"Seljum fossa og fjöll..."

Þegar Íslendingar gengu í EES voru margir á báðum áttum varðandi það að engar skorður yrðu settar á uppkaup útlendinga á íslenskum bújörðum. 

En samningurinn var gerður þegar hér var efnahagsleg niðursveifla og landið fáum þekkt erlendis, enda ferðamenn tíu sinnum færri en nú er. 

Og áhyggjurnar reyndust lengi vel vera ástæðulitlar, þótt það styngi í augu að Danir, sem gengu alla leiðina í ESB, höfðu sett inn sérákvæði um dönsk sumarhús og lendur. 

En nú eru aðstæður að breytast, og ýmsir vöknuðu af vondum draumi þegar Huang Nubo hugðist kaupa Grímsstaði á Fjöllum. 

Það virtist ætla renna i gegn, enda álversfúsir sveitarstjórnarmenn með peningaglampa í augum. 

Í gildi er bann við því að útlendingar eignist meira en 49 prósent í sjávarútvegsfyrirtækju, en ekkert bann við öðrum erlendum fjárfestingum. 

Nú eru að vísu svipaðar rökræður uppi og þegar Noregskonungur vildi fá Grímsey í sínar hendur og sagt að erlendu kaupendurnir séu ágætis fólk. 

Einnig, að hingað til hafi Íslendingar sjálfir reynst einfærir um að stunda hervirki gegn íslenskri náttúru. 

En hendingar Flosa Ólafssonar koma samt upp í hugann og vekja til umhugsunar um það, hvort ekki sé nauðsyn á að vera á varðbergi gagnvart stórauknum landakaupum útlendinga, samanber hendingar Flosa Ólafssonar: 

Seljum fossa og fjöll! 

Föl er náttúran öll! 

Og landið mitt taki tröll!  


mbl.is 4.700 hektara jörð seld með hóteli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Víst ertu snjall og vís, Björn..."

Eðli málsins samkvæmt og í samræmi við nafn dýrsins, ætti hvítabjörn að sjást vel á auðri og dökkri jörðinni á Melrakkasléttu og ekki að verða skotaskuld úr því fyrir þaulvana leitarmenn Landhelgisgæslunnar að finna hann úr lofti í því góða veðri,, sem leikið hefur við fólk á norðaustanverðu landinu. 

En soltinn hvítabjörn á vergangi er ekkert gamanmál, það ætti gömul reynsla að sýna. 

Að vísu hefur verið nær íslaust á milli Íslands og Grænlands undanfarnar vikur, en þó hafa þrálátar suðvestanáttir hrakið hrafl og einstaka borgarísjaka yfir að norðurströndinni. 

Einn borgarísjaki sást um daginn, og einn borgarísjaki er nóg til að flytja eitt stykki hvítabjörn það nálægt landi, að bangsi geti synt restina. 

Þegar þetta er ritað, er málið óleyst, og þá á kannski enn einu sinni við gömul vísa, sem ég gerði í þakkarskyni við mann með nafni þessa dýrs, sem hafði veitt dýrmæta aðstoð við að leysa úr vandamálum mínum. 

Af því að fyrirbærið björn getur bæði verið innlent og erlent, var limran sett fram á tveimur tungumálum og nýtur sín ekki til fulls nema farið sé með hana upphátt:  

 

Víst ertu snjall og vís, Björn, 

og vin engan betri ég kýs, Björn. 

You solve my case 

and sav my face 

so sweetly with grace 

and ease, Björn. 


mbl.is Tíðindalaust af bjarndýrsvaktinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband