Vald, sem "sterkir leiðtogar" elska.

Í stjórnarskrám margra landa finnast ákvæði um völd, sem eru umdeild eða á gráu svæði. 

Í íslensku stjórnarskránni eru ákvæði um að forseti Íslands skipi ráðherra og skipti með þeim verkum og veit þeim lausn. 

En síðan er spurningin hvort grein, sem kveður á um að forseti feli ráðherrum að fara með vald sitt, eigi við um fyrrnefnt ákvæði. 

Ef hann hefur veitt ríkisstjórn lausn, hvaða ráðherra á hann þá að fela það vald sitt að skipa nýja ríkisstjórn?

Sést hefur sú skoðun, að forseti geti réttlætt eins konar valdarán hér á landi með því að ástandið í stjórn landsins sé þannig, til dæmis í stjórnarkreppu eftir að ríkisstjórn hefur sagt af sér og forseti veitt henni lausn, að hann neyðist til að beita þessu valdi sínu til að skipa ráðherra. 

Vald forseta til tilskipana er í ýmsum stjórnarskrám eins og Rússlands, og ekki leiðist "sterkum leiðtoga" eins og Pútín að beita því. 

En víða eru heimildir af þessu tagi á gráu svæði. 

Spurningin nú er hve langt Donald Trump geti talið sig geta gengið með því að lýsa yfir neyðarástandi í jafn óvenjulegum, umdeildum og afmörkuðum aðstæðum og eru við landamærin við Mexíkó. 

Hvort hann hafi jafnvel vald sem æðsti maður Bandaríkjahers til að skipa hernum að grípa til aðgerða. 

Í tilfellum eins og þeim, þegar í ljósi atburða á Tonkinflóa í byrjun Víetnamstríðsins var gripið til hernaðaraðgerða, leitaði Johnson forseti eftir samþykki þingsins og fékk það á ansi vafasaman hátt. 

Þegar óeirðir geysuðu í bandarískum borgum á tímum kynþáttadeilna og deilna um Víetnamstríðið íhugaði Nixon forseti að lýsa yfir neyðarástandi til þess að beita hervaldi en gekk ekki svo langt. 

Hversu langt mun Trump ganga nú? 

Beiting yfirlýsingar um neyðarástand við landamærin að Mexíkó yrði talsvert annars eðlis en þegar slíkt er gert vegna mannskæðra náttúruhamfara og þá oft að beiðni viðkomandii ríkisstjóra . 


mbl.is Trump ætlar að lýsa yfir neyðarástandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi rígur: Vetnisbílar - rafbílar.

Allt frá síðustu aldamótum hefur verið í gangi viss rígur á milli þeirra, sem deila um bestu leiðin til að leysa vandann vegna útskipta á orkugjöfum og minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda. 

Þótt Toyota tæki ákveðna forystu í smíði tvinnbíla (hybrid) með Priusi, var ákveðið að setja stefnuna frekar á nota vetni sem orkubera heldur en lithium. 

Nú er Hyundai komið líka á vagninn, en nánast allir aðrir hafa stokkið á lithium og hina öru þróun og framfarir í gerð rafbíla með lithium rafhlöður. 

Stærsti ókostur lithium er það hve þungar rafhlöðurnar eru, 8 til 10 sinnum þyngri en bensín eða olía sem geyma sambærilega orku og drægni. 

Í þessu efni stendur vetnið mun framar og munar þar mestu um hina miklu drægni. 

En stórsóknin hjá hinum mikla fjölda annarra framleiðenda hefur leitt til þess að þeir hafa orðið á undan við að setja upp hleðslustöðvar. 

Þær vantar sárlega fyrir vetnisbílana frá Toyota og Hyundai og gerir þessi fæð það að verkum að einn af helstu kostum vetnisbílanna nýtist ekki; að hleðsla hvers bíls tekur miklu skemmri tíma. 

Einnig eru vetnisbílarnir ennþá of dýrir.

Kostir vetnisisns nýtast hins vegar vel fyrir almenningssamgöngur þar sem strætisvagnar fara ákveðnar leiðir daglega í leiðakerfum með hleðslustöðvum fyrir þá. 

Það sést á framboði Toyota á rafbílum, að fyrirtækið hefur sett fjárfestinguna frekar í vetnið en lithiumrafhlöðurnar. 

Úrval hybrid bíla er að vísu mikið, en raunveruleg orkuskipti eiga sér ekki stað vegna þess að öll orkan, sem sett er á bílana, er í formi bensíns eða dísilolíu. Og auglýsingar á hybrid bílunum eru afvegaleiðandi, vegna þess að þar er fullyrt um 50-50 skiptingu á aksturstíma milli rafvélar bílsins og bensínvélar, en slík skipting skiptir eigandann engu máli hvað snertir orkueyðsluna, heldur skiptir það máli, hve miklu eldsneyti bílarnir eyða miðað við vegalengd. 

Þegar þær tölur eru skoðaðar, er uppgefin eyðsla aðeins 20-25 prósent minni en á bíl með bensínvélina eina, sem er álíka eyðsla og á sambærilegum dísilbíl án hybrid tilhögunar. 

Eini hybrid bíllinn, sem er hægt að hlaða rafmagni utan frá, er Prius hybrid plug-in, og hefur sá bíll selst vel. 

Framundan eru spennandi tímar í togstreitu aðdáenda bíla, sem nota vetni sem orkubera og bíla, sem nota lithium sem orkubera.  

 


mbl.is Strætó býður út kaup vetnisvagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forréttindahugarfar aðals fyrri alda er lífseigt.

Í auðræðishagkerfi heimsins virðist visst forréttindahugarfar aðals fyrri alda lifa góðu lífi. Ótrúlega fáir einstaklingar eiga meirihluta allra eigna jarðarbúa og ráðskast með hagkerfi einstakra ríkja og alþjóðasamfélagsins að vild. 

Í efnahagskreppunni 2008 kom í ljós, að þessi elíta taldi sig ómissandi varðandi völd og eignarhald auðlinda vegna þess hve frábærum hæfileikum hún væri gædd. 

Af því leiddi sérstakt hagkerfi og margumrætt "starfsumhverfi" sem nefnt hefur verið svo oft í umræðum um laun íslensku bankastjóranna. 

Mikið var og er rætt um einstaklega þunga og mikla ábyrgð sem þessi valdastétt beri, en þegar syrti að í kreppunni, hagur fyrirtækjanna versnaði stórum og þau fóru jafnvel í gjaldþrot, urðu þau vandræði þvert á móti til þess að þetta sama afburðafólk taldi sig einmitt þurfa hærri laun vegna þess að það eitt hefði getu og hæfileika til að fást við afleiðingarnar af eigin stefnu og gjörðum. 

Þetta nær svo langt, að jafnvel þótt bankar eða önnur fyrirtæki séu ríkiseign, kemur hvað eftir annað í ljós að stjórnendur þeirra, svo sem bankaráðin, hafa fyrirmæli raunverulegra eigenda að engu, eins og hálfkjökrandi ráðherra efnahagsmála ber vitni um opinberlega. 


mbl.is Átti að fá hækkunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarfur alþjóðlegur dagur sem byggist á margra alda hefð.

Þegar Valdís Gunnarsdóttir heitin stóð fyrir því á Bylgjunni að kynna Valentínusardaginn á níunda áratugnum, voru sumir andvígir því að vera að "elta Kanann", þ. e. að nota bandaríska fyrirmynd í þessu efni. 

En þessi dagur er algerlega ólíkur þeim Kanaeltinarleik sem felst í Black friday og Cyber monday og byggist á séramerískum Thanksgiving day. 

Dagurinnn, kenndur við heilagan Valentínus ruddi sér til rúms í nokkrum löndum Evrópu á 14. öld og hefur að vissu leyti líka forsögu og aðrir hátíðisdagar svo sem jól, dagana á föstunni, páska, hvítasunnu og 1. maí. 

Síðuhafi hélt upp á 14. febrúar strax árið 1962, því að á þessum degi hitti hann tilvonandi lífsförunaut sinn í fyrsta sinn árið 1961. 

Hvorugt hafði hugmynd um að þetta væri Valentínusardagurinn fyrr en Valdís fór að kynna hann um 25 árum síðar! 

Samt hafði verið sungið um hann í vinsælum dægurlögum á sjötta áratugnum, svo sem í Calendar girl og My funny Valentine. 

Um það leyti sem gullbrúðkaupið varð að veruleika varð til lagið Dagur elskendanna, sem verður sett á facebook síðu mína í tilefni dagsins. 

Svona hljóðar textinn, sem þau Edgar Smári Atlason og Soffía Karlsdóttir syngja við undirleik Vilhjálms Guðjónssonar og Þóris Úlfarssonar. Lag, texti og flaut er úr heimasmiðju. 

 

DAGUR ELSKENDANNA. 

 

Þetta´er dagurinn okkar, sem eigum við nú, 

þegar örlögin réðust og ást, von og trú 

urðu vegvísar okkar á ævinnar braut 

gegnum unað og mótbyr, í gleði og þraut. 

 

Þú varst hamingjusólin og heilladís mín

og ég hefði´ekki orðið að neinu án þín. 

Ég í fögnuði þakka þegar faðmarðu mig

að hafa fengið að lifa og elska þig. 

 

Og til síðasta dags, ár og síð, hverja stund, 

þá mun lifa björt minning um elskenda fund. 

Ég við ferðalok þakka, - straumur fer þá um mig, 

að hafa fengið að lifa og elska þig. 


mbl.is Vinsældir Valentínusardagsins að aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband