"Innsæi" ofurmennisins á oddinn, ekki þekkingin.

Grátt var gamanið hjá sjónvarpsmanninum John Oliver í þætti sínum, "Last week tonight", þegar hann dró forseta Bandaríkjanna sundur og saman í háði. 

Skoðun á samtali Trumps við Angelu Merkel leiddi í ljós, að Trump vissi ekki að ESB gerir viðskiptasamninga þá sem Þjóðverjar eiga aðild að, en ekki Þjóðverjar sjálfir. 

Hún leiðrétti forsetann og hefði þá mátt halda að forsetinn skildi það, að um þetta giltu svipaðar reglur og um að að til dæmis gerir Bandaríkjastjórn viðskiptasamninga við erlend ríki, en ekki New York ríki sjálft þótt um sé að ræða vörur þaðan. 

En þessi einfalda staðreynd um viðskiptasamninga var of stór biti fyrir Trump að meðtaka, þannig að hann hélt áfram að endurtaka vitleysu sína í sífellu, og heyra Merkel reyna að leiðrétta hana í hvert skipti, ekki tvisvar eða þrisvar í viðbót, heldur alls ellefu sinnum! 

Skemmtilegt var líka að sjá hvernig forsetinn hafði ráðið núverandi helsta stjórnanda efnahagsmála. Enginn bitastæður kunnáttumaður fannst, en að sögn forsetans sjálfs fór hann bara inn á Amazon við valið. 

Valið hentaði Trump vel, því hinn útvaldi segir helstu kosti og yfirburði forsetans fólgna í því að hann þurfi ekki á neinni hagfræðiþekkingu að halda, heldur noti eingöngu ofurmannlegt innsæi sitt. 

Þetta vantar okkur hér, innsæi og innlit á Barnaland.

Í þessu sjónvarpsspjalli var líka fyndið að sjá og heyra það úr munni forseta "litla mannsins" að nær allir Bandaríkjamenn ættu BMW og þar með þyrfti að breyta því með álögum á þetta vonda fyrirtæki sem stæði í vegi fyrir dýrð og veldi Bandaríkjanna. 

Þessi ummæli lét hann falla í því ríki Bandaríkjanna, þar sem eru stærstu bílaverksmiðjur BMW í heiminum, enda flytja verksmiðjur Benz og BMW út 1,8 milljónir bíla til annarra landa, meðal annars til Kína! 

Helstu efnahagssérfræðingar landsins reyta hár sitt og skegg yfir afleiðingunum af viðskiptastríðsáætlunum forsetans, sem þarf auðvitað ekki á staðreyndum eða ráðum bestu manna að halda, - innsæið ofurmannlega nægir.  

Enda um slíkt ofurmenni að ræða, að það nýjasta hjá honum er að Bandaríkin myndu hrynja ef hann færi úr forsetastóli. 

Meira að segja Hitler, sá mikli einvaldur og "Fuhrer", hafði ekki þetta álit á sér þegar hann fór í stríðið 1939 og greindi frá því að ef hann félli frá, væri hann búinn að velja mann í sinn stað, sem myndi halda stríðinu áfram. 


mbl.is Láta ekki undan pólitískum þrýstingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskur fararstjóri afsakaður með "kunnáttuleysi og vanþekkingu"?

Það hefur löngum verið viðkvæðið í fréttum af umhverfisspjöllum vegna utanvegaaksturs að um útlendinga væri að ræða, sem afsökuðu sig með því að hafa ekki vitað hvaða reglur giltu um slíkt. 

Afar þægilegt fyrir okkur Íslendinga að geta afgreitt svona mál á jafn einfaldan hátt og jafnframt viðhaldið alhæfingum á þessu sviði sem öðrum. 

Þess vegna sperrast eyrun þegar allt í einu vitnast, að "íslenskur fararstjóri" hafi ráðið för í nýjasta málinu og hann jafnframt látinn falla undir afsökunina um "vanþekkingu og kunnáttuleysi." 


mbl.is Íslenskur fararstjóri sektaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um "Seasons in the sun" og "Green, green grass of home?"

Um miðjan áttunda áratuginn varð lagið "Seasons in the sun" mjög vinsælt víða um heim, líka hér á landi. Sá texti er sorglegur, því verður ekki neitað, en ekki sést hann nefndur í leit að sorglegasta topplaginu, enda var hann kannski ekki á toppi Billbord Hot 100. 

Lagið "Green green grass of home, sem endar með greftrun var líka afar sorglegt". 

Í íslensku útgáfunni var sjúkrahúsdvöl dauðvona sjúklings bætt við harmleikinn. 

"Jesabel" með Frankie Laine um samnefnda ókind og illyrmi var ansi dapurlegt. 

Hér á landi myndi lagið Angelia komast hátt sem dapurlegt lag, að ekki sé minnst á Söng villiandarinnar. 

Raggi Bjarna mundi yfirleitt ekki heiti lagsins og nefndi það Akranesruglið, enda voru línurnar "Angelia, ég á sorg sem engin veit" og aðrar társtokknar ljóðlínur ekki líklegar til að skapa stuð hjá Sumargleðinni.

Margir táruðust þegar Elsa Sigfúss söng lagið við ljóð Davíðs Stefánssonar um verkamannsins kofa þar sem hin sjúka móðir brosti í gegnum tárin og lagið endaði á: "Börnin frá mat en foreldrarnir svelta.  

Dapurlegasta erlenda lagið og líka það viðbjðóðslegasta er líklega lag Tom Lehrer "I hold your hand in mine" sem er hryllilegt gamanlag um limlestingu morðingja. 


mbl.is Hafa fundið sorglegasta topplagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. ágúst 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband