Er hægt að detta eða síga upp í móti?

Talsverður munur getur verið á ástæðum þess að gera athugasemdir við málfar. Þó verður að gera greinarmun eftir því hvort um órökrétt orðalag sé að ræða. 

Á síðari árum færist það í vöxt að nota sagnirnar að detta og síga í öfugri merkingu, það er, að þær túlki hreyfingu upp á við. 

Fyrirsögnin á fréttinni um Selá, sem tengd er við þennan pistil, gæti bent til þess að veiðin í ánni sé svo litil að hún verði ekki nema þúsund laxar á árinu. 

Ef veiðin er að "detta í þúsund laxa" er rökrétt að verið sé að tala um að veiðin hafi áður, til dæmis á sama tíma í fyrra, verið meiri en þúsund laxa, en sé nú að detta niður í þessa tölu. 

En við lestur fréttarinnar kemur þveröfugt í ljós: Veiðin er að detta upp á við! 

Hvað eftir annað er sögnin að síga notuð á svipaðan hátt; talað um að eitthvað sígi uppá við. 

Orðtakið "sígandi lukka er best" er gott dæmi um það, því að ekkert getur sigið upp á við og því fráleitt að það sé gott að lukkan fari sígandi. 

En þeir, sem segja þetta, meina einmitt þveröfugt; best er að lukkann vaxi hægt. 

Íslenskan á ágætt orð yfir bæði vöxt og minnkun, sig og ris, sögnina að "nálgast." 

En hún er sárasjaldan notuð. 

 

P.S. Í tveimur athugasemdum hér á eftir er rakið, hvernig sögnin "að síga" hefur haft tvenns konar merkingu í gegnum aldirnar, bæði að lýsa lóðréttri hreyfingu niður á við, en einnig láréttri, bæði afturábak og áfram, samanber "að láta undan síga" og líka hitt, sem séra Friðrik yrkir í einum af KFUM-sálmum sínum: 

"Myrkraherinn; syndasveimur 

sígur móti oss." 


mbl.is Selá að detta í þúsund laxa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landnemaþjóð, sem tók land af "frumbyggjum"?

Smám saman er sagan um landmám Íslands að breytast úr því að vera afrekasaga um norskar hetjur, sem fundu landið fyrstir manna í það að hér hafi aðrir verið á undan. 

Þar með fer sagan að líkjast meira hliðstæðri hetjusögu evrópsku "landafundamannanna" sem fundu Ameríku. 

Og hetjusögunni um þá sem endurfundu "Landið helga" og reisa þar landnámsbyggðir af kappi. 

Ekki skal lítið gert úr siglingaafrekum víkinganna fyrir meira en þúsund árum né hliðstæðumm afrekum Spánverja, Portúgala og Englendinga fyrir hálfu árþúsundi. 

Allir þessir "landemar" færðu með sér mikla tækni- og verkkunnáttu á ýmsum sviðum á þeirra tíma mælikvarða. 

En þeir brutu löndin undir sig með valdi og litu í raun niður á þá sem fyrir voru með því að upphefja sjálfa sig, sitt ætterni og sinn arf.

Og einnig var stærstur hluti norrænu landnemanna vafalaust bændur, þótt mikið sé gert úr ættgöfgi og atgerfi "göfugustu" landsnámsmannanna. 

Ótrúleg umsvif, sem meðal annars sjást í rústum bygginga og svonefndum þjóðveldisgörðum sem reistir voru um þverar og endilangar þingeyskar heiðar bera ekki aðeins merki um auð, heldur líka um það þrælahald, sem þurfti til að standa undir öllu þessu "efnahagsundri."  

Nýjustu erfðarannsóknir sýna, að meirihluti íslenskra kvenna er skyldari þjóðum á Bretlandseyjum en Skandinövum. 

Um tíma var norrænt landnám á Írlandi, og þegar það fór halloka, er líklegt að fjöldi kvenna og þræla hafi verið flutt til Íslands. 

Án kvenna og þræla hefðu hinir stórlátu, stoltu og fyrirferðamiklu landnámshöfðingjar Íslands varla borist svo mjög á og staðið í átökum, orrustum og mannvígum eins og sögurnar greina frá. 

Um hluta af þessum veruleika landnámsins reynir síðuhöfundur að fjalla í ljóðinu "Íslenska konan" með eftirfarandi línum, sem túlka þá skoðun, að hlutur kvenna í landnáminu og uppbyggingu þjóðveldis á Íslandi hafi ekki verið gefinn sá gaumur, sem verðugur er: 

 

"Með landnemum sigldi´hún um svarrandi haf. 

Hún sefaði harma; hún vakti´er hún svaf. 

Hún þerraði tárin, hún þerraði blóð. 

Hún var íslenska konan, sem allt á að þakka vor þjóð. 

 

Ó, hún var ambáttin hljóð, 

hún var ástkonan rjóð, 

hún var amma, svo fróð! 

 

Ó, athvarf umrenningsins, 

inntak hjálpræðisins; 

líkn frá kyni til kyns.." 


mbl.is Íslensk bein fundust sem talin eru vera frá 9. öld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband