Gaman yrði að sjá Porsche Taycan á frægustu klifurbraut heims.

Fyrst það er fréttnæmt hvernig hinn nýi rafbíll Porsche Taycan spjarar sig á hinni frægu Goodwood hæð, yrði spennandi að sjá hann á fullri ferð æða upp frægustu klifurbraut heims, sem liggur upp á hið 4302ja metra háa fjall Pikes Peak í Kolorado í Bandaríkjunum.  

Sú braut er 20 kílómetra löng með 1440 metra klifri í 156 beygjum. 

Á ferð í Bandaríkjunum 2002 gafst færi á að aka upp þessa braut á venjulegum bensínknúnum bíl, en vegna þess að stór hluti leiðarinnar var enn malarvegur þá,var hægt að prófa nokkra rallaksturstakta á leiðinni. 

Í mörg ár hefur rafbílum vegnað sérstaklega vel í árlegri klifurkeppni vegna yfirburða rafhreyflilsins yfir bensínhreyfilinn hvað snertir einfaldleika og jafnt tog upp allan snúningshraðaskalann. 

Af því að rafhreyfill þarf ekki að nota súrefni hefur hæðin ekki sömu áhrif á hann og eldsneytisknúnir hreyflar, og einfaldleikinn gerir það að verkum að bílarnir geta verið "tveggja hreyfla" með drifi á öllum hjólum, elskar rafhreyfillinn keppni eins og upp Pikes peak.

Hafa rafbílar raðað sér í efstu sætin í klifurkeppninni frægu og sett mörg met. 

 


mbl.is Porsche Taycan á „hátíð hraðans“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúruverðmætin eru mest á landsbyggðinni.

Þegar litið er í sjónhendingu yfir landið til að átta sig á því hvar mestu náttúruverðmætin liggja, blasir við að þau eru að mestu leyti á því svæði sem telst heyra undir landsbyggðina. 

Ef þetta eitt réði því hvar mest umsvif og tekjur eru í ferðaþjónustu, ætti því landsbyggðin að hafa mjög sterka stöðu og jafnvel sterkari stöðu en höfuðborgarsvæðið. 

En svo virðist ekki vera. 

Hluti af skýringunni kann að vera sá, að langflest erlenda ferðafólkið kemur til landsins yst á suðvesturhorni landsins og því falla umsvif og tekjur af ferðaþjónustunni í miklum mæli þangað, áður en ferðalög um landið hefjast. 

Síðan nýtur suðvesturhornið þess líka að vera í sterkri stöðu í afli fjölmennis og hagstæðrar staðsetningar fyrir stór og öflug fyrirtæki.

Það má heyra sagt úti á landi setningar eins og "þeir gína yfir þessu og soga allt til sín fyrir sunnan."

Slík ummæli eru skiljanleg en það er meiri þörf á ummælum um að finna ráð til að hamla gegn þessu. 

Aðdráttaraflið, náttúruverðmætin, eru nefnilega mest á landsbyggðinni.  

 


mbl.is Lítill hagnaður hótela á landsbyggðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algeng saga: Skyndibitar og vinnustreita.

Skyndibitar og vinnustreita utan heimilis geta verið ávísun á að þyngjast. Þyngingin er lúmsk, kannski aðeins tíu grömm á dag, en það gera 70 grömm á viku og tæp 300 grömm á mánuði. 

Það tekur enginn eftir slíku og jafnvel heldur ekki þegar búið er að þyngjast um 1,5 kíló á ári. 

En með svipuðu áframhaldi er þyngingin orðin 15 kíló á áratug og 45 kíló á 30 árum. 

Sumum störfum fylgir óhjákvæmilega streita og þá er neyslan tilviljanakennd og of oft gripið til óhugsaðra skyndilausna og skyndibita eins og að fara í sjálfsalann og fá sér flösku af gosdrykk og súkkulaðikex. 

Hið síðarnefnda felur í sér kaloríusprengingu, í kringum 500 hitaeiningar á hver 100 grömm þyngdar fæðunn. Og það eru um 400 hitaeiningar í litra af gosdrykk.  

500 hitaeiningar í súkkulaðistykkinu og 200 í hálfs lítra gosflösku gera samtals 700. 

Það er þriðjungur þarfar meðal manneskju á sólarhring.  Ein ferð í sjálfsalann. 

 


mbl.is Var 130 kíló: Léttist á því að borða heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband