Óvæntur tónn hjá ráðherra.

Inga Sæland sagði í ræðu sinni á Alþingi í kvöld að fram að ræðu hennar hefði enginn ræðumaður borið sér í munn orðið fátækt. 

Þess vegna var það svolítið óvænt að hlusta á ræðu Ásmundar Einars Daðasonar á eftir ræðu Ingu, og heyra hann koma með markvissa ádeilu á þann veruleika sem blasir við öllum, sem vilja sjá, varðandi kjaramálin. 

Ásmundur nefndi sem dæmi 40 þúsund króna hækkun á tekjum hjá láglaunahópi, sem hefði átt sér stað á sama tíma sem laun eins forstjóra í stórfyrirtæki í meirihlutaeigu lífeyrissjóðanna hefðu hækkað um eina milljón, eða 25 sinnum meira!  

Ásmundur Einar er að vísu félagsmálaráðherra og upplifir því raunveruleikann í samfélaginu aðeins öðruvísi en aðrir ráðherrar. 

En ræða hans, vel flutt og samin, var þörf áminning um það andrúmsloft og raunverulega ástand, sem á eftir að koma betur í ljós á komandi vetri átaka um kjaramál. 


mbl.is Þessari vitleysu verður að ljúka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar sem garðurinn er lægstur.

Til er íslenska orðatiltækið að ráðist sé á garðinn þar sem hann er lægstur. Það orðalag kemur í hugann þegar litið er yfir feril ríkisstjórna landsins á þessar öld á sviði kjara þeirra, sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. 

Björgvin Guðmundsson og fleiri hafa rakið það vel í blaðagreinum, hvernig æ ofan í æ hefur það helst verið talið árangursríkt að vega í knérunn hinna tekjulægstu um fjölbreyttar aðgerðir við að halda kjörum þeirra niðri með einstökum smásálarskap, þannig að engu er líkara en að stefnan sé að sem flestir aldraðra, öryrkja og láglaunafólks sé læstir inni í fátæktrargildru framfærslufjár, sem er um þriðjungur af meðallaunum í þjóðfélaginu.  


mbl.is Öryrkjabandalagið grípur til aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan endalausa: Of stór til að fara í vera látin rúlla?

Í nýlegu viðtali við Dominique Strauss-Kahn gefur þessi fyrrum forstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins það í skyn, að það hafi verið mistök 2008 að láta Lehmann brothers bankann rúlla yfir um. 

Stjórnvöld hafi þá engan veginn gert sér grein fyrir því hve gríðarlegar afleiðingar það myndi hafa. Strauss-Kah minnist ekki á Ísland, sem alþjóðlegur bankastjóri hafði að sögn Davíðs Oddssonar gefið í skyn í trúnaði að væri búið að ákveða fyrirfram að láta fara sömu leið og Lehmann brothers. 

Í framhaldinu ef efnahagshruninu 2008 sáu bandarísk stjórnvöld til þess að enginn hinna "þriggja stóru" bílaverksmiðja Bandaríkjanna, sem römbuðu á barmi gjaldþrots, færu sömu leið. 

Og hér heima var margt líkt með þessu og til dæmis var tryggt að stóru bílaumboðin gætu haldið áfram og þau frekar styrkt heldur hin smáu, sem höfðu þó sýnt aðhaldssamari rekstur. 

Í afgreiðslu á "forsendubrestinum" mikla kom líka í ljós, að það voru helst hinir efnameiri, sem höfðu slegið stærstu lánin, sem fengu bróðurpartinn af 80 milljörðunum, sem voru gefnir eftir. 

Þótt "forsendubresturinn" hefði líka bitnað óbeint á fátækum leigjendum og fleira láglaunafólki, fékk það ekki neitt, af því að það hafði ekki haft efni á, ekki viljað, eða ekki haft aðstöðu til þess að taka lán. 

Í sjö ára stanslausri uppsveiflu í ferðaþjónustunni og fluginu, sem henni er tengt, en þetta hefur skapað mestu og lengstu uppsveiflu sögunnar hér á landi, virðist fyrirsjáanlegt í ljósi fyrri reynslu, að hvorki WOW air né Icelandair eru nógu lítil til þess að þeim verði leyft að rúlla yfir um. 


mbl.is Vongóðir um fjármögnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grænland á sig sjálft og tunglið á sig sjálft.

Eitt af snúnum viðfangsefnum við mannvirkjagerð á Grænlandi er sú sérstaða, að þar í landi eru ekki til landeigendur, af því að það er litið svo á að Grænland eigi sig sjálft. 

Sem bankar í það að hafa það eins og hjá einni Suður-Ameríkuþjóð að náttúran sé "lögaðili". 

Þetta viðhorf ríkti víða í indíána- og ínúítabyggðúm Ameríku, og ef marka má heimildir um Ingólf Arnarson og landnám hans, er svo að sjá, að hann og sennilega fleiri norrænir menn hafi litið á Ísland svipuðum augum. 

Ingólfur taldi, að vegna trúleysis síns hefði Hjörleifur fóstbróðir hans ekkert til að friðmælast við landvættina, til dæmis með sérstakri fórnarathöfn, hafi hann goldið fyrir það með lífi sínu þegar þrælar hans drápu hann.

"Mun svo hverjum fara, sem ekki vill blóta," á Ingólfur að hafa sagt.  

Sjálfur hafði Ingólfur nokkurs konar heimilisguði sína með sér, öndvegissúlurnar, og í ljósi þess að hann nefndi son sinn Þórstein, hafi Þór verið helguð önnur súlan en Frey líklega hin, af því að stunda átti landbúnað. 

Ingólfur varpaði súlunum fyrir borð við fjöruna í Reykjavík og lét þær reka þar á landi. 

Útilokað var að hann hefði varpað þeim fyrir borð fyrir sunnan land, því hafstraumar ráða því, að þaðan getur ekkert rekið inn til Reykjavíkur, heldur berst vestur á Snæfellsnes. 

Hjá mörgum svonefndum "frumstæðum þjóðflokkum" er í gildi það viðhorf, að mennirnir eigi ekki jörðina eða landið, heldur hafi jörðina eða viðkomandi land að láni frá afkomendum sínum. 

Í ferðum sínum til Suðurskautslandsins drógu landkönnuðirnir fána landa sinna að húni, og á tunglinu settu bandarísku tunglfararnir fána lands síns upp.

Út af fyrir sig er þetta kannski alveg í lagi, nema svipað hugarfar og Donald Trump hefur lýst með því að vilja stofna bandarískan geimher sem leggi geiminn undir Bandaríkjamenn.  

Svo má hins vegar ráða af viðtölum við Neil Armstrong að hann hafi haft víðari hugsun varðandi landnám á öðrum hnöttum en flestir aðrir.  

Síðasta lagið á safndiskinum "Hjarta landsins" var samið 1996 og heitir "Við eigum land." 

Upphaf ljóðsins er svona: 

 

"Við eigum land á hjara veraldar, 

þetta undraland, sem okkur gefið var,..."

 

Í væntanlegri ljósmyndaljóðabók með ljóðunum úr safndiskinum, er hins vegar einu lagi bætt við á eftir "Við eigum land" og það valið til að vera lokalag safndisksins. 

Það er ljóð við lag, sem ekki náðist að klára fyrir útgáfu safndisksins, en átti að vera þar og ber heitið "Only one earth." 

Eins og nafnið bendir til er ljóðið á ensku, nánar til tekið ensk þýðing á ljóðinu "Aðeins ein jörð", sem er lokalagið á 1. diskinum af fjórum. 

Í öðru ljóði á ensku á 1. diskinum, "Let it be done!" er setningin "We are the rangers, pledged to save the nature of the earth." 

Sem sagt, við erum vörslumenn en ekki eigendur jarðarinnar. 

Viðbótarljóðið "Only one earth" er sett aftan við "Við eigum land" til þess að varpa ljósi á breytt viðhorf síðan 1996 og einnig það, að þrátt fyrir nauðsyn þess fyrir fjölmenningu mannkynsins að viðhalda þjóðtungum, mun eitt alþjóðlegt tungumál, enska eða annað, verða nauðsynlegt í alþjóðaviðskiptum. 

Þjóðrækniskennd í ljóðum og texta á borð við þann, sem birtist í ættjarðarljóðinu "Við eigum land" er hins vegar eftirsóknarverð fyrir smáþjóð, sem vill varðveita dýrmætan menningararf og þjóðtungu sem hluta af menningararfi og þúsundum tungumála mannkyns.  


mbl.is Ekki flaggað á tunglinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband