Áhrifamikil augnablik á kvikmyndahátíð og í kirkju í dag.

Á tveimur samkomum, sem ég var í dag, var fyrir tilviljun sama meginstefið, "Me-too"- byltingin og kúgun kvenna, á báðum stöðunum.

Fyrri samkoman var messa í kirkju Óháða safnaðarins en hin var á Eddunni í kvöld. 

Í stað hefðbundinnar predikunar safnaðarprest flutti starfsmaður trúboðs og hjálparstarfs kirkjunnar í Eþíópíu myndskreyttan fyrirlestur um viðfangsefni trúboðsins hjá þessara fátæku hundrað milljóna manna þjóð. 

Ég hafði svosem séð þetta áður í tveimur ferðalögum vítt og breitt um landið árin 2003 og 2006, en þetta rifjaðist upp á áhrifamikinn hátt í fyrirlestri trúboðans. 

Milljónir kvenna búa við svo mikla kúgun í þessu landi og öðrum vanþróuðum löndum í þriðja heiminum, að það er þyngra en tárum taki. 

Þetta voru svipaðar myndir og birtust í ferðalaginu 2003 í strákofaþorpinu Omo Rade, þar sem karlpeningur þorpsins lá aðgerðarlaus og dottandi eða sofandi með vopnum sínum, spjótum og sverðum undir stóru stráþaki á eins konar miðjutorgi í þorpinu á sama tíma og konur og unglingar sættu linnulausum þrældómi við að afla matar og bera níðþungar byrðar á bakinu daginn út og daginn inn. 

Í þessari forneskjulegu "menningu" er konan réttlaus eign karlmannsins, sem pískar hana áfram í þrældómi.  

Svo gagngert er þetta ranglæti, að enn stendur meira að segja í einu boðorðanna tíu í Biblíunni, að karlinn skuli "ekki girnast konu, ambátt, þræl, asna eða uxa náunga síns, né neitt annað en náungi þinn á." 

Liggjandi og sofandi karlarnir með öll vopnin sín hafa það hlutverk að verja þorpsbúa gegn hugsanlegri árás annarra liggjandi og sofandi karla hjá ættflokkum í öðrum þorpum. 

Mee-too-byltingin er aðeins hluti af óheyrilega risavvöxnu átaki á heimsvísu til að rétta hlut meira en helming mannkyns. 

Í Eþíópíu sögðu íslenskir trúboðar, það myndi taka minnst tvær kynslóðir að ná fram umbótum og gagngera hugarfarsbreytingu á þessu sviði. 

Að því leyti til er Mee-too-verkefnið margra áratuga verkefni. 

 


mbl.is Konur sýna samstöðu á Eddunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótækt fyrir áratugum, uppnefnt sem "eitthvað annað."

Það er sífelld áminning um mátt sterkra valdaafla, sem nýta aðesötðu sína til þess að þjóna  hagsmunum sínum, hvernig þessi öfl keyrðu stóriðjustefnuna og virkjanaæðið áfram í upphafi þessarar aldar. 

Alltaf eru að koma fram ný og ný dæmi um þetta. 

Þeir sem minntust á gagnaver fyrir rúmum áratug sem mun skárri kost en álver, voru úthrópaðir sem "andstæðingar rafmagns, atvinnuuppbyggingar og lífskjarasóknar."

Ástæðan var sú, að gagnaver féllu undir skilgreininguna "eitthvað annað" en álver, og það var nóg til að fordæma þá sem komu með slíkar og þvílíkar hugmyndir, hvað þá ef ferðaþjónusta var nefnd.

Áltrúarmenn nefndu aldrei ferðaþjónustuna því hafni, heldur aðeins með orðum eins og "fjallagrasatínsla" og "lopapeysu latte-lepjandi afætulýður á kaffihúsum í 101 Reykjavík. "

Nýjasta útgáfan er "101-rotturnar."

Nú, rúmum áratug síðar, þegar hinn útlendi ferðamaður hefur fært þjóðinni mestu uppgrip, atvinnuuppbygingu og lífskjarasókn í manna minnum, er góðri ríkisstjórn 2013-2016 þakkað, ekki ríkisstjórninni þar á undan sem hóf þó hagvaxtartímabilið í kjölfar brunarústabjörgunar af völdum Hrunsins, og enn síður þeim sem mæltu þá með þeirri atvinnuuppbyggingu og lífskjarasókn sem "eitthvað annað." 

Þeir mega enn og áfram sitja uppi með ummæli eins og að "hafa lengi barist fyrir því með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir uppbyggingu og mannlíf."  


mbl.is Gagnaver rís á Korputorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump í klípu í Sýrlandi.

Donald Trump fór mikinn í kosningabaráttu sinni fyrir forsetakosningarnar 2016 þegar hann fordæmdi Barack Obama og Hillary Clinton fyrir stefnu þeirra á málefnum Sýrlands. 

Hann gekk svo langt að segja og endurtaka það meira að segja, að Hillary og Obama væru meðal stofnenda Íslamska ríkisins. 

Ekki slapp George W. Bush forseti og flokksbróðir Trumps undan gagnrýni hans því að ef nokkur Bandaríkjaforseti átti þátt í því að skapa jarðveg fyrir ISIS var það hann með innrásinni í Írak. 

Bush yngri skellti skollaeyrum við aðvörunarorðum rágjafa, sem faðir Bush hafði tekið mark á, þess efnis að með innrás væri verið að leysa úr læðingu öfl sem enginn sæi fyrir hvaða usla gætu valdið. 

Svipað mátti raunar segja um "Arabíska vorið 2011" þótt ósvífið hafi verið að taka Hillary og Obama út úr og stimpla þau sem stofnendur ISIS. 

Trump lofaði kjósendum 2015 að taka upp breytta stefnu í stað þeirra sem hefðu kostað Bandaríkjamenn gríðarlegar fjárhæðir vegna hervæðingar. 

En hann var varla kominn í embætti fyrr en hann boðaði stóraukin útgjöld til hermála og í Sýrlandi eru Kanarnir í mikilli klípu. 

Rússar hafa löngum verið gagnrýndir fyrir staðfastan stuðning sinn við Assad Sýrlandsforseta, en það hefur hins vegar einfaldað aðstöðu þeirra, - það hefur alltaf verið og verður alltaf vitað hvar Rússarnir standa. 

Ef af innrás Tyrkja í Kúrdahéruðin verður, og her Assads tekur á móti, er Trump í vanda. 

NATO ríki komið í hernaðarátök við land, þar sem skjólstæðingur Rússa er við völd. 

Flækjustigið er reynar miklu flóknara en þetta, og eins gott að Trump eigi góða ráðgjafa og hlusti vel á ráð þeirra. 


mbl.is Þjáningar jukust á meðan beðið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband