"Skyldudjammið" er dýrkeypt. Ca 100 dagar á ári plús bein útgjöld.

Á bak við vikulegt helgarfyllerí er íslensk hefð, sem sennilega er minnst aldargömul. 

Annað orð yfir fyrirbærið er "skyldudjamm" sem er afar lýsandi orð, því að það túlkar ákveðna félagslega pressu á stóran hluta þjóðarinnar um að "fara út á lífið", sletta úr klaufunum og "detta í það" helst um hverja helgi. 

Eitt af brýnustu viðfangsefnum þeirra, sem reyna að komast út úr ákveðnum vítahring, sem þessu fylgir, er að kafa rækilega ofan í það, hve mikils áfengis eða fíkniefna þeir hafi neytt að jafnaði. 

Tekur það oft talsverðan tíma að komast að réttri niðurstöðu, því að höfuðatriðið í alkóhólisma eða fíkn er lygi sem byggist á sjálfslygi. 

Einn þeirra, sem fór í meðferð og gekk í gegnum þessa rannsókn, sagði að niðurstaðan hefði verið sú, að ef hann hefði gefið svínum þetta, hefði hann verið ákærður fyrir refsiverða meðferð á dýrum. 

Ákveðin vísbending felst í því hve dýrkeypt skyldudjammið getur verið þegar allt er lagt saman, ekki aðeins beinn fjárhagslegur kostnaður, heldur líka samanlagður tími.

Tveir sólarhringar yfir hverja helgi í ölvun og timburmenn þýða, að meira en hundrað sólarhringar á ári hafa farið í þetta.


mbl.is 20% karla verða ölvaðir í hverri viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn tími til að konur láti til sín taka. Hlutföllin 21:1 á þinginu!

Það er hressandi að sjá hvernig Sara Björk Gunnarsdóttir lætur til sín taka í umræðum um forystu KSÍ og formannskosningarnar á þingi þess. 

Vandamálið varðandi þátttöku kvenna og afskipti þeirra af málefnum KSÍ er margra áratuga gamalt og það er löngu kominn tími til að þær tali og láti til sín taka svo að það verði senn liðin tíð að hlutföllin á milli kvenna og karla á þingi séu 152:7 sem er sama hlutfall og 21:1 !

Þær þurfa bæði örvun og stuðning en einnig að sækja sjálfar fram. 

Sú var tíð fyrir aldarfjórðungi að kona síðuhafa og vinkona hennar, sem tóku virkan þátt í íþróttastarfi fatlaðra, vildu vinna að málum skjólstæðinga sinna innan íþróttahreyfingarinnar en þar við ramman reip að draga. 

Það var eins og þarna væri sérstakur karlaheimur. Það er merkilegt miðað við þær framfarir sem þó hafa orðið innan íþróttahreyfingarinnar að sjá megi hlutföllin 21:1 varðandi kynjahlutföllin og það hjá sambandi þar sem slík tala ætti ekki að vera draugur aftan úr forneskju frá því að svipuð tala en þó heldur skrárri sást á Idrætsparken fyrir 52 árum.  

 


mbl.is Sara gagnrýnir Geir - hrósar Guðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. febrúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband