Skrifin um landráð í bólusetningum horfin en önnur tekin við.

Þegar bólusetningar hófust hér í fyrrahaust og tekin sú stefna að nýta samflot með Norðurlöndum og ESB ráku margir upp ramakvein og hömuðust gegn þessu á samfélagsmiðlum af fádæma hörku. 

Notuð voru orð eins og undirlægjuháttur og landráð og nefnd fjölmörg lönd utan Evrópu, sem frekar ætti að leita til og tryggja þannig forystu okkar í fjölda bólusetninga. 

Nú eru komnir nokkrir mánuðir síðan þessar raddir þögnuðu. 

En þá bregður svo við að aðrar og jafnvel enn illyrtari ásakanir fara nú sem eldur í sinu um samfélagsmiðla og fjölmiðla þess efnis að með bólusetningum sé í gangi harðsvírað samsæri á heimsvísu um að drepa sem flesta!

Þessu til sönnunar eru birtar daglega hrikalegar og hrollvekjandi tölur um fólk, sem bólusetningarnar drepi með afleiddum sjúkdómum, svo sem blóðtöppum og hjartaáföllum. 

A bak við þessi skrif virðist liggja mikil vinna, því að til þess að birta þessar tölur þarf að fylgjast dag frá degi með þeim sem fá þessa svonefndu afleiddu sjúkdóma og skoða jafnframt hvort þeir séu nýlega bólusettir. 

Síðan virðast þessir andstæðingar bólusetninganna gefa sér það, að allir sem deyja eftir að þeir hafi verið bólusettir, hafi dáið af völdum bólusetninganna, en hinir hins vegar dáið eðlilegum dauðdaga. 

Raunar er ekki erfitt að stunda svona vinnubrögð, því að enda þótt engar væru bólusetningarnar deyja þúsundir manna að jafnaði úr sjúkdómum á borð við blóðtappa og hjartaáfalla og hefur það ætíð verið svo.  


mbl.is Ísland í fremstu röð í bólusetningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumargleðin prófaði að vera með jólasvein (júlísvein) í fullum skrúða.

Þótt spurning sé nú sett fram um það hvort hægt sé að halda jólatónleika í júlí hefur hliðstæð tilraun verið gerð áður hér á landi, nánar tiltekið fyrir 40 árum. 

Það var þegar þeir Magnús Ólafsson og Þorgeir Ástvaldsson urðu liðsmenn skemmtanahópsins Sumargleðinnar sem þá fór skipulega um landið frá júní og langt fram á haust í lokin. 

Hlutverk Þorgeirs var aðallega á sérsviði hans, sem sneri að algerri uppstokkun á fjögurra til fimm klukkustunda samfelldu fjöri, tveggja klukkustunda skemmtidagskrá og dansleik á eftir þar sem innifalið yrði besta diskótek landsins. 

Allir Sumargleðimennirnir sungu frá upphafi til enda og Magnús var ekki aðeins öflugur söngvari, heldur góður gamanleikari. 

Nú þurfti að skapa hentuga gamanþætti þar sem hæfileikar hans nytu sín, og vorið 1980 var tíminn naumur. 

Síðuhafi fékk þá hugdettu, meðal annars, að Magnús færi í jólasveinabúning og færi um salinn gefandi sælgæti úr poka og kætti samkomugesti. 

Ragnar Bjarnason studdi þessa tillögu, en við tók mesta basl við að útfæra þetta atriði, þar sem jólasveinsafbrigðið júlísveinn yrði kynnt fyrir landsmönnum. 

Svo fór, að þrátt fyrir að atriðið gerði fyrir tilviljun stormandi lukku á einni skemmtun voru undirtektir annarsstaðar svo misjafnar, að júlísveinninn lifði sumarið ekki af. 

Það væri alveg efni í ítarlegri frásögn ef út í slikt er farið. 


mbl.is Landsmenn tísta: „Má halda jólatónleika í júlí?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afvegaleiddar umræður um vísindalegar staðreyndir.

Upplýsingar Sigurðar Steinþórssonar prófessors emeritus um eðli eldgossins í Geldingadölum er gott dæmi um það, hve við Íslendingar eigum vel mannaða sveit góðra vísindamanna á þessu sviði sem standa í fararbroddi á heimsvísu í rannsóknum í eldfjallafræði og jarðfræði. 

Þess dapurlegra er að sjá stanslausa afvegaleidda umræðu andstæðinga orkuskipta þar sem rökræðan er stórlega afvegaleidd í því skyni að gera Íslendinga eina allra þjóða stikkfrí í því að leggja sitt af mörkum í þessu efni. 

Málflutningur þessi felst í því, að vegna þess hve útblástur af völdum notkunar jarðefnaeldsneytis Íslendinga sé lítill hluti af útblástri jarðarbúa, og einnig vegna þess að útblástur íslenskra eldfjalla sé stórfelldur, eigum við kröfu á að skerast úr leik á þeim forsendum að það muni ekkert um okkur á heimsvísu. 

Þetta er ömurlegur málflutningur því að svo að dæmi sé tekið, er útblástur hvers meðalstórs íslensks bíls sem brennir jarðefnaeldsneyti álíka mikill og útblástur hvers svipaðs bíls annars staðar á jörðinni. 

Ef röksemdir Páls Vilhjálmssonar í dag um þetta mál væru gildar, ættu þær líka að gilda um allar þær þúsundir borga og byggða um allan heim, sem eru álíka fjölmennar og Ísland. 

Síðan er þessi málflutningur kórónaður með því að fella íslensk eldfjöll inn í útblásturstölur jarðarbúa og Íslendinga. 

Það er einstaklega ósanngjörn þröngsýni að færa óviðráðanlega þætti í náttúru jarðar til bókar hjá einstökum þjóðum eins og Íslendingum og blása það út hvað þessar tölur séu háar í samanburði við útblástur, sem þjóðin veldur sannanlega sjálf og getur minnkað, ef vilji er fyrir hendi. 

Raunar er leitun að þjóð sem hefur eins mikla og nærtæka möguleika í því efni og við Íslendingar. 


mbl.is Eldgamalt vatn veldur sprengingunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband