Stórgott framtak en mikilvægast er að ná árangri sem fyrst.

Sókn þjóðarinnar til kolefnisjöfnunar fer aðallega fram á tvennan hátt hvað snertir almenning. 

Annars vegar felst það í að ráðast beint að útblæstrinum þar sem hann á sér stað með því að minnka fótsporið með útskiptum á farartækjum. 

Því fyrr sem þetta tekst, því betra, því að aðgerðin svínvirkar strax. En það er afar mikilvægt, því að mestu skiptir fyrir framtíðina að umskiptin verði sem allra fyrst. 

Síðan er líka að geta aðgerða eins og hjá Orkunni að stuðla að kolefnisjöfnun með endurheimt votlendis, landgræðslu og skógrækt. 

Af þessu þrennu þarf að vísu að bíða í áratugi eftir að skógurinnm, sem plantaður er, verði fullvaxinn, en engu að síður mun það gagnast þótt síðar verði. 

Kolefnisjöfnun í gegnum eldsneytisdælu getur verið tilvalin fyrir eigendur tengitvinnbíla, sem neyðast til að nota eldsneyti að hluta til í bland við raforkuna og geta því útvíkkað minnkun kolefnissporsins.  

 


mbl.is Geta kolefnisjafnað eldsneytiskaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfrar aldar trúarbrögð og töfraorð: "Orkufrekur iðnaður".

Fyrir rúmri hálfri öld voru stofnuð nokkurs konar trúarbrögð hér á landi, sem snerust í kringum nýtt töfraorð: "Orkufrekur iðnaður." 

Kenningin "orkufrekur iðnaður" fólst í því, sem kemur fram í þessum tveimur orðum, að selja eins gríðarlega mikla orku og unnt væri á nógu óskaplega lágu verði og hægt væri að bjóða til þess að stóriðjufyrirtæki heimsins fengju að bruðla með hana hér eins og þeim var framast unnt. 

1995 var meira að segja sendur út til stóriðjufyrirtækja heimsins hinn dæmalausi betlibæklingur þar sem kjörorðin voru "lægsta orkuverðið" og "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum." 

Enn í dag er þessum trúarbrögðum haldið lifandi þótt algerlega nýtt umhverfi sé komið í þessum málum þar sem orkunýtni, orkuskipti og markaðsverð eru að taka yfir og skaplegri notkun en mengandi stóriðja er að sækja á. 

En á sama tíma ráða nátttröll orkufreks iðnaðar enn miklu um hugsanagang margra, rétt eins og hér séu enn árin 1965 og 1970 þegar "hernaðurinn gegn landinu" hófst. 

Og stóriðjufyrirtækin nota gamalt trix með því að hóta að leggja verksmiðjurnar niður nema áfram gildi okruverð fátæku þróunarlandanna. 

Rio Tinto hótaði að leggja álverið í Straumsvík niður 2006-2007 nema leyft yrði að þenja verksmiðjuna út í hlaðvarpa Hafnarfjarðar og eiga þátt í að knýja fram risaálver í Helguvík. 

Síðan eru liðin 12 ár og hvorugt hefur gerst. 

 


mbl.is Fyrirtækjum „slátrað“ fyrir sæstreng?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband