Hvað þýðir "af eða á"? Springur - springur ekki?

Orðalagið "nei eða já, - af eða á" í einu af söngvakeppnislögunum hér um árið ber með sér blæ af öðru orði, sem Katrín Jakobsdóttir notar aftur og aftur þessa dagana: "Áhætta."

Einhver myndi orða þetta þannig, að orðalagið benti til þess að viðræðurnar héngu á bláþræði jafnvel þótt unnið sé hörðum höndum að því að klára þær. 

Það minnir svolítið á það hvernig stjórnarmyndunarviðræður undir forystu Ólafs Thors voru í mikilli óvissu 1944 þegar svo virtist sem meirihluti Alþýðuflokksmanna gætu ekki hugsað sér að vinna með kommúnistum. 

Ólafur "fiffaði" þá lausn, eftir því sem hann greindi frá síðar, með því að gangast fyrir því að hér á landi yrði tekið upp svo gott almennatryggingakerfi, að það yrði jafnvel það besta í heimi. 

Engu að síður var afar mjótt á mununum hjá krötum, og formaðurinn sat hjá í innanflokksatkvæðageiðslu um málið. 

Þess vegna sér maður Katrínu í anda sitja með blómvönd í hendi og plokka blómin út eitt og eitt með orðunum:  "Elskar mig - elskar mig ekki - elskar mig - elskar mig ekki...", 

eða

"springur - springur ekki - springur - springur ekki..." 


mbl.is Katrín: Línur við það að skýrast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá fyrsti, sem kjaftaði frá, var látinn taka pokann sinn.

Kvótakerfið hafði verið við líði í innan við þrjú ár þegar hitti sjómann í Kaffivagninum sem lýsti brottkasti á bátnum, sem hann hafði róið á fram að því. 

Viðtalið var birt í Sjónvarpinu og þetta var í fyrsta sinn sem vitni að brottkasti lýsti því svona opinskátt og með skilmerkilegri röksemdafærslu, með því að líkja fiskinum við misstórar kartöflur hjá kartöflubónda. 

Hann vildi ekki greina opinberlega frá nafni bátsins. 

Daginn eftir var hann rekinn og látinn taka pokann sinn. 

Því miður gerðist það þegjandi og hljóðalaust og voru það mistök að fylgjast ekki með því og greina líka frá því. 

En satt að segja datt manni ekki í hug að viðbrögðin yrðu svona afgerandi og blygðunarlaus úr því að nafn bátsins var ekki nefnt. 

Auðvitað hefur brottkastið tíðkast allt frá upphafi kvótakerfisins og líka áður en það kom til. 

En ástæðan fyrir brottkastinu varð miklu meiri og augljósari eftir að kvótinn kom til sögunnar. 

Þegar þeir Magnús Þór Hafsteinsson og Friðþjófur Helgason mynduðu og gerðu frétt um brottkast voru viðbrögð útgerðarinnar svo harkaleg og þrýstingurinn þvílíkur, að allt var gert sem hægt var til þess að gera þetta ótrúverðugt, meira að segja að snúa því þannig að þetta hefði verið sýndargerningur! 

Í Kastljósi um það hvernig Fiskistofa hefur verið gert ómögulegt að fylgja eftir eftirliti með vigtun kom svipað fyrirbæri í ljós og lýst var í 60 mínútum varðandi lyfjaeftirlitið í Bandaríkjunum. 

Hér heima er líka lagaumhverfið þannig, að Landgræðsla Íslands getur ekki komið neinum viðurlögum yfir þá sem standa að gróðurspjöllum og því að níða land.

Það er eins og furðuleg hjarðhegðun valdi því að í útgerðinni og landbúnaðinum sé slegin allt að því skjaldborg um þá sem svindla á lögum og skapi sér séraðstöðu. 

Þetta er dapurlegt, því að með því að sölsa undir sig stærri hlut í fiskveiðum en löglegt er, og stunda búskap með rányrkju, er í raun verið að ráðast að kjörum hinna, sem fara að lögum.  


mbl.is „Haltu kjafti, taktu þátt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband