Burt með BMW til að gera "Bandaríkin mikilfengleg á ný"?

Donald Trump dreymir um að gera Bandaríkin mikilfengleg á ný ( make America great again ) og innifalið í því er að bandarískur bílaiðnaður komist á svipað stig og hann var á fram til 1960 þegar meirihluti bíla heims var framleiddur þar og Packard og síðar Cadillac voru "standard of the world", bestu lúxusbílar heim. 

Hámark gæðanna í bandarískri bílaframleiðslu náðist á fyrstu tíu árunum eftir stríð. 

En þá fór samkeppnin innanlands að valda því að sett var í forgang að framleiða sem allra nýjastar gerðir og sem allra flesta bíla á kostnað gæðanna. Gott dæmi um þetta voru bílar Chrysler verksmiðjanna 1957 og árin þar á eftir, sem voru að vísu glæsilegir útlits og á undan í útliti ( "suddenly it´s 1960!") en liðu fyrir ryðsækni og bilanir. 

Það var dæmi um skyndgróða skammsýni að auglýsa að með bílum af 1957 árgerð væri komið árið 1960, því að þegar 1960 kom, voru bílarnir orðnir úreltir í augum kaupendanna. 

Á árunum eftir 1955 byrjaði innflutningur á ódýrum, litlum evrópskum bílum að vaxa vestra, og 1960 gripu allar "þrjár stóru" bílaverksmiðjurnar til þess að framleiða ódýra bíla til að mæta þessari samkeppni: Ford Falcon, Chevrolet Corvair og Chrysler Valiant.

Til að selja sem flesta Ford Falcon voru þeir bílar hafðir afar einfaldir og reiknað með því að þeim væri hent eftir 2-4 ára notkun. 

Japanir og Þjóðverjar fundu í þessu veikan blett á bandarísku bílaframleiðslunni og gerðu strandhögg á bandaríska markaðnum með litlum gæðabílum sem smám saman stækkuðu eftir því sem háskólafólkið, sem var upphaflegi markhópurinn, varð eldra og tækjuhærra.

Þetta bar þann árangur, að um 1990 höfðu Benz og BMW hrundið Cadillac af stalli sínum og sótt að bandarískum bílum af öllum stærðum.

Nú kvartar Donald Trump sáran yfir bílainnflutningi frá Þýskalandi og einkum er BMW skotspónn hans.

Hann hótar að setja háan innflutningstoll á Bimmerinn svo að kjörorðið "make America great again" verði að veruleika.

Þetta er auðvitað brandari. BMW er rokdýr í Bandaríkjunum og vinnuaflið Þýskalandi dýrt á alþjóðamælikvarða. Samt rokselst hann. Af því að hann er betri.

Að vísu er róbótatæknin í framleiðslunni orðin svo mögnuð, að hægt er að framleiða hluta bílanna í Mexíkó þar sem er ódýrt vinnuafl, en engu að síður verða gæðin að vera í fyrsta flokki til að bílmerkið haldi stöðu sinni.  

Þegar Benz setti M-jeppa sinn á markað var hann meira að segja framleiddur í Bandaríkjunum sjálfum.

Hann og aðrir þýskir gæðabílar gætu ekki hafa selst svona vel fyrir stórfé nema vegna þess að þeir voru og eru betri en sambærilegir bandarískir keppinautar.

Í stað þess að senda bandaríska bílahönnuði og bílaframleiðendur að teikniborðunum til að framleiða betri bíla "to make America great again" í raun og veru og gera betri bíla en Benz og BMW, ætlar Trump að fara uppgjafarleið að takmarkinu.

Því að í því felst í raun alger uppgjöf að geta ekki framleitt betri bíla en útlendingar og beita efnahagsþvingunum til þess að bola óþægilegum keppinautum burt af markaðnum.  


mbl.is Þýskaland skuldi gífurlegar fjárhæðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2007: "Traust efnahagsstjórn." 2017: "Dýrmætur stöðugleiki, traust stjórn."

Lítum á nokkur slagorð íslenskra stjórnmála árin 2007 og 2017. 2006 hafði munað hársbreidd að hið mærða íslenska bankakerfi kollsigldi sig og hryndi og 2016 geysaði á fullu svipuð þróun varðandi ferðaþjónustuna og gengi krónunnar. Hrun bankakerfisins kom tveimur árum síðar. Hvað gerist 2018?

1. 2007: "Traust efnahagsstjórn!".  2017:  Dýrmætur stöðugleiki! 

2. 2007: Traust og hátt gengi bjargvættarins, krónunnar.  2017: Traust og hátt gengi krónunnar. 

3. 2007: Hátt gengi krónunnar tryggir kjarabætur. 2017: Hátt gengi krónunnar tryggir kjarabætur. 

4. 2007: Uppgangur í gjaldeyrisskapandi útflutningsgreinum.  2017: Uppgangur í ferðaþjónustunni. 

5. 2007: Útlendingar hafa trú á okkur og fjárfesta í íslenskum krónum.  2017: Loksins erum við að komast út úr vandræðunum sem þessi fjárfesting útlendinga skapaði. 

6. 2017: Sagt er: Krónan hefur bjargað okkur síðustu tíu ár og tryggt stöðugleika.

Hið rétta er að krónan hefur sveiflast 40-50% upp og niður á þessum tíma "hins dýrmæta stöðugleika."  


mbl.is Átta sig á hættunni á hröðum vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkur atriði sem má nefna.

Eftir að hafa hjólað á rafreiðhjóli milli Akureyrar og Reykjavíkur og frá Reykjavík austur á Hvolsvöll liggur ljóst fyrir í mínum huga hvar hættulegast er að er að vera á ferð á hjóli.

Sömuleiðis eftir að hafa farið um alla hluta landsins á vélhjóli.  

Það er ekki endilega á fjölakreinaköflunum á þessum leiðum, sem best þola 90 kílómetra hámarkshraðann, þar sem varasamast er að vera á ferð, heldur á köflum eins og í Svínahrauni þar sem skiptast á kaflar þar sem ein akrein er í hvora átt og þær mjóar og sami 90 kílómetra hraðinn er í gildi.

Ástand vegaxlanna er ömurlegt um allt land. Sums staðar eru kaflar á vegöxlunum, sem eru nothæfir, en hvar sem er má búast við því að þær séu ýmist þaktar möl eða jafnvel drasli, með djúpum skorningum og holum eða hreinlega hverfi skyndilega án nokkurrar aðvörunar. Þetta kemur sér verst þar sem ein mjó akrein er í hvora átt, ekki á fjölakreinaköflunum þar sem svigrúm er miklu meira fyrir bílana þegar umferðin er ekki þeim mun meiri.  

Meira að segja á höfuðborgarsvæðinu eru svona aðstæður, til dæmis á Reykjanesbraut á leiðinni í norður frá Hafnarfirði. 

Ég var síðast í dag á ferð á léttu vespuvélhjóli á þjóðvegahraða fram og til baka milli Selfoss og Reykjavíkur og þótt vitað sé að hraðinn drepi vélhjólamenn frekar en jafnhraðskreiða bílstjóra, er skásta öryggið oft fólgið fyrir mann á vélhjóli að vera á minnst 90 kílómetra hraða frekar en að fara eitthvað hægar og kalla á framúrakstur bíla.

En á vélhjólunum eru það ekki fjölakreinaköflarnir sem eru varasamastir vegna hjólsins, heldur 2 plús einn kaflarnir í sitthvora átt í Svinahrauni þar sem aka þarf á einni akrein með vírariðsógnina á aðra hönd og ónothæfrar vegaxlar á hina, auk sumra annarra kafla þar sem aðeins er ein akrein í hvora átt.

Á fyrrnefndu köflunum í Svínahrauni koma bílarnir oft aftan að manni, jafnvel þótt maður sé á 90, og sumir þeirra eru langt yfir löglegu hraða þegar þeir æða alveg upp að manni aftan frá og beita þrýstingi, gera sig líklega til þess að troða sér framhjá manni og þvinga mann út á vafasama eða jafnvel ónothæfa vegöxl.

Oftast eru þeir, sem eru á stærstu og breiðustu bílunum, í þessum ham, sem gerir framúrakstur erfiðari og vandasamari en ella. 

Hinn kosturinn sem þessir freku bílstjórar ota að manni, er að vélhjólamaðurinn brjóti reglur um hámarkshraða, helst jafn gróflega og þessi taugatrekktu eða hraðafíknu bílstjórar sjálfir gera.

Það er áberandi hve mörgum bílum er ekið langt yfir hámarkshraða á "fjölakreina" leiðinni um Miklubraut, Ártúnsbrekku og Vesturlandsveg. 

En sérkennilegt er ef gera á þessi lögbrot að ástæðu fyrir því að setja einhverjar sérreglur um notkun hjóla þar miðað við mjórri vegi með eina akrein í hvora átt, eða eru 2 plús 1, sem eru með sama hámarkshraða eða jafnvel hærri hámarkshraða.

Þess má geta, að það hefur verið lærdómsríkt að fara að nýju út á götur og vegi á hjólum, því að á unglingsárum mínum hjólaði ég í langar ferðir, allt upp í Norðurárdal í Borgarfirði og austur fyrir fjall, og margt hefur breyst síðan þá, þegar þjóðleiðirnar voru mjóir malarvegir.  

 

 

 


mbl.is Furða sig á skýrslu RNSA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband