Er það virkilega að "fjallagrasatínsla" og "eitthvað annað" geti þetta?

Nú eru liðin fimm ár síðan ríkisstjórn Íslands lýsti því einróma yfir að stefna skyldi að því áfram með oddi og egg að risaálver skyldi rísa í Helguvík.

Liðin eru tíu ár síðan margir frammámenn, ráðherrar, sveitarstjórnarmenn og fulltrúar orkuseljenda og orkukaupenda stungu saman fyrstu skóflustunguna að kerskála, sem síðan var byrjað að reisa af fullum krafti. 

Þetta var gert án þess að búið væri að ræða við á annan tug sveitarfélaga, sem þyrfti að semja við um lagningu háspennulína, vega og byggingu virkjanamannvirkja allar götur frá Reykjanestá upp í Skrokköldu á hálendinu og austur í Skaftárhrepp til þess að útvega orku til 360 þúsund tonna álvers, sem talsmaður Norðuráls játaði á fundi, að yrði að rísa á endanum í Helguvík til þess að álverið gæti borið sig. 120 þúsund tonna álver yrði fyrsti áfangi af fjórum. 

Í morgun kemur síðan ein af ótal fréttum um það hverju það er er að skila árlega í atvinnu- og efnahagslífið, sem áltrúarmenn töluðu niður sem fjarstæðu árum saman sem "fjallagrasatínslu" og "eitthvað annað" á þann hátt að fyrirlitningin og vantrúin skinu út úr orðalaginu og röksemdumm þeirra. 

"Fjallagrasatínslan" og "eitthvað annað" er nú sagt í fréttum vera ígildi þess að álver rísi á hverju einasta ári. 

En yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sumarið 2013 um einróma vilja til að reisa risaálverið hefur aldrei verið dregin til baka. 

Yfirlýsingar forstjóra Landsvirkjunar um tvöföldun orkuframleiðslunnar á næstu sex árum og um að það sé ekki spurning um hvort, heldur hvenær sæstrengurinn komi, standa óhaggaðar. 

Enda vex þrýstingurinn á virkjanir, sæstreng og aukinn hernað gegn náttúruverðmætum landsins svo mjög, að bara á einu ári dúkka upp tæplega 60 nýjar virkjanahugmyndir í viðbót við þær ca 100 hugmyndir, sem eru nú á borðum rammaáætlunar. 

Ástæðan er tvöföld:

1. Svonefndir fjárfestar og fjármagnseigendur, innlendir og erlendir, sem græða svo mjög, að þeir vita varla hvað þeir eiga að gera við alla peningana, eru æstir í að herja á vatnsföll og jarðvarmasvæði landsins, enda hafa þeir yfirburði yfir náttúruverndarfólk hvað varðar fjármagn og valdaaðstöðu. 

2. Þetta, yfirburðirnir í fjármagni og valdaaðstöðu, auðveldar þeim síðan að dreifa sókninni í náttúruverðmætin svo mjög, að þeir geti valtað yfir náttúruverndarsamtökin, sem hafa enga möguleika til að verjast því leifturstríði og stórsókn, sem þegar er hafin.  


mbl.is Samsvarar heilli stóriðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stækkandi vígvöllur netheimanna.

Netheimar og tölvuheimar soga til sín sífellt víðtækari stórfelldari átök þjóða og öflugra valda- og peningaafla. 

Þetta sést vel á útgjöldum flokkanna fyrir kosningar. 2007 náðu þau sennilega hámarki, fjórflokkurinn eyddi hundruðum milljóna, og litlu flokkarnir, Frjálslyndi flokkurinn og Íslandshreyfingin - lifandi land töldu sig knúna til að eyða meira en 80 milljónum sá fyrrnefndik, en 32 milljónum hinn síðarnefndi, ef þeir áttu ekki að láta þá stóru valta yfir sviðið. 

Núna er hægt að reka öfluga kosningabaráttu fyrir miklu minna fé, af því að umfangið og árangurinn í netheimum kostar svo margfalt minni fjárútlát en var á tímum "gamaldags" aðferða eins og útgáfu bæklinga og auglýsingar í blöðum. 

Eins konar stríðsástand verður æ algengara, samanber tölvuárásir Rússa. 

Þetta eykur líkurnar á viðsjárverðu og eldfimu ástandi og á hvers kyns klækjum, þar sem ekki eru notuð vönduð meðöl.  


mbl.is Hver var tilgangurinn með hnappinum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. apríl 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband