Þótt löngu fyrr hefði verið.

Vestfirðir hafa verið landsfjórðungur, sem hefur mátt búa við það í meira en hálfa öld að vera eini fjórðungurinn án flugvallar, sem nothæfur er allan sólarhringinn árið um kring, og með landveg á milli stærstu byggðakjarnanna, sem hefur verið kyrfilega lokaður stóran hluta vetrarins og aðeins fært um landveg með því að aka margfalt lengri vegalengd. 

Með tilkomu Dýrafjarðarganga og nútíma heilsársvegar um Dynjandisheiði er loks að koma bragarbót á þessu, sem hefði átt að vera komin fyrir löngu, því að þessi arfaslæma staða hefur að sjálfsögðu verið dragbítur á eðlilega þróun byggðar, atvinnulífs og mennngar fyrir vestan þannig að jafnvel var engu líkara en samtal um þetta væri orðið eitthvað þessu líkt: 

 

Það er fáfarið hér um slóðir, nær engin umferð á þessari leið. 

Af hverju?

Af því að það eru engin göng. 

Og af hverju eru engin göng? 

Af því að það er engin umferð.

 


mbl.is Sigurður Ingi sló í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margslungið og merkilegt viðtal.

Fyrir nokkrum árum varð til hugtakið "Skagfirska efnahagssvæðið" sem lýsing á veldi Kaupfélags Skagfirðinga og kaupfélagsstjórans. Í löngu og margslungnu viðtali við Þórólf Gíslason kemur svo margt merkilegt fram, að það tekur smá tíma að melta það allt. 

Stórmerkilegt er hvernig nýtingu framleiðslu landbúnaðarins er hagað og hver hugsunin er að baki því. 

Einhvern tíma í gamla daga hefði maður látið segja sér það tvisvar að stærsta og öflugasta samvinnufélag landsins ætti 20 prósenta hlut í Morgunblaðinu, en svona breytast nú tímarnir og mennirnir með. 

Þjóðarsjóðurinn, sem Þórólfur talar um, hefur verið byggður á svipaðri hugsun og olíusjóður Norðmanna. 

Þó er þar einn stór munur á og því er það þess virði að athuga skoðanir Þórólfs á íslenskri hliðstæðu. 

Þessi munur er sá, að olía er takmörkuð auðlind og um hana gildir að "eyðist það sem af er tekið". Þegar olían er gengin til þurrðar ætla Norðmenn að virkja sjóðinn til að minnka höggið af missinum. 

Þeir vita sem sé sjálfir hvenær þörfin verður til að nota sjóðinn, en hér á landi á það að verða háð mati ráðamanna á hverjum tíma, hvenær okkar sjóður verður notaður og hvernig. 

Þórólfur hefur eðlilega áhyggjur af lausung í þessu efni og þær áhyggjur eiga rétt á sér. 

Enn athyglisverðari eru efasemdir hans og áhyggjur vegna hugmyndanna um sæstreng og hækkandi raforkuverð hér á landi, sem af honum myndi leiða. 


mbl.is Gagnrýnir þjóðarsjóðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er rétta orðið "hörð lending" eftir geimskots uppgang?

Á undanförnum átta árum hefur erlendum ferðamönnum, sem koma til Íslands fjölgað um mörg hundruð prósent.  Þegar það er borið saman við hinar og þessar tölur sem sýna eins stafs prósentutölu í samdrætti í ferðaþjónustunni á þessu ári eru orðin "hörð lending" kannski ekki það sem á við. 

Einkum þegar þess er gætt að ekki er útlit fyrir annað en að ferðamenn í ár verði tvöfalt fleiri en þeir voru fyrir aðeins þremur árum. 

Nær væri að huga að því að skapa nauðsynlega innviði og traust, sem nauðsynlegt er til að viðhalda yfirburða stöðu og farsæls gengis þessa atvinnuvegar, sem hann nýtur þótt það sé ekki í einhverjum himinhæðum uppsveiflutalna á borð við þær, sem sáust í aðdraganda Hrunsins á sínum tíma. 


mbl.is Útlit er fyrir harða lendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. apríl 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband