Ein þjóð í tveimur ríkjum.

Þrátt fyrir skiptingu Kóreuskagans 1945 í tvö ríki, sem hefur staðið í alls 71 ár, er það í raun ein þjóð sem byggir skagann, þótt í tveimur mjög svo aðskildum ríkjum sé. 

Við fall Berlínarmúrsins 1989 kom í ljós að þrátt fyrir að járntjald hefði legið í gegnum Þýskaland frá 1945 og hluti þess, Berlínarmúrinn frá 1961, bjó ein þýsk þjóð í Vestur-Þýskalandi og Austur-Þýskalandi. 

Að vísu var ekki eins gríðarlegur munur á kjörum og þjóðlífi í þýsku ríkjunum og hefur verið í Kóreuríkjunum, og það var ekki tæknilega mögulegt eftir því sem tímar liðu, að loka íbúa Austur-Þýskalands eins mikið frá vitneskju um menningu og þjóðlíf fyrir vestan járntjaldið og ráðamönnum Norður-Kóreu hefur tekist að einangra land og þjóð sína frá nágrannaþjóðirnar. 

Það sýnir þó viðurkenningu á sterkri sameiginlegri þjóðerniskennd Kóreubúa að þeir skuli koma fram undir sama fána og senda sameiginlegt lið til vetrarólympíuleikanna, sem hefjast í Pyeongchang í Suður-Kóreu 9. febrúar. 

Þótt Austurríkismenn tali sama tungumál og Þjóðverjar, stóð sameining Austurríkis og Þýskalands ekki lengi, aðeins í sjö ár.

Hugmyndin um Stór-Þýskaland með Austurríki innanborðs hlaut andlát vorið 1945 og mun varla vakna á ný. 

En aldrei skyldi útiloka sameiningu Kóreuríkjanna. Sameiginlegt lið þeirra á Ólympíuleikum sýnir þjóðernisstyrk sem Þjóðverjum tókst ekki að sýna meðan á skiptingu þess lands stóð. 

1985 var ekkert sem benti til þess að skipting Evrópu með járntjaldinu yrði breytt. 

Engan hefði grunað þá að aðeins fimm ár liðu þar til járntjaldið félli. En valdataka Gorbatsjofs í heimsveldi, sem var byrjað að molna og grotna niður innan frá, breytti öllu. 


mbl.is Sameiginlegt lið Kóreuríkjanna á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni voru innanlandsflugvellirnir margir.

Agnar Koefoed-Hansen var stórmerkilegur afreksmaður á marga lund meðan hans naut við. 

Hann var fyrsti og eini Íslendingurinn sem kornungur sökkti sér ofan í flugmál erlendis fyrir stríð, flaug sem atvinnuflugmaður hjá Lufthansa víða um Norður-Evrópu og einnig í innanlandsflugi í Noregi, komst í persónuleg kynni við innsta hring ráðamanna í Þýskalandi, en ráðlagði íslensku ríkisstjórninni engu að síður sem flugmálaráðunautur hennar, að hafna alfarið beiðni Hitlers um aðstöðu handa Þjóðverjum fyrir millilendingar í flugi þeirra yfir Atlantshaf. 

Þetta vakti heimsathygli á þeim tíma sem engar þjóðir þorðu annað en að gefa eitthvað eftir varðandi þrýsting Hitlers á ýmsum sviðum. 

Eftir stríð varð Agnar fyrsti íslenski flugmálastjórinn og tókst með því að nýta sér einstaka persónutöfra að fá því til leiðar komið að Íslendingar hrepptu lungann af Norður-Atlantshafinu sem flugstjórnarsvið í millilandaflugi og hafa æ síðan haft mikið upp úr því fjárhagslega. 

Flugvellir á Íslandi ( Icelandic aerodromes) urðu tvöfalt til þrefalt fleiri en þeir eru nú, - að vísu flestir malavellir í byrjun - en þó nothæfir fyrir flugvélar af mörgum stærðum í innanlandsflugi. 

Þetta gerðist á þeim tímum, þegar þjóðartekjur og allar aðstæður voru miklu verri og minni en nú er. 

En nú virðist öldin vera önnur. Þótt þjóðartekjur hafi margfaldast og ferðamönnum fjölgað tuttugufalt eða meira með 500 milljarða króna innkomu í þjóðarbúið á ári, eru umræðan og aðgerðir markaðar því að "loka flugvöllum" og draga stórlega saman á því sviði. BISA úr na

Það er meira að segja fjárskortur vegna einfaldrar völtunar á malarvöllum á vorin og tilhneiging til að loka enn fleiri þeirra en gert hefur verið. 

Lítið dæmi úr eigin ranni: Til þess að viðhalda eina stóra flugvellinum (aerodrome) á hálendinu í þágu flugöryggis þarf ég að borga hinu opinbera gjöld, - ekki öfugt. Nálægt því  flugvallarstæði drapst á báðum hreyflum Fokkers 2007, en til allrar hamingju tókst að koma öðrum hreyflinum í gang og nota hann út til að ná til Egilsstaða. Í framhaldi af því ákvað ég að útbúa þetta náttúrugerða flugvallarstæði þannig, að það hlyti alþjóðlega skráningu og viðurkenningu með stöfunum BISA, (Sauðárflugvöllur). 

Á sama tíma þurfti Isavia að hafa talsvert fyrir því að leggja niður ýmsa flugvelli, til dæmis eina flugvöllinn í heilum landsfjórðungi, Patreksfjarðarflugvelli, þar sem væru möguleikar til að gera flugvöll að þeim eina í fjórðungnum, sem býður upp á flug allan sólarhringinn. 

Já, mitt í öllu gróðærinu er hún Snorrabúð stekkur. DSC00668

P. S.  Í athugasemd er beðið um nánari upplýsingar um völlinn og brautakerfi hans. Hér er rissmynd af brautakerfinu, en völlurinn sést líka á mynd á Google Earth, sem tekin var 2006 þegar brautirnar voru aðeins þrjár, 15-20 metra breiðar og völlurinn á byrjunarstigi og ekki skráður. 


mbl.is Gætu þurft að loka flugvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband