16 ampera þröskuldurinn.

Á dögunum var ég ásamt Gísla Sigurgeirssyni, sérfræðingi um rafknúin farartæki, að kanna núverandi möguleika á því að aka hringveginn á rafmagnsbíl, meðan nógu margar hleðslustöðvar eru ekki komnar.

Spurningi var hversu víða væri hægt að aka um veginn með því að fá að stinga bílnum í samband við rafmagn á heimilum eða í fyrirtækjum og fá að hlaða hann þar og bíða í þær 6-7 klukkustundir, sem þyrfti.Citroen C-Zero 

Bíllinn, sem við notuðum til viðmiðunar, þarf að komast í rafmagn, þar sem rafkerfi viðkomandi húss þolir 16 amper. En það er alls ekki gefið, og þarf að kanna sérstaklega fyrirfram þá staði, þar sem komast þyrfti í rafmagn. 

Að þessu leyti er talan, sem nefnd er í tengdri frétt á mbl.is, 10-16 amper, þess eðlis, að það getur skipt öllu hvor talan, 10 eða 16 ampera útsláttaröryggi er í gildi þar sem hlaða þarf. 

Í hitteðfyrra fóru tveir menn á rafbíl til Ísafjarðar frá Reykjavík og var það fjarri því að vera áhlaupaferð vegna erfiðleika á að komast með bílinn í venjulega hleðslu. 

Þeir urðu að hlaða bílinn um borð í Breiðafjarðarferjunni Baldri og nota þar með orku jarðefnaeldsneytisa aflvélar skipsins á þeim hluta ferðarinnar. Að þessu leyti hefur því ekki enn verið farið á rafbíl frá Reykjavíkur vestur á Ísafjörð fyrir rafafli eingöngu.  

Í þjóðvegakerfi landsins eru víða ansi langar vegalengdir á milli byggða. Má nefna leiðina frá Gufudalssveit vestur í Vatnsfjörð á Vestfjarðahringveginum og leiðina milli Möðrudals á Fjöllum og Skjöldólfsstaða á Jökuldal á þjóðvegi nr.1. 

Ef 16 ampera möguleiki er ekki fyrir hendi á endastöðvum byggðanna, er spurningin hve langt þarf að fara að auki til að komast í nothæfa hleðslu og hvort og hve víða í þjóðvegakerfi landsins 16 ampera þröskuldurinn er fyrir hendi. 

Ég hafði ekki tíma til að byrja úthringingar út um allar trissur í lauslegri athugun á dögunum og sennilega verður því enn bið á því að fært sé um allt land á hvaða rafbíl sem er.  


mbl.is Setja upp 58 hleðslustöðvar í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve margir hafa lært og rannsakað ferðamál erlendis?

Fyrsti og lengi eini þjóðgarðavörðurinn á Íslandi, sem hafði kynnt sér að einhverju leyti erlenda þjóðgarða, var séra Heimir Steinsson, þegar Steingrímur Hermannsson réði hann sem þjóðgarðsvörð á Þingvöllum og veitti honum styrk til að fara til Bandaríkjanna til að kynna sér þjóðgarðinn Yellowstone. 

Þjóðgarðarnir í vesturhluta Bandaríkjanna eru um margt svipaðir að eðli og Ísland er sem ferðamannaland. Ríkin í Klettafjöllunum og næsta nágrenni þeirra, þar sem langflestir og stærstir þjóðgarðar eru, eru dreifbýl og landslagið fjöllótt eða lítt gróið. 

Wyoming ríki, þar sem þjóðgarðarnir Yellowstone og Grand Teton liggja sama, er til dæmis mun strjálbýlla en Ísland. Í Yellowstone, sem er 9000 ferkílómetrar, koma þrjár milljónir manna árlega, að mestu leyti að sumarlagi. Náttúrupassi í heild

Í þeim þjóðgarði hefur tekist að hafa málin í lagi, og aðgangsstýringin hefur falist í aðallega þrennu:  

1. Að hleypa fólki inn í þjóðgarðinn í gegnum fjögur stór hlið, þar sem fólk kaupir sér sérstakan aðgang eða, - það sem flestir gera, - kaupa sér náttúrupassa, sem gildir í ákveðið tímabil í alla þjóðgarða Bandaríkjanna. 

2. Að hafa ítölu í alls 1600 km langa göngustíga garðsins. 

3. Að spara ekkert til við að hafa innviðina, þjónustu og eftirlit nógu traust. 

Ekkert af þessu þrennu hefur verið gert hér á landi, enda virðumst við kappkosta að læra sem minnst af reynslu annarra þjóða og reyna að gera það, sem aðrar þjóðir gera ekki: Að undanskilja "heimamenn", þ.e. okkur sjálf frá því að sitja við sama borð og allir aðrir ferðamenn, frá hvaða landi sem þeir koma. Á passanum hér að ofan stendur kjörorðið: Stoltur þátttakandi í verndun náttúruverðmætanna og uppbyggingu innviða, en á Íslandi er hrópað: "Niðurlæging! Auðmýking!" 

Allt fór á hvolf þegar minnst var á náttúrupassa fyrir þremur árum, ítala er hvergi stunduð og sambland af græðgi, nísku og þröngsýni ráða því miður of mikið förinni hér. 

Hve margir af þeim, sem nú hafa hæst og ráða för hafa lært ferðamálafræði og farið í rannsóknarferðir í erlenda þjóðgarða þar sem aðstæður eru líkastar því sem hér eru?


mbl.is „Þeim verður ekki stýrt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvætt að "fiska" brot á andstæðinginn?

Stundum, þegar íþróttaleikir eru gerðir upp í tölum, kemur upp hugtakið að "fiska vítaköst" og jafnvel að "fiska vítaspyrnur." 

Yfirbragðið er oft jákvætt, að það sé hluti af leiknum að leggja gildrur fyrir mótherjana, og fá það skráð debet megin. 

Þegar leikaraskapur er viðhafður er slíkt ekkert grín, heldur grimm alvara og "skammarleg" svo að notað sé orðalag Lars Lagerback. 

Leikaraskapur er einhver óíþróttamannslega framkoma sem hægt er að viðhafa, því að með honum er verið að varpa rýrð á mótherjana og gera þá að skúrkum. 

Þetta fyrirbrigði er orðið óþolandi og kallar á það að athugað verði hvort dómarar geti ekki fengið að skoða svona atvik á myndavélum, þegar þeir eiga erfitt með að sjá sjálfir nákvæmlega hvað gerist.  

 


mbl.is „Skammarlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1963 og 2007 eru ennþá hér.

Fyrir rúmri hálfri öld námu ný trúarbrögð land á Íslandi, áltrúin. Nær öll gjaldeyrisöflun landins hafðu þar á undan verið á vegum sjávarútvegsins, allt vegakerfi landsins ófullkomnir malarvegir og enginn stóriðnaður stundaður, heldur að mestu lítil iðnfyrirtæki sem áttu tilveru sína undir tollamúrum.

Þá sáu forsvarsmenn svissneska álfyrirtækisins Alusuisse landið úr lofti á leið yfir hafið með Loftleiðaflugvél og buðu Íslendingum upp á að innleiða stórvirkjanir í vatnsafli í stað smávirkjana, og nota orkuna fyrir stóriðju, sem er dálítið skondin þýðing á "heavy instustrie" sem frekar ætti að kalla þungaiðnað.

Íslendingar stukku á bláeyga eingyðistrú, trúna á álguðinn og töfraorðið "orkufrekur iðnaður." Það varð að trúarsetningu að selja sem allra mesta orku fyrir sem allra lægst verð.

Tilkoma álversins í Straumsvík og Búrfellsvirkjunar og lækkun tolla með inngöngu í EFTA voru nauðsynleg skref á sínum tíma til þess að skjóta fleiri stoðum undir sveiflukennda gjaldeyrisöflun okkar, en á móti kom það sem síðan hefur verið skoðað betur, sóknin í að setja öll egg okkar varðandi notkun orku landsins í eina körfu, því að nú eru 80% af orkunni notuð af stóriðjunni og búið að gera stóriðjuna að svipuðu fyrirbæri og sjávarútvegurinn var forðum varðandi einhæfni á mikilvægu sviði efnahagslífsins.

Álverið í Straumvík var upphaflega með 33 þúsund tonna árlegri framleiðslu og þótti risavaxið á íslenskan mælikvarða. Nú þykja meira en tíu sinnum stærri álver, 360 þúsund tonna, vera það minnsta, sem áltrúin komist af með og búið að keýra á alls sjö möguleika á slíkum firnum þegar fyrirhugað álver við Skagaströnd er talið með.  

Munurinn á þungaiðnaðinum og sjávarútveginum og ferðaþjónustunni var hins vegar sá, að íslenskir hagfræðingar höfðu reiknað út, að virðisauki stóriðjunnar og ábati Íslendinga hafði verið fjarri því að vera jafnoki sjávarútvegs og ferðaþjónustu, enda renna tekjurnar úr landi og það meira að segja tekjuskattfrjálst hjá Alcoa.  

2007 munaði örfáum atkvæðum í Hafnarfirði að álverið í Straumsvík yrði stækkað stórlega og gert að algeru risaálveri eins og álverið á Reyðarfirði.

Um svipað leyti voru teknar skóflustungur að öðru risaálveri í Helguvík og með þessu tvennu, auk risaálvers á Bakka við Húsavík og í Þorlákshöfn, átti að leggja grunn að því að allri orku landsins og náttúruverðmætum yrði fórnað á altari álguðsins. 

Í Hafnarfirði var "ný tækni í mengunarvörnum" og höfuðatriði áltrúarinnar lofsungin og því hótað að leggja álverið niður ef kröfum álguðsins yrði hafnað.

1965 var eitt höfuðatriði lofsöngsins að stórfelldur afleiddur framleiðsluiðnaður myndi spretta upp þegar við Íslendingar myndum kaupa sjálfir álið og vinna úr því.

Ekkert varð af því, enda gegn lögmálunum um hagkvæmni stærðarinnar, sem veldur því að alla tíð hefur álið verið flutt óunnið úr landi. 

Ellefu árum síðar er enn að birtast nakinn sannleikurinn að ekkert hefur birst varðandi mengunarvarnartæknina, og þegar hugað er að því að álverið, að mestu óbreytt er orðið til trafala í þróun byggðarinnar, má nærri geta hvernig ástandið væri ef það hefði verið stækkað eins hrikalega og til stóð árið 2007.      


mbl.is Átti að minnka en er óbreytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband