Vökvafleyting hættulegri en hálka. Það verður að útrýma henni.

Ef fimm sentimetra "löglega" djúpt hjólfar er fullt af vatni, myndast skilyrði til þess að breið og slétt dekk farið að fljóta ofan á vatninu. 

Fyrirbrigðið er kallað "aquaplaning" eða "vökvafleyting" og er að því leyti hættulegri en hálka, að ökumaður, sem annars er sæmilega vanur að fást við það þegar bíll skrikar á hálku, veit oft ekki sitt rjúkandi ráð þegar bíllinn byrjar skyndlega að rása, án þess að nokkur viðvörun hafi sést um það að þetta sé að gerast. 

Gott dæmi um vökvafleytingu birtist þegar ávalri steinvölu er kastað lárétt út yfir sléttan vatnsflöt, svo að hún "fleytir kerlingar."  

Fyrir rúmlega tveimur áratugum vöktu myndir af litlum flugvélum, sem flugmenn lentu í snertilendingum á sléttum haffleti á Hofsvík á Kjalarnesi og hófu aftur til flugs.

Hraðinn líklega í kringum 100 km/klst eða ekki langt frá hraða bíla á stofnbrautum. 

Út af þessu varð málarekstur og bar sérfræðingur frá NASA vitni við réttarhöldin og lýsti fyrirbærinu sem gat fleytt flugvélum eftir sléttum vatnsfleti. 

Vökvafleyting bíla á vatni í hjólförum er svipaðs eðlis, en að sjálfsögðu eyðileggur hún alveg möguleika á að stjórna og stýra bílnum, sem getur jafnvel snúist í hring eins og sýnt var í sjónvarpsfréttum fyrir rúmum 30 árum. 

Þetta er lífshættulegt fyrirbæri og að sjálfsögðu eru reglur, sem var breytt til hins verra í kjölfar Hrunsins, fráleitar, áratug síðar þegar hér er einhver mesti efnahagsuppgangur í sögu landsins. 

Að "hafa til skoðunar" að breyta til baka er fráleitt. Það hefði átt að vera búið að breyta þessu fyrir langa löngu. 

 

P.S.  Örn Johnson birtir afar mikilvægara upplýsingar um fleytinguna í athugasemd. 

 

 


mbl.is Ræða um breytta hjólfaradýpt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brýnt að hafa íslenskan mælingabúnað tiltækan.

Í Grímsvatnagosinu 2011 tókst að halda flugvöllum við Faxaflóa opnum með notkun sáraeinfalds mælingabúnaðar í lítilli einshreyfils vél, en ef það hefði ekki verið gert, hefði tölva í London ráðið því að flugvellirnir hefðu verið lokaðir í á annan sólarhring. tf-tal_maelingar_1260578

Jónas Elíasson prófessor hannaði búnaðinn og lét smíða hann eftir samtöl við okkur Sverri Þóroddsson sem lagði til flugvélina, en við Þóroddur Sverrisson flugum vélinni á vaktaskiptum meðan tölvan í London þráaðist við. 

Í fluginu með okkur voru tveir mælingamenn. 

Allan tímann, sem flugvélin flaug var heiðskírt við allan Faxaflóa, meira en 120 kílómetrar.tf-tal_maelitaeki

En stjórnendur aðgerða vegna gossins í London, tóku vitnisburði um skyggni allt til Snæfellsjökuls ekki gilda, af því að þeir sem horfðu yfir flóann gátu ekki sent gögn á pappír um það!  

Þeir voru sem sagt á svipuðu stigi og greint er frá í Íslandsklukku Halldórs Laxness: "Hefurðu bréf upp á það?"tf-tal_maelt_inni

Jónas hafði hins vegar útbúið mælingatæki sitt þannig, að tölurnar um mengun loftsins, sem flogið var í gegnum, birtust jafnóðum á pappírsstrimli, og farið var með gögnin upp í Flugturninn í Reykjavík svo að hægt var að láta London sjá það svart á hvítu, að í öllu fluginu kom aðeins fram mengun í nokkrar sekúndur. 

Það var þegar flugvélinni var flogið í stafalogni í góðri hæð beint yfir Hellisheiðarvirkjun!   

Jónas Elíasson fór síðar til Japans til að mæla öskumagn vegna lítils eldgoss þar og reyndist búnaðurinn vel. 

Alþjóða flugmálastofnunin býr yfir staðli um það, hve mikið öskumagn þarf að vera í lofti til að ekki sé hægt að ábyrgjast að þotuhreyflar þoli það. 

Mælingaflugið 2011 hófst á Selfossi, en þá var þar 5 kílómetra skyggni í öskumettuðu  lofti. 

Í ljós kom, að í slíku lofti var askan við þessi mörk, og er þessi mæling mikils virði, því að nokkuð auðvelt er að leggja mat á skyggni séð frá jörðu. 

Svo skörp voru skilin á milli öskumettaðs lofts og hreins loft að loftið var öskumettað í Þorlákshöfn, en rofaði alveg til fyrir vestan Selvog. 

 


mbl.is Eldgos hefði víðtæk áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. janúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband