Allt saman lygi segja Trumpsinnar.

Nýlega var Íslendingur sem ég þekki, Ásta Þorleifsdóttir, á ferð um Himalayafjöll og hefur greint frá bráðnun jöklanna þar og myndun nýrra stöðuvatna af þeim sökum, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is.

Hér á landi hafa ný stöðuvötn myndast af sömu ástæðu, hlýnun loftslags á jörðinni, svo sem Jökulsárlón, Fjallsárlón og lón við jaðar Brúarjökuls.

Ásta Þorleifsdóttir er jarðfræðingur sem ég hef þekkt vel um árabil og ég trúi jafn vel því sem hún segir og mínum eigin augum, sem hafa fylgst með hliðstæðum fyrirbærum í návígi áratugum saman hér heima.

En harðsnúinn hópur Trumpsinna segir okkur Ástu fara með lygar, því að "jöklarnir hafi farið stækkandi undanfarin ár", "Grænlandsjökull hækkar og fer stækkandi" og að upplýsingar alþjóðlega vísindasamfélagsins séu lygar og falsfréttir. 

Sumir hafa spurt mig, hvers vegna ég sé sífellt að gera þessar fullyrðingar Trumpsinna að umræðuefni hér á síðunni. 

En það er óhjákvæmilegt, þegar maður er sífellt talinn fara með lygar og rangfærslur, og líka vegna þess að sá síbyljusöngur hefur tvennan tilgang: 

Að gera síendurteknar fullyrðingar Trumpsinna að sannleika -

og / eða

ef það tekst ekki til fulls, að vinna samt þann sigur að koma umræðunni á það plan, að vegna þess hve ólík sjónarmið vegist á, sé engu lengur að treysta til eða frá, - að vísindalegar rannsóknir og upplýsingaöflun séu fáfengilegar grillur og skást að trúa engu. 

Sem er það sama og að ónýta sem flest mikilsverð mál. 

Nú liggur fyrir að hin bandarísku stjórnvöld sem Trump ræður yfir, beita öllum tiltækum ráðum til þess að vinna gegn því samkomulegi sem kemur út úr loftslagsráðstefnunni í Póllandi og setja fram ný gögn um það að það þurfi að auka kola- og jarðefnaeldsneytisframleiðsluna á jörðinni, og í söng aðdáenda Trumps kemur fram, að Sahara megi vel verða aftur græn og gróðri vafin. 


mbl.is Stöðuvötn Himalaja tifandi tímasprengja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðarbúar fyllast innvortis af plasti. Svo einfalt er það.

Síðuhafi var að horfa á bút úr sjónvarpsþætti á Stöð tvö þar sem greint var frá rannsóknum vísindamanna á dýrum og mönnum, sem sýndu, að plastagnir eru þegar teknar að breiðast út í gervöllu lífríkinu, allt frá kræklingum yfir í menn. 

Þetta er ekki mikið magn enn, en fer að sjálfsögðu vaxandi eftir því sem magn plasts í höfunum, á fjörum og á þurrlendi fer stjórnlaust vaxandi. 

Í viðtölum við vísindamennina fengust ekki svör við neinum grundvallarspurningum varðandi afleiðingarnar af þessu. 

Ekki hefur verið kannað hvaða áhrif plastið í líkömum okkar og afkomenda okkar hefur á vefina, til dæmis varðandi eiturefni úr plastögnunum eða beinum áhrifum af þúsundum agna sem verði komnar inn í fólk þegar líður á öldina. 

Vísindamaðurinn, sem rætt var við, taldi það bæði bagalegt og siðfræðilega rangt að halda áfram að auka við plastmagnið án nokkurs viðbúnaðar eða vitneskju um afleiðingarnar. 

Núverandi jarðarbúar kynnu að verða dæmdir hart af kynslóðum framtíðarinnar. 

Fyrirsjáanleg eru svör þeirra sem vilja ekkert aðhafast í þessum efnum né breyta neinu. 

Í athugasemdum hér á síðunni við hliðstæðum málefnum hafa komið fram "rök" eins og þau, að kynslóðir framtíðarnnar séu einfaldlega ekki til og skipti núlifandi fólk því engu máli. 

Þokkalegt, ef svipuð ógn hefði sótt að langafa þess, sem þetta skrifaði, og hann hefði hugsað svipað og sá afkomandi hans, sem birti þessa athugasemd blygðunarlaust. 


mbl.is „Stórt alþjóðlegt vandamál“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klassadæmi um mátt auðs og valda.

M'al hreinlætisframleiðandans, sem leynir tilvisit krabbameinsvaldandi efnis í hreinlætisvöru sinni, er klassadæmi um mátt auðs og valda. 

Þetta tvennt, auður og völd, er nefnt í einu, því að auður og peningar veita handhöfunum völd. 

Margfalt stórfelldara dæmi er vísvitandi blekkingaleikur bandarískra tóbaksvöruframleiðenda, sem blygðunarlaust létu þjáningar og dauða milljóna manna sem vind um eyru þjóta og hertu meira að segja á gerð rándýrra auglýsinga, sem áttu að efla þá trú, að reykingar væru tákn hreysti, hollustu og útiveru. 

Þeir komu fyrir þingnefndir Bandaríkjaþings eins og sakleysið uppmálað og þverneituðu öllum efasemdum um ágæti reykinganna. 

Eitt af nýjustu dæmunum eru læknarnir, sem urðu svo ríkir á framleiðslu "skaðlausra" verkjalyfja, að framleiðslan og gróðinn hjá þeim nemur tvöföldum þjóðartekjum Íslendinga. 

Áróðursherferð þeirra var svo víðtæk og útsmogin, að hrollvekjandi er. Hún hófst með "vönduðum vísindalegum rannsóknum" þeirra á gerð nýrra og skaðlausra verkjalyfja, sem færði þeim viðurkenningar og verðlaun. 

Þeir voru lagnir við að veita háskólum, heilbrigðisstofnunum og læknum styrki og gjafir, sem gerðu þessar stofnanir og lækna vanhæfa til þess að fjalla um myrkraverk þeirra ofan í kjölinn. 

Um síðir fóru afleiðingarnar að koma í ljós í einhverjum skæðasta faraldri, sem læknavísindin kunna frá að greina, ópíuóðaplágunni, sem nú leggur að velli meira en 50 þúsund Bandaríkjamenn á ári, eða fleiri en samanlögð umferðarslýs. 

Í hrollvekjandi umfjöllun 60 mínútna sjónvarpsþáttarins um málið kom fram, að með mútum og lobbíisma af hæstu gráðu fengu hinir siðblindu læknar þingmenn þess ríkis, þar sem var miðstöð svikamyllu þeirra, til þess að lauma í gegnum bandaríska þingið löggjöf, sem rústaði lyfjaeftirliti Bandaríkjanna. 

Það var auðveld leið til að heilla þá, sem telja eftirlit af öllu tagi óæskilegt. 

Einnig auðvelt að beina sjónum að slæmumm innflytjendum, sem hefðu dreifingu þessara lyfja innifalda í dreifingu annarra fíkniefna í glæpaheimum. 

Nánari óháðar rannsóknir hafa leitt í ljós, að fullyrðingar læknanna siðlausu um það að þeir hefðu búið til verkjalyf, sem væri ekki ávanabindandi, voru kolrangar, - þeir höfðu einmitt gert hið gagnstæða. 

Dæmin eru óteljandi á mörgum sviðum og er Volkswagen-hneykslið, rangar upplýsingar um útblástur, magnað dæmi um það, sem og tilraunir fleiri bílaframleiðenda til blekkinga af svipuðu tagi. 


mbl.is Vissu vel af asbesti í barnapúðrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líklega skásta stefnan, og Trump samkvæmur sjálfum sér.

Donald Trump gagnrýndi stefnu forsetanna á undan honum gagnvart Sýrlandi og Írak með þeim rökum, að með því að ráðast inn í Írak og styðja uppreisnarmenn gegn Gaddafí í Líbíu og Assad í Sýrlandi, hefði útkoman orðið mun verri en ella hefði orðið. 

Flestir voru þó sammála um að Saddam Hussein, Gaddafi og Assad hefðu verið slæmir einvaldar. 

George eldri Bush stillti sig um það 1992 að láta kné fylgja kviði og leggja Saddam Hussein að velli eftir að hafa rekið Íraksher út úr Kúveit og reyndist það vera skásta ákvörðunin þegar litið er á afleiðingarnar af innrás Bandaríkjamanna og "viljugra þjóða" 2003. 

Svipað má vafalaust segja um þá staðreynd að bæði Indverjar og Pakistanar eiga kjarnorkuvopn hvað það snertir að það er afleit staðreynd. 

En stundum verður að reikna dæmi til enda og bera óbreytt ástand saman við aðra kosti. 

Það er að sjálfsögðu afleitt að Norður-Kórea með sitt lokaða harðstjórnareinræði og ömurlega kúgun þjóðarinnar skuli búa yfir möguleikum til kjarnorkuvopnaeignar. 

En þegar kalt er litið á málin, er hinn kosturinn, sem Trump talaði fyrst um, að efna til hættulegs ófriðar með skelfilegum og að mörgu leyti ófyrirsjáanlegum afleiðinum, einfaldlega ekki í boði. 

Svo miklu verri er hann en núverandi ástand. 


mbl.is „Ekkert að flýta okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband