19.2.2020 | 22:54
"Þetta reddast" hugarfarið þrátt fyrir appelsínugular viðvaranir.
Appelsínugul viðvörun er næstalvarlegasta viðvörunin á vegum landsins á eftir rauðri viðvörun, og liggja aðvaranir þessar venjulega fyrir með nokkurra dægra fyrirvara ásamt spám um vind, úrkomu og lofthita, sem liggja við mörk fárviðris, og flughállar hálku í krapa eða snjó.
Samt er eins og þetta hrífi ekki á marga vegfarendur eins og öll vandræðin, útköllin, strandaglóparnir, óhöppin og slysin bera vitni um.
Hugarfarið "þetta reddast" hefur hingað til verið hermt upp á Íslendinga sérstaklega, en virðist orðið býsna alþjóðlegt í hinum mikla straumi erlendra ferðamanna undanfarin ár.
Strandaglópar úti um allt í Öræfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2020 | 16:30
Borgardrengurinn, sem gerði gagnmerka dreifbýlismenningu að ævistarfi.
Hallgrímur Sveinsson var einn af mörgum ógleymanlegum bekkjarsystkinum síðuhafa í Gagnfræðaskólanum við Lindargötu á árunum 1953 til 1955.
Þótt þessi bekkjarsystkin sætu aðeins tvo vetur í skólanum, varð hópurinn einstaklega samhentur og skemmtilegur.
Hallgrímur var vörpulegur og knár og driffjöður í íþróttum og skólalífi og fas hans allt gaf til kynna, að hann væri líklegur til afkasta og verka.
Engan óraði fyrir því þegar hann útskrifaðist úr Kennaraskólanum og hóf kennslu í Reykjavík, að leið hans myndi liggja út á land þar sem hann ætti eftir að skila óvenjulega gjöfulu ævistarfi, eins og yfirlit yfir æviferil hans ber glöggt með sér.
Leiðir okkar lágu oftast saman meðan hann var staðarhaldari á Hrafnseyri og stóð fyrir því að myndarlega væri staðið að varðveislu minningar Jóns Sigurðssonar, sem þar lagði í uppvexti sínum í dreifbýli grunninn að mikilsverðu starfi bæði suður í Reykjavík og í Kaupmannahöfn.
Hallgríms er sárt saknað og samúðarkveðjur streyma vestur.
Andlát: Hallgrímur Sveinsson | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2020 | 10:41
Þróunin er í áttina að hreinum rafbílum.
Eitt stærsta skrefið í innrás notkunar rafhreyfla í bíla var þegar Toyota Prius var valinn bíll ársins í Evrópu upp úr síðustu aldamótum.
Á þeim tíma hafði Toyota forystu á þessu sviði svonefndra hybrid-bila, en ákvað að sækja lengra í átt frá hreyfli knúnum jarðefnaeldsneyti með því að þróa vetnisbíla.
Núna er Toyota í fararbroddi í smíði slíkra bíla, en Honda og Hyundai fylgja fast á eftir.
Stærsti kostur vetnisbílanna er sá, að aðeins tekur 3-5 mínútur að hlaða orku inn á slíka bíla, sem er meiri hraði en fæst við hleðslu á eldneytisknúnum bíl og margfalt meiri hraði en á venjulegum rafbíl.
Gallarnir felast í dýru verði vetnisbíla og skorti á kerfi hleðslustöðva fyrir vetnisbíla, því að þrátt fyrir uppgefið drægi allt að 650 kílómetra á hleðslu, verður bitastætt hleðslustöðvakerfi að vera fyrir hendi.
Skorturinn á hleðslustöðvakerfinu er einfaldur; yfirgnæfandi meirihluti bílaframleiðenda veðjaði eingöngu á þróun bíla, sem eru eingöngu með rafafl sem orkubera.
Tengiltvinnbílar hafa þann kost að hægt er að aka þeim á eldsneyti eingöngu ef rafaflið þrýtur vegna þess hve rafdrægni slíkra bíla er lítil, aðeins um 30-50 kílómetrar.
Þá er gott að hafa aðgang að hinu geysivíðtæka neti bensínstöðva um allt land.
En það þýðir jafnframt þann ókost, að ökumennirnir hyllist til að aka nær eingöngu fyrir afli eldsneytis og eyða jafnvel meira af því en á sambærilegum bíl, sem hefur aðeins brunahreyfil en verður að bera þungt kerfi rafaflsins, einkum þunga rafhlaðnanna.
Sé mikið um slíkan akstur, bitnar það á árangri af aðgerðum gegn kolefnisútblæstri.
Gallinn að þessu leyti við hybrid-bíla eins og Prius, er svipaður og í tengil-hybrid bílum, einkum í samfelldum utanbæjarakstri, og af þessum sökum er þróunin, bæði hjá yfirvöldum og framleiðendum, að stuðla aðallega að þróun hreinna rafbíla og innviðakerfis fyrir þá.
UX 300e fyrsti rafbíll Lexus | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2020 | 00:51
Fljótlegt til að sjá stöðuna: Lesa textann á umbúðunum.
Utan á flestum gosdrykkjaflöskunum stendur, að í hverjum 100 ml séu um 40-42 hitaeiningar.
Meðalmaður þarf um 2000 hitaeingingar á dag, þannig að þessar 40 sýnast litlu máli skipta.
Öðru máli skiptir er neyslan er 10 dúsir, 330 ml hver.
Þá verður sólarhringneyslan 1300 hitaeiningar eða meira en langleiðina í þá orku en manneskjan þarf.
Ein hálfs líters flaska þykir ekki mikið, en í henni eru 200 hitaeiningar, eða meira en tíundu hluti sólarhringsþarfarinnar.
Ef hálfs lítra flöskurnar eru tvær, er skammturinn orðinn 400 hitaeiningar.
Og fjórar hálfs lítra flöskur, sem margir slurka í sig daglega, innifelur 800 hitaeiningar.
Sé síðan aðeins fjórum Prins Póló stykkjum bætt við, eitt að morgni, annað á hádegi og hið þriðja að kvöldi, eru þar komnar um 200 grömm með 800 hitaeiningar í viðbót, og bara þetta tvennt, súkkulaðið og gosið, gefur svo mikla orku, að aðeins það fer langt í að anna allri orkuþörfinni, án þess að neitt annað sé étið.
Skipti yfir í sykurlaust gos og léttist um 40 kíló | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)