Jæja, gott að maður skrapp þarna yfir 1968.

1968 var sérstætt tilboð í gangi ef flogið var um Bandaríkin. Ef lent var og stansað í minnst sólarhring á fimm stöðum í landinu í ferðalaginu, fékkst helmings afsláttur á fargjaldi. Þetta var gert til að örva ferðamannastrauminn. 

Á ferli mínum sem skemmtikraftur hefur mér iðulega boðist að skemmta á skemmtunum Íslendingafélaga víða um lönd, og 1968 bauðst mér að skemmta í Los Angeles og myndi Íslendingafélagið greiða ferðakostnað til og frá Íslandi og nokkurra daga gistingu. 

Ég ákvað að nýta þetta tilboð og líka ameríska tilboðið með því að Helga kæmi með mér, við lentum á alls fimm stöðum í ferðalaginu og samtals ferðakostnaður því ekki mikið meiri en flug beint fram og til baka fyrir mig einan. 

Staðirnir voru New York - Washington - El Paso - Las Vegas og San Fransisco. 

El Paso varð fyrir valinu, vegna þess að sú borg liggur samhliða Mexíkósku borginni Ciudad Juarez, og því auðvelt að gista þar í tvær nætur, fara yfir landamærin í borginni fyrri daginn og til að skoða Carlsbad-hellana í New Mexíkó daginn eftir. 

Það var ákveðin upplifun fólgin í því að fara um svæði, sem var ein borg í raun, en samt með gerólíku umhverfi, kjörum og menningu sitt hvorum megin við ákveðna línu. 

Þótt þetta væri róstusamasta sumar sögunnar í bandarískum borgum, og eldar væru kveikir sums staðar á götum og nýbúið að drepa Robert Kennedy, ríkti friðsæld og óþvingað andrúmsloft í El Paso / Ciudad Juarez. 

Því hryggir það mig að Donald Trump ætli að byrja á þúsunda kílómetra múraframkvæmdum sínum einmitt á þessum stað, sem var tákn um friðsamlega sambúð Bandaríkjamanna og Mexíkóa 1968 og reisa þarna jafnvel svakalegri múr en reistur var í Berlín 1961 og Bandaríkjamenn fordæmdu manna mest. 

Við hann stóð Ronald Reagan í Berlínarheimsókn og sagði í ræðu sinni við múrinn: "Herra Gorbatsjof, rífðu þennan múr!" 

Nú er öldin önnur. Við eigum Bandaríkjaforseta sem stendur við mörk síns lands inni í miðri borg og segir í raun: "Hér reisi ég hundrað sinnum stærri múr en Reagan bað Gorbatsjof um að rífa niður!"

Ég er feginn að ég skyldi fá að fara þarna yfir á frjálslegan og eðlilegan hátt á sínum tíma og safna í ljúfan minningasjóð. 


mbl.is Múr Trump byrjaður að rísa í Texas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðræðið í sinni tærustu mynd.

Ekki þarf annað en að líta á ljósmynd, sem fylgir tengdri frétt á mbl.is til að sjá, hvílíkt ofhlæði af smekkleysi á sér stað við Hafnartorg í Reykjavík. 

Þótt maður legðist undir manns hönd til að afstýra þessu ofhlæði, sem gerbreytir og skekkir alla mynd gamla miðbæjarins, þótt ekki væri nema með því að hafa húsið tveimur hæðum lægra, kom það fyrir ekki. 

Vafasamt er að hin ágæta hugsjón um þéttingu byggðar og lausn á ömurlegum húsnæðisvanda í miðju góðærinu kristallist í fjölbýlishúsi, þar sem meðalverð íbúða getur verið hið hæsta sem um getur í fjölbýli hér á landi.  

Gaman væri að fá í athugasemdum við þennan pistil álit fólks á þessu tákni auðræðisins, sem veður yfir allt og alla og er að fá á sig endanlega (ó)mynd. 


mbl.is Meðalverðið 110 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórum sinnum um Reykjanesröst var fjórum sinnum of oft.

Ekki þarf annað en að líta á kort til að sjá hagræðið af því að efla siglingar til landsins án þess að siglt sé fyrir Reykjanes og Garðskaga til Faxaflóahafna. 

Þegar búið verður að rafvæða flutningabíla verður hagræðið á marga vegu, ekki aðeins styttri siglingatími og kostnaður við sjóflutningana heldur líka miklu minna kolefnisfótspor. 

Þá er ótalið eitt: Að losna við að sigla fyrir Reykjanes. 

Fjórum sinnum á ævinni hef ég farið þá sjóleið og orðið dauðsjóveikur í öll skiptin, enda skítaveður í hvert einasta sinn.  

Fyrst með Dronning Alexandrine 1955, fram og til baka, síðan með skemmtiferðaskipinu Regínu Maris 1967. 

Í þessum sjóferðum var eindæma veðurblíða strax og komið var að Færeyjum í júlí og farið frá Færeyjum á leið heim 1955 og eftir að farin hafði verið hálf leið til Dublin 1967 og síðasta daginn heim frá Rotterdam.

Í ferð Reginu Maris hélst veðurblíðan í 15 daga af 17. 


mbl.is Vilja efla Þorlákshöfn enn frekar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband