140 km á dag á rafhjóli mögulegir; fer eftir forsendum.

Út af fyrir sig er það raunhæft takmark hjá Sushil Reddy að fara hringinn á Íslandi á tíu dögum á rafhjóli með kerru og sólarsellu í eftirdragi. Það fer þó eftir forsendum hvað snertir það, hvort hann megi hlaða rafhjólið með íslensku rafmagni eða hvort hann verði að nota eingöngu orkuna frá sólarselluvagninum, sem hann dregur á hjólinu. 

Einnig hvort hann megi nota fótaafl samhliða rafaflinu. 

Ef hann má nota þetta þrennt, sem ég tel eðlilegt, sem sé, að hjóla alla leiðina miðað við venjulegar aðstæður. Sörli,Bakkasel

Þegar farið var á rafhjólinu Sörla 420 kílómetra leið fyrir Hvalfjörð frá Akureyri til Reykjavíkur 18.-19.ágúst 2016, var krafan sú að eingöngu væri notað rafafl. 

Sett voru tvö met: 189 km á einni hleðslu frá Hótel Akureyri til Stóru-Giljár,, og 207 km á einum sólarhring frá Hótel Akureyri til Tjarnarkots á Hrútafjarðarhálsi. 

420 kílómetrarnir voru farnir á alls 42 klukkustundum að hvíldum og hleðslutímum meðtöldum.

Hlaðið var á fimm stöðum á leiðinni úr venjulegu 10 ampera heimilisrafkerfi, misjafnlega langan hleðslutíma. Lengst á Stóru-Giljá, fimm klst, en styttra í Staðarskála, Olís í Borgarnesi, Bjarteyjarsandi og Olís í Mosfellsbæ. 

Ef Reddy fer Fjarðaleiðina fyrir austan, verður vegalengd hans 1380 kílómetrar, sem myndi þýða, að hann færi tæplega 140 km á dag ef ferðin tekur tíu daga. 

Tvísýnt getur talist að hann geti farið þetta svona hratt á sólarorkunni einni, sólarhæðin og sólartíminn eru líklega of lítil til þess. 

Miklu hefði munað að fara í byrjun júlí. 

Ef hann bætir fótaaflinu við, á hann meiri möguleika, og enn meiri möguleika, ef hann má hlaða rafhlöður hjólsins á einstaka stöðum. 

Erfiðasti áfanginn verður milli Mývatns og Skjöldólfsstaða, jafnvel þótt hann hlaði í Möðrudal. 

Ef Reddy fer sólarsinnis, verður engin brekka honum verulega erfið, en ef hann fer andsælis, verða tvær langar og brattar brekkur erfiðar, Skjöldólfsstaðabrekkan á Jökuldal og Bakkaselsbrekkan upp á Öxnadalsheiði. 

Á móti kemur að heildarorkan nýtist betur við það að fara upp þessar brekkur heldur en niður. Því veldur sú auka loftmótstaða sem brun niður þær hefur í för með sér. 

 

 

 


mbl.is Hrein orka nauðsynleg fyrir alla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju bílarnir? Af því að það er fljótlegast og virkar best.

Lítum á algeng andmæli gegn því að taka upp innlenda orkugjafa til landssamgangna: 

1. Það væri nær að taka til hendi í fluginu. Tazzari og Nissan Leaf

   Svar: Bílarnir í heiminum eru að nálgast 900 milljónir. Flugvélarnar eru þúsund sinnum  færri og því miður ekki hægt að rafvæða þær, sem aftur á móti er vel hægt varðandi           bílana. 

2. Brýnast er að auka álvinnslu hér á landi, því að álver á Íslandi koma í staðinn fyrir kolaver í Kína.

   Svar: Ef fórna á einstæðum náttúruverðmætum á Íslandi á óafturkræfan hátt fyrst fyrir         virkjanir, hjálpa Bandaríkjamönnum við að vernda Yellowstone og virkja síðar í öðrum         löndum, er verið að byrja á öfugum enda, með því að fórna fyrst mestu            náttúruverðmætunum, sem eru hér á landi. Óvirkjað vatnsafl og gufuafl er víða um heim þar sem slíkar fórnir þarf ekki að færa. Kínverjar eru með sjálfstæða orkustefnu og fjöldi orkuvera á Íslandi hefur ekki áhrif á stefnumótun þeirra. Náttfari, Léttir og RAF          

3. Almenningur hefur ekki efni á að kaupa dýra rafbíla. 

   Svar: Þetta hefur afsannast í tilraunum mínum undanfarin þrjú ár, eins og ég hef greint     frá hér á síðunni. 

4. Það verður að nota eldsneytisbíla eingöngu á ferðum út á landi. 

   Svar: Þetta hefur líka afsannast í tilraunum mínum undanfarin þrjú ár. Auk þess ætti að     vera hægt að taka upp kerfi, sem miðar opinber útgjöld til farartækja við ekna kílómetra     til þess að auðvelda fólki að eiga aukalega bíl í þau fáu þjóðvegaferðalög sem þorri         fólks fer. Þar að auki fer drægni rafbíla hratt vaxandi og kerfið í kringum þá batnandi. 

5. Í stað óðagots í rafbílamálum er hægt að ná miklu meiri árangri í skógrækt, landgræðslu     og þurrkun votlendis. 

   Svar: Eitt á ekki að útiloka annað. Árangurinn með ofangreindum aðgerðum er að vísu         mikill og ber að stefna ötullega í þær, en árangurinn kemur seint fram, einmitt þegar       þörf er á aðgerðum sem virka strax.  Tilraun mín leiddi í ljós möguleika á 85 prósent       minnkun kolefnisfótspors í persónulegum ferðum mínum STRAX NÚNA. 

6. Nútíma hagkerfi er byggt í kringum eldsneytisnotkun og hrynur, nema vexti hennar og þar     með nauðsynlegum hagvexti sé við haldið. 

   Svar: Ekkert getur komið í veg fyrir að æ dýrara og erfiðara verði að vinna olíu og þess     vegna er einmitt verra að reyna ekkert til þess að auðvelda óhjákvæmileg skipti á           orkugjöfum. 

P.S. Ég vitna í dagbækur mínar í svari við athugasemd og sýni eina dæmigerða opnu frá síðasta sumri. DSCN9904

P.S. 2. Hábeinn vænir mig um að skálda upp að hann hafi skrifað langhunda um hinn gríðaralega útblástur af akstri mínum bæði erlendis og innanlands, sem færi fram úr akstri Ásmundar Friðrikssonar og heimtar sönnun þess að hann hafi skrifað þetta. Hábeinn 17.2.18

Ég hef hvorki tíma né pláss til að fara að endurbirta þetta allt, en hér er lítið brot frá 2. febrúar 2018. 


mbl.is Víðtækar breytingar í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilsverð hönnun og menningarfyrirbæri í merku húsi í Kaupmannahöfn.

Menningarhús Grænlands, Íslands og Færeyja á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn stendur að vísu á Amager, en er samt tiltölulega stuttan spöl frá Ráðhústorginu, hinum megin við sundið sem aðskilur Amager og Sjáland. 

Löngum var Kaupmannahöfn kölluð "Borgin við sundið", enda er hafnarstæðið lífæð þessarar borgar að fornu og nýju. 

Ef ég man rétt, hét ein bók Jóns Sveinssonar þessu nafni. 

Þjóðirnar þrjár á norðvestursvæði Norðurlanda voru allar hluti af danska konungsríkinu, en einmitt á þessu ári eru öld síðan Íslendingar fengu það staðfest í Sambandalagasamningi Íslands og Danmerkur, að þeir gætu og mættu slíta konungssambandinu 25 árum síðar. 

Lopapeysan er stórmerkileg flík, bæði sem hönnun og líka sem menningarfyrirbæri. 

Um síðustu aldamót var farið um hana niðrandi orðum af þeim, sem töldu að "eitthvað annað" en stóriðja kæmi ekki til greina til þess "að bjarga Íslandi." 

Var peysan nefnd ásamt fjallagrösum sem dæmi um fánýti hugmynda um að ferðaþjónusta og skapandi greinar væru nokkurs virði. 

Síðustu sjö ár hafa afsannað það rækilega og við, ásamt Grænlendingum og Færeyingum, getum verið stolt af menningararfleifð þessara þriggja þjóða sem eru útverðir evrópskrar menningar í norðvestri. 


mbl.is Sérstök áhersla á lopapeysuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul álitaefni og ný.

Umræða og deilur um þjóðerni, uppruna og skilgreiningar á fólki er bæði gömul og ný.

Um árabil hundelti Donald Trump Barack Obama og sakaði hann um að vera forseti Bandaríkjanna á ólöglegan hátt, af því að hann væri ekki fæddur í Bandaríkjunum, eins og krafist væri í lögum. 

Engu skipti, þótt Obama legði fram vottorð um að vera fæddur á Hawai; - umræðan, sem Trump hratt af stað, beindist að því að varpa ljósi á að Obama væri í raun svartur Keníabúi en ekki sannur Bandaríkjamaður. 

Alhæfingar þess efnis, að fæðingarstaður skipti sköpum um þjóðerni manna, eru raunar vægast sagt vafasamar. 

Arnold Schwarzenegger gat þannig orðið ríkisstjórni í Kaliforníu, ríki með miklu stærra hagkerfi en Rússland, þótt hann væri fæddur í Evrópu. 

Í nýlegri úttekt Fréttablaðsins á svonefndum "náttúruhryðjuverkum" í sumar, var það athæfi, að rúmlega 10 þúsund manns, gengu friðsamlega með leyfi lögreglu og yfirvalda niður Laugaveg 26. september 2006, skilgreint sem "náttúruhryðjuverk." 

Meðal þessa "hryðjuverkafólks" voru nokkrir alþingismenn og fyrrverandi forseti Íslands, en í erlendu orðunum "terrorism" og "terrorists" felst, að terroristar eða hryðjuverkafólk að beita manndrápum og ofbeldisverkum til þess að valda skelfingu (terror) og ótta meðal almennings. 

Í símtali var vaktstjóra bent á þetta, en engin viðbrögð urðu við því. 

Svona skilgreiningar taka stundum á sig kynjamyndir eins og það að alþingismenn verði að vera með lögheimili í kjördæmum sínum til þess að njóta ýmissa fríðinda, sem veitt eru vegna starfa þeirra í héraði. 

 


mbl.is Spilað upp í hendur Svíþjóðardemókrata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. september 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband