Ný hugsun að ryðja sér til rúms?

Ég frétti af því fyrir vestan um daginn að hjá Vegagerðinni sé ný hugsun að ryðja sér til rúms í auknum mæli, sem mér líst vel á. 

Hún er sú að vegfarendur geti aflað sér upplýsinga um það hvar og hvenær verði snjómokstur á vegum og ökumönnum gefinn kostur á að fylgja á eftir moksturstækjum og njóta fylgdaraksturs. 

Þetta ætti að verða hægt að gera aðgengilegt, til dæmis á netinu. 

Þetta myndi verða til hagsbóta fyrir alla, auka öryggi og þægindi mjög í ferðum um vegi og verða fagnaðarefni. 

Liður í þeirri viðleitni, að segja frekar "já, ef..." og tilgreina skilyrði fyrir jáinu, heldur en að segja hreint nei, bara af því að það er einfaldara fyrir þann sem sér um viðkomandi svið.


mbl.is Fylgdarakstur yfir Þrengslaveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strax í dag. Vilji allt sem þarf. Pokasjóður.

Einu sinni voru engir plastpokar og samt voru engin vandræði við búðaborðin. Mörg ráð gegn ógn plastmengunar eru tiltæk fyrir okkur öll strax í fyrramálið. 

Við blasir að "á skal að ósi stemma" eins og sagt var forðum, það er, að stöðva útbreiðslu plastsins við upptök þess, í framleiðslunni sjálfri. 

En plastið er svo ótrúlega lúmsk framleiðsluvara. Sést best ef maður svipast um og sér hvernig bílar eru nánast klæddir plasti og búnir til úr plasti að stórum hluta. 

Framboð plastsins blasir hins vegar við í verslunum. 

Og hver og einn ætti að íhuga, hvort það þurfi nokkuð að kaupa þá plastpoka, sem við kaupum sífelld. 

Fyrir nokkrum árum datt mér í hug að gera plastpoka fjölnota, og tók að gamni mínu mynd af einum plastpokanum, sem entist sem aðalburðartækið í nokkur ár og bar þess sannarlega merki eins og sjá á mynd af honum, sem ég ætla að setja hér inn. Plastpoki 2

En auðvitað þarf miklu meira en til ef á að ná á viðunandi árangri á þessu sviði og nokkrum dögum fyrir andlát sitt, gaf Edda Heiðrún Backmann, sú mikla hugsjónakona, mér umhverfismildan og sterkan poka sem fyrir ótrúlega tilviljun passaði svo vel á stýrið á vespuhjólinu mínu, að hann hefur fylgt mér síðan, meira segja alla hringina þrjá um Ísland, sem farnir hafa verið á þessu hjóli.  

Með því að afleggja alveg plastpoka og hafa í staðinn meðferðis fjölnota poka úr endurnýjanlegum eða vistvænum efnum, er hægt að byrja í ranni hvers manns strax í dag. 

Huga þarf vel vali á efni í stað plastsins. Þannig þola skógar jarðarinnar ekki einhliða ásókn í timbur. Plastpoki 1

Á sínum tíma var svonefndur Pokasjóður stofnaður til þess að draga úr plastpokanotkun og láta innkomið fé ganga til umhverfismála. 

Síðan var því breytt þannig að féð gengur til líknarmála og er það út af fyrir sig hið besta mál. 

En þegar hraðvaxandi ógn plastmengunarinnar er skoðuð vaknar spurningin um hvort hugsunina á bak við Pokasjóð megi endurvekja og láta eitthvert gjald renna beint til þess að stemma stigu við plastæðinu, sem ríkir á fjölmörgum sviðum. Poki Eddu Heiðrúnar

Það ætti til dæmis ekki að vera leyfilegt að láta það viðgangast að kaupa plastpoka í verslunum, nema gegn borgun hás gjalds eða að viðskiptavinir komi sjálfir með sína poka.  


mbl.is „Hafið á það inni að við tökum slaginn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve lengi á "GAGA", ("MAD"), að storka lögmáli Murphys?

Lögmál Murphys segir að ef eitthvað geti farið úrskeiðis, muni það gerast fyrr eða síðar.

Þetta gildir um smátt sem stórt. Dæmi:  Ef hægt er að skrúfa skrúfu vitlaust, verður það gert fyrr eða síðar.

Dæmi af þessum toga, "smáatriði" á borð við eina skrúfu eða einn bolta, hafa kostað hundruð manna lífið í flugslysum.  

Tíminn vinnur gegn þeim sem ekki vilja taka mark á þessu og þetta liggur alveg ljóst fyrir. 

Og þó.  Ekki hjá öllum. 

Ekki hjá þeim leiðtogum völdugustu ríkja heims sem hafa í meira en hálfa öld haldið allri heimsbyggðinni og lífinu á jörðinni í spennu vegna þess, að þeir hafa taka augljóslega ekki mark á lögmáli Murphys þegar um er að ræða að hefja kjarnorkustríð fyrir slysni. 

1983 var það einn Rússi, sem upp á eigin spýtur kom í veg fyrir að Sovétríkin svöruðu kjarnorkuárás frá Bandaríkjunum, sem kom fram á tölvum í tengslum við ratsjár Rússa og reyndist stafa af bilun. 

Nú gerist það að einn maður ýtir á vitlausan hnapp og íbúar Hawai, ein og hálf milljón að tölu, fá skipun um að fara samstundis í skjól vegna yfirvofandi eldflaugaárásar.  Væntanlega vegna þess að Kim Jong-un sé búinn að "ýta á hnappinn sinn."

Viðbragðstíminn vegna raunverulegrar stórárásar af þessu tagi er svo stuttur, talinn í mínútum, að stórhætta er á því að þeir, sem fá hina röngu aðvörun, telji sig tilneydda að svara í sömu mynt. 

"Ýtti óvart á hnapp" er skýringin núna. Og þjóðhöfðingi íbúa Hawai-eyja hefur nýlega stært sig af því að hans "hnappur" sé sá langsstærsti í heimi, miklu stærri en hnappur Kim Jong-un, sem myndi verða notaður til að ráðast á Bandaríkin.

Og í Moskvu situr maður með álíka stóran hnapp og nú er hafinn metingur vegna þess að hnappurinn í Washington þurfi að vera áberandi stærri en hnappurinn í Moskvu. 

Þessir tveir hnappar bera ægishjálm yfir alla aðra. Áætlað er að "fælingin" vegna tilveru þeirra byggist á því að hvor þjóðin um sig geti gereytt hinni fimm sinnum! 

En nú ku það ekki vera nóg, bráðnauðsynlegt er talið vestra að sú þjóð geti eytt hinni minnst sex sinnum!   

Þetta er náttúrulega bilun, sú langstærsta í sögu mannkynsins. 

Hve lengi halda menn, að hægt sé að komast upp með það að storka lögmáli Murphys?

Af hverju er ekki fyrir löngu búið að vinda ofan af þessu brjálæði? 

GAGA, - Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra?

MAD, - Mutual Assured Destruction?


mbl.is Sendu út eldflaugaviðvörun fyrir mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband