Svefninn oft lúmskur. "Hvernig ætlar þú að aka til Keflavíkur?"

Óvelkominn svefn getur verið hættulegur gestur fyrir fólk, og líklega eiga allir einhverjar minningar um að hafa dottað á óþægilegumm augnablikum. 

Menn í valdastöðum hafa hrokkið upp úr værum draumi þegar þeir áttu að vera með fulla athygli á mikilvægum stundum og óvænt innrás syfju hefur líka valdið alvarlegum slysum í umferðinni. 

Stundum getur hættan verið lúmskust á beinum tilbreytingarlausum köflum sem stinga mjög í stúf við gömlu malarvegina, eins og til dæmis gamla Keflavíkurveginn, sem þræddi Vatnsleysuströndina. 

Ein saga kemur í hugann. 

Einn af vörubílstjórum í Reykjavík á stríðsárunum átti það til að detta í það á föstudögum, en slapp alltaf með skrekkinn. 

Í eitt skiptið síðla föstudags var ekið sleitulítið með vörur frá Reykjavíkurhöfn suður á Keflavíkurflugvöll og myndaðist biðröð við skipshlið vegna tafa á uppskipuninni. 

Umræddur vörubílstjóri varð að lokum fremstur í röðinni, en töf varð á að klára að ferma bílinn. 

Þegar því lokið flautaði kranastjórinn til merkis um að bílstjórinn gæti ekið af stað. 

En hann hafðist ekkert að. 

Hljóðmerkin voru ítrekuð og flaut fór að bætast við frá bílnum fyrir aftan. 

Að lokum fór maður að dyrum bílsins og bankaði á þær, en þegar það dugði ekki, opnaði hann dyrnar. 

Valt þá bílstjórinn steinsofandi næstum út um dyrnar, svo að verja þurfti hann falli og ýta honum til baka. 

Greinilegt var, að hann var dottinn í það eins svo svo oft gerðist á föstudögum. 

Hann var reistur við en gangsetti þá bílinn. 

"Heyrðu, vinur, þetta getur þú ekki gert, blindfullur," aðvaraði hinn tilkvaddi maður. 

"Jú, jú," svaraði bílstjórinn, "ég dríf mig bara af stað!" 

"Ertu vitlaus," var svarið, "hvernig ætlarðu að aka til Keflavíkur, þann mjóa og króktótta veg, svona á þig kominn?"

"Ekki nokkur vandi," sagði bílstjórinn, - "ég fylgi bara ströndinni!" 


mbl.is Strætóbílstjóri svaf á ljósum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðið "atburðarás" í dag, - eitthvað annað á morgun? Hægt andlát?

Stundum gerast fyrirbæri svo hægt að menn taka ekki eftir því. En þróunin er samt markviss í sjálfu sér. 

Eitt af þessum fyrirbærum lýsir sér í því, að hægt en örugglega er verið að skipta út ágætum íslenskum orðum og íslenskri hugsun og taka upp ensk orð eða enska hugsun í staðinn. 

Dæmi:  Eitt fjölmargra enskra orða, sem hefur verið margnotað í annars ágætri umfjöllun sparkspekinga um HM að undan er orðið %aggressívur." 

Orðin ágengur eða árásargjarn heyrast ekki lengur og óhætt að birta dánarauglýsingu þar um. 

Senn fer að verða óhætt að birta dánarauglýsingu fyrir íslenska orðið "atburðarás," sem hefur dugað þjóðinni vel og lengi. 

Þetta orð virðist ekki þykja nógu fínt í hinu alltumlykjandi enskusnobbi sem stjórnar orðfæri okkar og hugsun. 

Í staðinn er komin hrá þýðing á enska orðinu "timeline". 

Hægfara hnignun og dauði ýmissa íslenskra orða og hugtaka birtist svo víða, að fólk tekur varla eftir því. 

Aðeins eru nokkrar vikur síðan hér á síðunni var birt sameiginleg dánarauglýsing fyrir átta íslensk orð, sem hafa verið notuð vel og lengi yfir fyrirbæri í menntakerfinu, en þykja nú greinilega svo ófín, að þau sjást aldrei notuð lengur. 

Þetta eru orðin bekkjarfélagi, bekkjarsystir, bekkjarbróðir, bekkjarsystkin, skólafélagi, skólabróðir, skólasystir og skólasystkin. 

Í stað allra þessara fallegu orða, sem hafaa gert fólki kleyft að tilgreina vel og afmarka það, sem nefna þarf,  er komið orðið "samnemandi". 

Þetta hægfara andlát hefur gerst svo hljótt og öugglega, að þegar minnst er á það við fólk, verður það undrandi. 

Hafði ekki tekið eftir þessu, jafnvel fólk, sem er í forsvari fyrir háskóla. 


mbl.is Nú eru eftir níu – tímalína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað kraftaverk og gengi íslenska landsliðsins.

Þjóðir, sem ekki voru í hópi efstu liða á styrkleikalista FIFA, svo sem Ísland, Svíþjóð og Rússland, hafa gert hinum svonefndum sterkustu þjóðu marga skráveifuna á HM, og keppnin á mótinu hefur orðið mun jafnari en búist var við. 

Hjá Rússum, Svíum og Íslendingum vógu skipulag, liðsandi og samheldni meira en geta einstakra leikmanna. 

Íslendingar áttu fína leiki gegn Argentínu og Krótatíu og það var tvísýnt alveg fram undir lok leiksins við Króatíu, hvort íslenska liðið færi áfram í stað Argentínu. 

 


mbl.is Kraftaverk eða svindl?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband