Óheppinn: Varð veikur of seint á árinu. Endalausar sögur.

Sífellt heyrast nýjar og nýjar sögur af göllum heilbrigðiskerfisins, biðlistunum sem kosta óþarfa þjáningar og ótímabæra dauðdaga og mismunun af ýmsu tagi. 

Vinur síðuhafa greindist með varasamt gáttaflökt og hefði undir venjulegum kringumstæðum farið strax í viðeigandi aðgerð eða meðferð. 

En hann var svo óheppinn, að hann veiktist að hausti til þannig að þegar hann hefði verið afgreiddur í október, var fjárveitingin til aðgerðanna búin það árið, og þeim, sem þurftu á meðferð að halda, var gert að bíða fram yfir áramót.

Sjúkdómur vinar míns fór hins vegar ekki eftir fjárveitingartímabilum, heldur fékk hann alvarlegt heilablóðfall utan fjárveitingartímans og mátti þakka fyrir að halda lífi. 

Þó ekki betur en svo að hann var milli heims og helju vikum saman og þurfti að fara í langa endurhæfingu á Grensásdeild. 

Þjáningarnar og erfiðleikarnir verða ekki metnar til fjár, en sparnaðurinn við að loka fjárveitingunum í október var ekki aðeins eyðilagður fyrir ríkiskassann, heldur varð beinn sjúkrakostnaður í þessu tilfelli að lokum margfalt meiri en nam hinum eftirsótta og algilda sparnaði. 

Mörgum hnykkti við að lesa harðorð blaðaskrif Kára Stefánssonar þennan vetur, þar sem hann minntist á gáttaflökt. Eins og svo oft vissi hann vel hvað hann var að skrifa um.  

Sögurnar skipta þúsundum og flestir hafa sögur að segja úr sínum næsta ranni.  

Ég átti einmitt spjall við ættingja í dag sem bíður á einum biðlistanum eftir aðgerð erlendis, sem er óhjákvæmileg og brýn, svo að helst má engan tíma missa, en með hverjum deginum og vikunni vex óvissan vegna þess að heilsunni hrakar í bið, sem ætti ekki að þurfa að eiga sér stað. 

Þjáningarnar fara vaxandi og tíminn týnist ekki eins og sungið er í texta Bjartmans, heldur ber þjáningatíminn óþyrmilega og miskunnarlaust að dyrum á hverjum degi, lengist og lengist og versnar og versnar.  

 

 

 

 


mbl.is Ríkisvæðingarstefna dauðans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tonkin flói 1964, Írak 2003, - hvað nú?

Tonkin-flóa málið markaði tímamót í Víetnamstríðinu sumarið 1964. Tvö atvik, kennd við Tonkin-flóa, þar sem Norður-Víetamar voru ásakaðir um að hafa ráðist á bandaríkst herskip, voru notuð sem réttlæting og heimild Bandaríkjaþings til handa Lyndon B. Johnsons Bandaríkjaforseta til þess að beita bandaríska hernum beint gegn Norður-Víetnömum. 

Meintar árásir Norður-Víetnama áttu að hafa verið gerðar 2. ágúst og 4. ágúst. 

Þetta skóp jarðveginn fyrir sívaxandi átök sem nokkrum árum síðar leiddu til þess að meira en hálf milljón bandarískra hermanna var á vígstöðvunum í Víetnam og varpað var meira af sprengjumm á Norður-Víetnam en í allri Evrópu í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Johnson forseti hrökklaðist frá völdum. 

Fjórum áratugum síðar kom loks í ljós, að bandaríska herskipið hafði hafið skothríð 2. ágúst og að 4. ágúst höfðu Norður-Víetnamar ekki gert neina árás.

2003 fékk George Bush Bandaríkjaforseti í hendur "óyggjandi" sannanir leynuþjónustunnar fyrir því að Írakar hefðu komið sér upp gereyðingarvopnum. 

Í krafti þess réðust Bandaríkjamenn og Bretar inn í Írak, studdir af opinberum stuðningsyfirlýsingum ýmissa vestrænna þjóða, þeirra á meðal Dana og Íslendinga. 

Í ljós kom, að engin gereyðingarvopn voru í Írak. 

Ofannefnd atvik segja að vísu út af fyrir sig ekkert til um það hvers eðlis Ómanflóaatvikið er núna, en benda þó til þess að ævinlega sé hætta á að það sannist hið fornkveðna, að það sem fyrst deyr í stríði sé sannleikurinn.  

 


mbl.is Titringur vegna ótta um átök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulagslaus ringulreið og æðibunugangur.

Á örfáum misserum hefur umhverfi virkjunar- og umhverfismála orðið að hálfgerðu skrímsli hér á landi. 

Allt í einu spretta upp tugir, jafnvel hundruð virkjanaáforma um allt land, þar sem sægur verktaka og fjárfesta hyggjast láta til sín taka á sviði vindorkugarða og vatnsaflsvirkjana, auk þess sem hörð barátta er háð fyrir vaxandi rányrkju á þverrandi jarðvarmaorku á Reykjanesskaga. 

Ekkert landsskipulag er til með heildaryfirsýn yfir heppileg vindorkuvirkjanasvæði, heldur er komið í gang skefjalaust kapphlaup nýrra fjárfesta og virkjanafíkla víðsvegar, þar sem grunnurinn er kaup á verðlitlum bújörðum eða eyðijörðum hvar sem því verður við komið. 

Ótrúlegar tölur koma upp:  100 nýjar smávirkjanir á Tröllaskaga einum.

Hundrað nýjar tíu megavatta virkjanir um allt land, sem gætu gefið samtals afl á við heila Kárahnjúkavirkjun.  

Túrbínutrix í formi leyfisveitinga til þriggja "tilraunavindmylla" sem eru hærri en tvær Hallgrímskirkjur hver og verða auðvitað þær fyrstu af 70 við Búðardal. 

Sú stórvirkjun, 130 megavött í byrjun, styðst eingöngu við kaup á ódýrri eyðijörð, sem er dæmi um nýjan landeigendaaðal, sem er að skjóta rótum hér á landi og kaupir sums staðar upp heilu dalina, jafnvel á svæðum, þar sem virkjanakostir hafa farið í verndarflokk. 


mbl.is Mikilvægt að leyfisveitingar til virkjunar og raflína fari samhliða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband