Talinn sérvitringur með fyrsta farsímann.

Ég minnist þess hve margir hálf aumkvuðu mig fyrir að rogast um með fyrsta farsimann minn, hvert sem ég fór.  Hann var rándýr, stór og þungur, einkum rafhlaðan, og með sérstöku símtóli, þannig að hann líktist mest gömlum sveitasíma, sem hefði verið tekinn ofan af veggnum. 

Faríminn var hins vegar í mínum augum bráðnauðsynlegur í því "frétta-slökkviliðsmanns"-hlutverki, sem ég tók af sérviskulegri alvöru.

Átti frá upphafi eftir að koma sér vel margsinnis og verða ómetanlegur. Án hans hefðu ekki náðst sumar myndirnar af einstæðum viðburðum, sem tókst að taka á þessum árum.

Til er ein ljósmynd af þessum elsta farsíma, sem rataði stækkuð upp á vegg í anddyri Nokia verksmiðjanna í Finnlandi. Þar er ég að tala í hann uppi á Esju með TF-FRÚ á bak við mig.

Önnur ljósmynd var líka í anddyrinu að sögn framkvæmdastjóra umboðsins á Íslandi: Michael Gorbatsjof að tala í sinn síma.  

En háðsglósunum fækkaði með árunum og sérviskan leiddi til þess að nokkur huggun og uppreisn fékkst, þegar fyrsta frjálsa símanúmerið á Íslandi síðan fyrir stofnun Landssímans, 699-1414, var tekið í notkun hjá TAL ehf, og mér var afhent það og látinn hringja fyrsta símtalið úr því.

Ég var frá upphafi sannfærður um að farsíminn myndi verða bylting í fjarskiptum og að tími ríkiseinokunar á símaþjónustu væri liðinn.

Þó óraði mig ekki fyrir því hve hratt og langt þessi bylting myndi komast á undrafáum áratugum, svo að nú er meirihluti jarðarbúa með farsíma og ekkert lát er á framförunum í fjarskipta- og tölvutækninni. 


mbl.is Meirihluti mannkyns með farsíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsing ársins?

Heilsíðuauglýsing Epal í kjölfar deilu á samskiptamiðlum verður hugsanlega ekki aðeins auglýsing dagsins, heldur auglýsing ársins 2017 þegar upp verður staðið. 

Úr þrasi vikunnar eða jafnvel mánaðarins unnu Epal og Brandenburg auglýsingastofa upp auglýsingu þar sem leiðindum vegna þessara ýfinga er eytt og spunnið þannig úr þeim, að allir geta verið með bros á vör, lesendur auglýsingarinnar, þátttakendurnir í henni, aðilar deilunnar og allir þeir sem tóku þátt í henni eða lásu öll býsning af ummælum um hana. 

Að ekki sé minnst á Epal og auglýsingastofuna, sem hittu beint í mark. 

Áður en þetta mál hófst, hafði ég ekki hugmynd hvað Epal var. Nú veit ég það eins og mestöll þjóðin. 


mbl.is „Það eru allir velkomnir í Epal“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í Noregi eru háar háspennulínur merktar.

Þegar ferðast er um vestanverðan Noreg og norsku firðina, vekur athygli að sums staðar eru rauð aðvörunarflögg fest á háspennulínur þar sem þær liggja yfir firði eða hátt í lofti. 

Svipað háttar til á nokkrum stöðum hér á landi, til dæmis í innanverðum Hvalfirði þar sem línurnar liggja að vísu neðar en 500 fet (150 m) frá jörðu eða sjó, en engu að síður býsna hátt næst línuturnunum sitt hvorum megin fjarðarins. 

Ekki er mér kunnugt um að talin hafi verið ástæða til að setja upp merkingar á íslensk raflínumannvirki. 

Nú kann að verða bent á, að með því að setja rauð flögg á línur sé verið að auka stórlega á sjónmengun frá háspennulínunum. 

En þá er þess að gæta, að turnar og línur í háspennulínum valda þegar sjónmengun, og að yfirleitt liggja línurnar ekki enn um þjóðgarða eða verndarsvæði. En að sjálfsögðu er þetta matsatriði eftir aðstæðum á hverjum stað. 

Varðandi þyrluslysið í tengdri frétt á mbl.is er þess að geta, að skilyrði um lágmarksskyggni, sem gilda um loftför, gilda ekki um þyrlur að öðru leyti en því að flugmenn þeirra sjái til jarðar ef þeir eru í sjónflugi og nýti sér þann eiginleika þyrlna, að geta flogið allt niður undir kyrrstöðu til að halda nægilegu skyggni í láréttum fleti. 


mbl.is Þyrla brotlenti á sjónvarpsturni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur getur gert gagn, - líka ógagn, - endurskin skipt sköpum.

"Fötin skapa manninn" segir máltækið, og svartur klæðnaður getur verið mjög gagnlegur til þess að skapa heppilega umgerð um fólk.

Það er að vísu ósanngjarnt að dæma fólk eftir vaxtarlagi, en eins og margt annað í heimi mynda og kvikmynda, ráða ákveðin lögmál litanna miklu um sálfræðilegar ástæður þess að ósjálfrátt virka sumir litir öðruvísi en aðrir. 

  1. Endurskins vesti (2)

Og þá er skynsamlegt að klæðast þannig, að ekki sé að ástæðulausu verið að skapa truflandi sjónræn áhrif. 

Galli svartra eða dökkra fata er sá, að ef gangandi fólk er eingöngu í dökkum fötum, sést það mjög illa í rökkri eða dimmviðri. 

Eftir að rafhjól og létt vespuhjól urðu aðal farartæki mín, er maður miklu meira meðvitaður en áður um það hve mikilsvert er að komast alveg klakklaust og áfallalaust leiðar sinnar. Endurskins vesti (5)

En hugsunin má ekki aðeins snúast um að vara sig á bílunum, heldur líka á öðrum hjólum og gangandi vegfarendum, - þeir sem eru í umferðinni verða líka að sjá sem best hver annan. 

Um daginn munaði hársbreidd að ég lenti á vespuhjólinu á dökkklæddum grönnum unglingi, sem skaust hlaupandi út úr myrkrinu á mótum Hverfisgötu og Klapparstígs og hljóp yfir Hverfisgötuna þvert í veg fyrir mig. 

Ef hann hefði verið klæddur, þótt ekki hefði verið nema í örlítið gult, létt vesti með endurskinsmerkjum, hefði engin hætta skapast. Endurskins vesti (3)

Hér er um að ræða lítið atriði, sem getur skipt sköpum og skilið á milli lífs og dauða eða stórra meiðsla. 

Ég á eitt slíkt vesti, sem hér sést á myndum, og er svo fyrirferðarlítið og handhægt, að hægt er að hafa það í vasa, líkt og myndarlegan vasaklút eða samanbrjótanlegt A4 pappírsblað og grípa til þess í umferðinni.Endurskins vesti (4)

Það fylgdi í kaupbæti með vélhjólablaði, sem konan mín keypti handa mér og gaf mér síðastliðið haust.

Ég er að vísu í mun stærra gulu vesti með endurskinsmerkjum á hjólinu, en hef þetta litla ævinlega með mér til vara í föggum mínum.  

Á næst neðstu myndinni sést, að ef fólk vill lofa svarta litnum að gera sitt gagn, þar sem það er mest, að framanverðu, er hægt að sleppa því að renna rennilásnum jpp. 

 

 


mbl.is „Ég er algjörlega þessi svarta týpa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband