Notkun stefnuljósa stórlega ábótavant. Furðulegt.

Sérkennilegt er það hátterni íslenskra bílstjóra að gefa ekki stefnuljós eða að gera það rangt í stórum stíl eins og kom fram í nýlegri könnun. 

Þetta hlýtur að liggja að einhverju leyti í þjóðarsálinni og hefur kannski verið lýst best í ljóðlínunum  

"Á Íslandi við getum verið kóngar, allir hreint 

og látum engan yfir okkur ráða..."

Það er eins og þessi ótrúlega stóri hluti ökumanna telji það árás á persónufrelsi að láta aðra vita hvert sé ætlunin að aka. 

Og ef það er gert, er það með semingi og tregðu, sem veldur því að stefnuljósið birtist alltof seint til þess að það gagnist öðrum ökumönnum. 

Hluti orsakarinnar getur verið að ökumenn séu í stórum stíl uppteknir í farsímum sínum og hafi af þeim sökum ekki tæknilega möguleika á að gefa stefnuljós. 

Eða að kæruleysið, sofandahátturinn og tillitsleysið séu í svo miklum mæli að leitun sé að öðru eins í nágrannalöndum okkar. 

Fyrir heildina skapar þetta ekki aðeins óþarfa hættu og öryggisleysi í umferðinni, heldur bitnar þetta bitnar á öllum, líka þeim sem finnst einhver ávinningur fólginn í því að vanrækja jafn bráðnauðsynlegs og einfalds atriðis og það er, að auðvelda og greiða fyrir umferð með því að gefa stefnuljós.  


mbl.is Brot 430 ökumanna mynduð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það einfaldasta er oft best.

Sterkustu minningarnar um tónlistarflutning snúast oft um svo einfalda tjáningu, að undrum sætir. Dæmi frá langri ævi:  Nina Simone að syngja ein við eigin píanóleik "I love you Porgie."

Chet Baker, - eða Páll Óskar, að túlka lagið "My funny Valentine." 

Kornung skólastúlka, Sara Pétursdóttir, að syngja til sigurs í keppni framhaldsskólanna "To make you feel my love", grafkyrr horfandi beint framan í myndavélina,  Brenda Lee að syngja "I´m sorry", Frank Sinatra og Nancy Sinatra, "Strangers in the night", "Nat King Cole og Natalie Cole, "Unforgettable", Elly Vilhjálms, orðalaust, "Sveitin milli sanda." 

Dæmin eru miklu fleiri en öll snerta einfalda og beintengda túlkun á góðum lögum og ljóðum. 

Tónlistin er hugsanlega magnaðasta listformið. Hjá fólki með elliglöp lifir hún afar oft lengst í minni. 

"Ars longa, vita brevis" sögðu Rómverjar, "listin er langlif, lífið er stutt." 

Og einmitt núna spretta fram hendingar í hugsanlegu millispili í textanum "Góðar og glaðar stundir." 

"Listin er löng - 

lífið er stutt. 

Seiðandi söng 

sæl getum flutt 

frá unaðsstundum okkar,

sem áttum forðum tíð."


mbl.is Eftirminnilegasta atriðið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löng sería sem segir heilmikla þróunarsögu.

Í vetur hafa James Bond myndir verið sýndar á rás Simans, og síðuhafi hefur haft gaman af því að horfa á þær flestar hverjar með konu sinni, bæði til að hverfa til fortíðarinnar sem birtist fyrstu árin í Tónabíói sáluga á þeim myndum og myndunum um Bleika pardusinn og í forvitni skyni, til að sjá hve vel þær hafa elst. 

Þróun kvikmyndagerðar síðustu hálfa öld hefur sést vel í þessum myndum. 

Sumt hefur staðist tímans tönn nokkuð vel, en annað síður. 

Þannig hefur síðuhafi alltaf haldið upp á Sean Connery meira en aðra, og frekar en Roger Moore, þótt Moore skilaði kannski kaldhæðnum húmornum ágætlega. 

Connery var hins vegar betri blanda en Moore af gróflegri karlmennsku í bland við útgeislun, sjarma og humor, auk þess sem Moore skorti á nægilega "muscular" líkamsbyggingu. 

Brellurnar í sumum myndunum hafa enst illa í samanburði við nútíma tækni. 

En eftir því sem þær urðu æ stórbrotnari fóru þær sumar hverjar að verða of ótrúlegar og villtar, svo sem í sumum atriðunum í myndatökunum við Jökulsárlón. 

Hraðamunurinn í gegnum seríuna er sláandi mikill, og í sumum nýrri myndanna er hraðinn orðinn of mikill og öfgarnar of ótrúlegar. 

Það fæst ekki allt með atburðarás á æsihraða, sem er oft yfirkeyrð í látum, sem ganga jafnvell fram af manni.

Vel skrifað handririt með gömlu góðu undirliggjandi spennunni klikkar ekki.

Gott dæmi um það var óralöng og hæg atburðarás í í lestarferð í lok myndarinnar From Russia with love sem myndi sennilega seint verða fyrir valinu í nútíma Bond-mynd. 

En þessi lestarsena bauð að mörgu leyti upp á meiri spennu og óvissu en fá má út úr mörgum æsihröðum senum nútíma Bond. 

Þetta var að vísu mögulegt vegna þeirra möguleika sem það gefur, að aðilar njósnanna eru þrír en ekki einn, en það gefur að sjálfsögðu kvaðratíska möguleika varðandi æsilegar flækjur og óvissu. 

Sem sýnir, að handrit kvikmynda vega oft þyngra en efnislegur búnaður. 

Mörg lögin í myndunum eru þegar orðin klassísk, svo sem Godfinger, From Russia with love, Live and let die verðlaunalag Paul McCartney og A Wiew to a kill", - og hljómagangurinn í meginstefinu er ómissandi er negla. 

Langlífi Bondmyndanna er orðinn það mikið, að það sjálft er að verða vandamál út af fyrir sig og spurning hve lengi þessar myndir geta enst og verið samkeppnishæfar. 


mbl.is Vinnuheiti komið á nýju Bond-myndina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband