Gætu verið betri fréttir frá útlöndum í veirumálum.

Tvær fréttir frá útlöndum, sem bárust um svipað leyti nú síðdegis eru lítt til þess fallnar að auka mönnum bjartsýni í COVID-19 málum. Önnur þeirra greinir frá nýrri tegund kórónaveirunnar, sem fundist hefur í Bretlandi sem sé 70 prósent meira smitandi en sú, sem glímt hefur verið við fram að þessu. 

Þetta hlýtur að kalla á enn meiri viðbúnað og varúð en verið hefur. 

Hin fréttin er ekki með mikinn jólasvip, því að af henni má ráða hættuna á því að í hönd geti farið kapphlaup þjóða við að krækja sér sem fyrst í sem mest bóluefni. 

Í því efni vekur umfjöllun Der Spiegel athygli, því að í henni er mörgum flötum þessa máls velt upp sem geta falið í sér að álíka ástand kunni að skapast og þegar margir reyna að komast í björgunarbáta á sökkvandi skipi.   

Við slíkar aðstæður er alltaf hætta á að hinir smærri troðist undir, og enda þótt framundan kunni að vera tafir vegna seinagangs í kerfinu í Evrópu, er ekki líklegt að íslensk stjórnvöld eigi greiða leið með því að segja sig úr samfloti Evrópuþjóða um þessi mál og komast á þann hátt með einhverri yfirburða ýtni framar í röðina. 

Með slíkum einleik yrði tekin gríðarleg áhætta á því að verða undir í baráttunni. 

Nema menn hugsi sem svo að það sé líklegt að vegna þess hve við erum örsmá þjóð, muni lyfjafyrirtækin frekar gauka einhverju að okkur sérstaklega. 

Eða að það sé sigurvænlegt að segja upp því alþjóðlega samstarfi sem við erum í og fá eitthvað miklu meira í staðinn, einir og sér?

Þegar horft er á stóru myndina á heimsvísu stingur kannski mest í augun að talið er að milljarður manna muni ekkert bóluefni getað fengið á árinu 2021.   


mbl.is Bóluefnaframleiðslan „komin á fulla ferð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var 14 prósentum landsins skellt í lás 2008 og landsmenn reknir í burtu?

Það er skrýtið að á 21. öldinni, þegar búist hafði verið við því hún yrði öld upplýsingar í krafti byltingar í samskiptum, virðist upplýst umræða hafa beðið mikinn hnekki. 

Dæmi um það eru hin hrikalegu stóryrði sem kastað er fram sem staðreyndum í þeirri herferð gegn hálendisþjóðgarði, sem nú er í gangi. 

Þar er nú staðhæft að með stofnun slíks þjóðgarðs sé þriðjungi landsins skellt í lás af valdafíknum valdsmönnum í Reykjavík og landsmenn; útivistarfólk, bændur, hestamenn, jeppamenn reknir út og beitt til þess lokunum, sektum og ofbeldi. 

Nú er það svo að af þessum umrædda hálendisþjóðgarði hefur tæpur helmingur þegar verið þjóðgarður í tólf ár, frá árinu 2008. 

Enginn þessara háværu manna hinna miklu stóryrða virðist hirða neitt um reynsluna af stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs í júní 2008. 

Vatnajökulsþjóðgarður er rúmlega 14 þúsund ferkílómetrar og þar af er tæpur helmingur auð jörð á sumrin en jökullinn sjálfur um 8 þúsund ferkílómetrar. 

Og þá mætti ætla að eftir tólf ára rekstur þessa þjóðgarðs væri búið að koma því í verk að innleiða þar harðstjórn valdafíkinna manna í Reykjavík, skella öllu í lás, reka útivistarfólk, bændur og búalið, hestamenn, jeppamenn, já, og nánast landsmenn og alþýðu alla út af landi Vatnajökulsþjóðgarðs með valdbeitingu og sektum. 

En upphlaupið núna er að vísu ekki einsdæmi. 

Þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir orðaði sem ferðamálaráðherra hugmynd um gjald fyrir aðgang að helstu náttúruverðmætum landsins, var hafinn svipaður söngur og nú um að með slíku væri verið að "niðurlægja og auðmýkja" landsmenn.  

Í allri herferðinni 2014 var ekki að sjá að þeir sem harðast gengu fram gegn þjóðgörðum hefðu haft fyrir því að kynna sér þjóðgarða og virkjanir erlendis hjá þjóðum sem hafa margra áratuga reynslu á því sviði. 

Má þar til dæmis nefna Bandaríkjamenn, sem hafa 136 ára gamla reynslu, og á aðgangskortinu þar í landi standa þessi orð: "Proud partner." "Stoltur styrktaraðili" - í landi frelsisins - ekki "auðmýktur og niðurlægður." 

Sagt er að frumvarpi um þjóðgarðinn sé "laumað inn" á sama tima og hann er fyrstur á dagskrá af stærstu málum ríkisstjórnarinnar og hefur verið í stanslausu ferli í þrjú ár.

Ef umræðan verður áfram á svona plani verða það vonbrigði miðað við þær glæstu vonir um upplýsta umræðu á 21. öldinni sem vöknuðu í aldarbyrjun. 

 

 

 


mbl.is Tekist á um hinn „grenjandi minnihluta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. desember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband