að borga skuldir sínar niður í margra ára samfelldu gróðæri.
Í staðinn skuldaði sjávarútvegurinn meira en 500 milljarða króna 2008. Og nú nýta fyrirtækin sér það að teljast vera orðin svo stór að ekki sé hægt að láta þau rúlla, rétt eins og írski bankinn.
Kvótagreifar sem slógu lán til að borga sjálfum sér hundruð milljóna króna í arð sitja áfram að eigum sínum, stórum einbýlishúsum, sumarhöllum, ofurjeppum o. s. frv. án þess að nokkuð fái við þeim og kvótaeign þeirra haggað.
Á meðan bitna afleiðingar Gróðabólunnar og Hrunsins meðal annars á þeim sem minnst mega sín.
Þessu fer fram af því að það telst vera byggt á lögum. Þess vegna eru mótmælendur nú staddir á hárréttum stað þegar þeir standa fyrir framan Alþingishúsið því að inni í því sitja löggjafinn og framkvæmdavaldið sem líta á ríkjandi lög eins og Guðs lög sem enginn geti breytt.
Hrafn er líka aldeilis á réttu róli að mínu mati þegar hann gagnrýnir að ekkert bóli á persónukjöri.
Um það skrifaði ég hvassa Morgunblaðsgrein í ársbyrjun 2009 þar sem meðal annars kom fram, að meirihluti frambjóðenda þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af því að komast ekki á þing ef flokkur þeirra setur þá nógu ofarlega á framboðslista sinn.
Það er ekki einasta að það sé búið að koma í veg fyrir að persónukjör verði tekið upp heldur er framboðum ekki einu sinni leyft að bjóða fram óraðaða lista þar sem þau bjóði kjósendum sinum að raða á listana upp á sitt eindæmi.
Fögru orðin um aukið lýðræði með því að opna glugga fyrir persónukjör hafa gufað upp vegna þverpólitískrar samkenndar þingmanna sem óttast um sína stöðu.
![]() |
Bankarnir áttu að fara í þrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 7.10.2010 kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.10.2010 | 18:21
Styðjum hvert annað.
Í dag, tveimur árum eftir Hrunið, er ekki síður þörf á samstöðu, skilningi og hjálp en þá. Fólk, sem stundar hjálp og sálgæslu er afar mikilvægt í þessu efni.
Fyrir tveimur árum koma saman hópur tónlistarfólks sem söng lagið "Styðjum hvert annað" sem var sett á disk sem seldur var og rann allt kaupverðið óskipt til Mæðrastyrksnefndar.
Þetta lag er hér til vinstri á tónlistarspilaranum á bloggsíðunni og var sungið fólki til hugarhægðar og uppövrunar.
![]() |
Mikið álag hjá prestum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.10.2010 | 15:30
Gott hjá Þórhalli.
Þjóðkirkjan á ekki að taka afstöðu með eða á móti stjórnmálaflokkum og ekki að skipta sér af því sem er kallað pólitík. Það þýðir þó ekki að hún eigi sem stofnun að vera múlbundin og þykjast ekki sjá það sem aflaga fer í þjóðfélagi okkar.
Ég held að það sé rétt hjá séra Þórhalli Heimissyni að ekki sé nóg að einstakir prestar fjalli um þjóðfélagsástandið á hispurslausan og opinskáan hátt, fjölmiðlum og á bloggsíðum.
Þjóðkirkjan sem stofnun, biskupar, prófastar og Kirkjuráð geta ekki og eiga ekki að líta undan og taka engan þátt í þjóðfélagsumræðunni.
Kristur talaði um kalkaðar grafir þegar hann gagnrýndi andlega stétt síns tíma. Kirkjur okkar mega ekki verða þannig heldur lifandi vettvangur andlegra hræringa hjá fólkinu og þess sem á því brennur.
![]() |
Tími þagnarinnar liðinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.10.2010 | 13:06
Og nú þurfa verk og samstaða að fylgja í kjölfarið.
Ef mótmælin á Austurvelli hafa átt þátt í því að "gott samtal" hafi átt sér stað milli ráðherra og forráðamanna Hagsmunasamtaka heimilanna hafa þau ekki verið til einskis.
Orð eru til alls fyrst. En verk, samstaða og áframhaldandi samráð verða að fylgja í kjölfarið og það strax. Fréttirnar af nauðungaruppboðum á Suðurnesjum eru uggvænlegar. Það er ekki eftir neinu að bíða.
![]() |
Þetta var gott samtal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)