Heilinn þarf þjálfun eins og önnur líffæri líkamans.

Oft sýna dýrar og viðamiklar rannsóknir það sem hefur alltaf legið í augum uppi. Eitt af því er sú vísindalega fengna niðurstaða, að svokölluð heilabrot eru jafn mikilvæg fyrir heilann og sálina og hreyfing og notkun er fyrir aðra hluta líkamans. 

Þegar ég var ungur í sveit var bóndinn, ömmusystir mín, ekki hrifin af því að vera að "sóa" líkamlegri orku í íþróttir og hreyfingu, hreyfingarinnar vegna, heldur væri nær að nýta líkamskraftana til að vinna líkamleg störf. 

Um miðja síðustu öld var vélvæðing enn skammt á veg komin, það var enn slegið, rakað og rifjað með handafli, grafnir skurðir og byggðir vegir. 

Nú er öldin önnur, og ef einhver heldur því fram, að það sé fánýt iðja að fást við þrautir, leiki og andlega sköpun, sem krefst mikilla heilabrota og hugsunar, er það öðru nær. 

Það að láta gamminn geysa á andlega sviðinu er beinlínis bráðnauðsynlegt til að halda bæði andlegri og líkamlegri heilsu. 

Og Bruce Dickinson hefur ábyggilega rétt fyrir sér þegar hann heldur fram gildi þess að leyfa huganum að "flippa" og fara á flug, bæði beislaður og óbeislaður, til þess að staðna ekki og hrörna.  


mbl.is Heilsubótarganga um heilabúið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þremur árum eftir sniðgöngu 1939 unnu hinir sniðgengnu stórsigur.

Hve lengi getur ástand sniðgöngu gegn einum flokki á þingi staðið? Um alla framtíð eða í stuttan tíma? 

Í ljósi þessara spurninga getur verið áhugavert að íhuga, hvernig málin skipuðust eftir þorri þingmanna, 46 af 49, hófu að sniðganga þingmenn sem þar sátu og voru þá komir í flokk sem bar heitið Sameiningarflokkur alþýðu - sósíalistaflokkurinn.

Kommúnistaflokkur Íslands þótt afar hallur undir Stalín og kommúnistastjórnina í Moskvu. 

Hann vann mjög í samræmi við "línuna frá Kreml" á meðan hann var við lýði frá 1930 til 1938 og fylgið var eins stafs tala í prósentum þessi ár. 

Í kosningunum 1937 fékk flokkurinn þrjá þingmenn kosna. Stríðshætta fór þá vaxandi í Evrópu og Stalín, sem áður hafði gefið þá línu að sósíaldemókratar væru svikarar við málstað alþýðunnar og því óalandi og óferjandi, sneri við blaðinu og hvatti til samstöðu með vinstri flokkum gegn uppgangi fasista og nasista í Evrópu. 

1938 leiddi þetta til þess hér á landi, að Alþýðuflokkurinn klofnaði og vinstri armur hans undir forystu Héðins Valdimarssonar sameinaðist Kommúnistaflokknum í nýjum flokki, "Sameiningarflokki alþýðu - sósíalistaflokknum." 

Stalín gerði að vísu griðasáttmála við Hitler í ágúst 1939, en reyndi samt að tryggja stöðu sína á sínu áhrifasvæði, með því að seilast til valda í þeim ríkjum, sem á því svæði voru. 

Finnar höfnuðu kröfum Rússa, sem beindust meðal annars að því að færa landamærin næst Leningrad til svo að hernaðarleg staða Rússa styrktist og þá réðist rússneskur her á Finna til þess að knýja fram kröfurnar. 

Gömlu kommarnir réttlættu þessa árás, en það varð til þess að Héðinn Valdimarsson sleit sig lausan úr samstarfinu. 

Kommaþingmennirnir þrír fengu miklar ákúrur fyrir þjónkun sína við Stalín og var staða þeirra vafalaust afar bág hjá þorra almennings þótt engar væru skoðanakannanir þá til að sannreyna það. 

En tíminn er oft fljótur að líða í pólitík. 

Í júní 1941 rauf Hitler griðasamninginn við Stalín, öxulríkin, að Japönum frátöldum, réðust á Sovétríkin og allt hið pólitíska landlag riðlaðist. 

Bretar og síðar Bandaríkjamenn í árslok, urðu nánir bandamenn Sovétmanna og þess gætti um allan heim. 

Hér heima gerðu andstæðingar Framsóknarmanna bandalag um að breyta kjördæmaskipaninni og haldnar voru tvennar kosingar 1942. 

Í þeim varð Sósíalistaflokkurinn stærri en Alþýðuflokkurinn og "Finnagaldurinn" frá 1939 var grafinn og gleymdur. 

1944 myndaði Ólafur Thors síðan Nýsköpunarstjórn Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks og Alþýðuflokks og endurreisn "gömlu komanna" varð þar með fullkomnuð. 

Þó ekki lengi, því að síðla árs 1946 slitnaði upp úr samstarfinu, og enn voru það utanríkismálin, í þetta sinn Kalda stríðið, sem ollu straumhvörfunum. 

ö

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Sögðu virðingu Alþingis vera misboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn er von um friðsælan helgireit. Þetta er þjóðarmál.

Enn er von til þess að látið verði staðar numið í stanslausri ásókn til að hrúga hótelum og misfögrum steinkastölum niður í hina vinalegu byggð, sem hin forna miðja Reykjavíkur hefur verið. 

Þegar staðið er á Austurvelli sést enn húsaröðin við Kirkjustræti vestur af Alþingishúsinu, húsaræð sem myndar fallega og friðsæla byggð. 

Með byggingu enn eins hótelsins er þessari húsaröð drekkt á bakk við steinkastalann sem til stendur að reisa líkt og um aðför að Alþingishúsinu sé að ræða í stað þess að láta hinn forna helgistað, hugsanlega allt frá landnámi, standa sem gróðursæla og fallega vin í vestur frá Austurvelli. 

Færð hafa verið sannfærandi rök fyrir því að í þessum reit, sem myndar fallega vin við bæjarstæði fyrsta landnámsmannsins, hafi hann haldið helgiathöfn með heimilisguðum sínum, öndvegissúlunum Þór og Frey, til þess að sættast og friðmælast við landvætti Íslands. 

Svo helgar voru þessar súlur taldar að getið er um það í ritum þrjú hundruð árum síðar, að þær standi enn í eldhúsi í Reykjavík, þótt heiðnar séu að uppruna í landi, sem hefur þá verið kristið í nær tvær aldir. 

Enn er von, enn gefst tækifæri til þess að koma þarna upp nettum skógarlundi og minningarreit  um upphaf byggðar í Reykjavík á sameiginlegum helgistað tveggja trúarbragða. 

Icelandair rær nú lífróður til þess að viðhalda rekstri sínum og vandséð er, þegar ferðamannastraumurinn eykst ekki lengur, hvers vegna félagið er að leggja fé í enn eitt hótelið þegar það bráðvantar fé í raunverulegan flugreksturinn, sem er auðvitað það sem tilvist fyrirtækisins byggist á. 

Þetta er ekki aðeins mál þeirra Reykvíkinga, sem lásu á dögunum upp nöfn forfeðra og formæðra sinna sem hvíla þarna, heldur mál þjóðarinnar allrar, ekki síst Alþingis. 

Icelandair þarf á viðskiptavild að halda erlendis, svo sem í byggðum Vestur-Íslendinga í Ameríku og myndi auka á þá viðskiptavild með því að standa fyrir varðveislu reits í Reykjavík, sem tengist landnámi, svipað og álíka reitir í Ameríku vitna um landnám Íslendinga þar. 

Vigdís Finnbogadóttir benti á í ræðunni, sem hún sést halda á mynd í tengdri frétt á mbl.is, að sjálfsagt væri að þjóðin veitti þeim, sem hafa ætlað að byggja þarna hótel, aðstoð og fjárhagslegan styrk til að bjarga menningarverðmætum og aðstöðu til friðsællar útiveru, sem nauðsynlegt er að ganga ekki frekar á í hjarta Reykjavíkur. 

Þetta er þjóðarmál, þjóðþrifamál. 


mbl.is Friðun á borði ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kol eru takmörkuð orkuauðlind. Nema fyrir atkvæði Trumps.

Jarðefnaeldsneyti er takmörkuð auðlind, en það vill oftast gleymast í umræðunni um umhverfis- og orkumál. Jafnvel þótt jarðarbúar hefðu engin áhrif á loftgæði og loftslag með brennslu jarðefnaeldsneytis er fyrirsjáanlegt hrun á mikilvægum auðlindum eins og olíu, kolum, gasi og fosfór. 

Meira að segja kjarnorkan getur ekki komið í staðinn, því að úraníum er líka takmarkað.

Mjög er takmarkað hve mikla orku er hægt að vinna úr jarðargróðri vegna þess að það myndi ræna mannkynið nauðsynlegum svæðum til matvælaframleiðslu.  

Notkun óendurnýjanlegra orkugjafa og auðlinda er í eðli sínu rányrkja. Jafnvel nokkur hundruð ár eru agnar stuttur tími á mælikvarða sögu mannkynsins. 

Þegar litið er á línurit yfir orkunotkun jarðarbúa lítur lína hraðvaxtar notkunar jarðefnaeldsneytis út eins og næstum lóðrétt vinstri hlið spjótsodds, þar sem hægri hliðin, hrapið niður á við, verður álíka brött og lokar þessari útlínu hins mikla riss og falls sem stendur eins og tindur upp úr flatneskju. 

Lengi hafa verið vonir bundnar við kjarnasamruna eða notkun þóríums, en sífellt dregst á langinn að neitt gerist. 

Á meðan hrekjast jarðarbúar með stærstu iðnríki heims í fararbroddi undan þrýstingu skammsýni og græðgi í nafni hins heilaga átrúnaðar á stanslausan hagvöxt. 

Fylgi Donalds Trumps sem skilaði honum meirihluta kjörmanna í síðustu forsetakosningum þrátt fyrir minnihluta atkvæða, byggðist meðal annars á loforðum hans um aukna kolavinnslu og afléttu takmarkana á umhverfisspjöllum af völdum iðnaðar. 

Og hjá ístöðulausum stjórnmálamönnum í mörgum öðrum löndum sígur áfram á ógæfuhliðina.   

 


mbl.is Kolanotkun jókst á milli ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband