Loftbelgur rakst á raflínu í Leirársveit fyrir 45 árum. Flugmaðurinn slapp vel.

Loftbelgsflug er ekki hættulaust frekar en annað flug eins og dæmin sanna. Hér á landi er óhætt að segja að mikill heppni hafi verið yfir slíku flugi, og má þakka fyrir það. 

Eftir um það bil tíu daga eru rétt 45 ár síðan flogið var í fyrsta sinn með farþega í loftbelg hér á landi. Farþegaflugið sjálft var að vísu mjög stutt, innan við tveir kílómetrar á Álftanesi, þar sem lagt var í hann. 

Farþeginn var með farangur, myndavélar, sem hann setti inn í körfu belgsins. 

Vindur var talsverður á suðsuðvestan og með byljóttum skúrum, og því gekk flugtakið illa, því að vindurinn feykti belgnum það hratt í láréttri stefnu, að hann náði ekki flugi heldur dró belgurinn körfuna eftir túnskákinni þar sem ferðin hófst. 

Síðuhafi átti að verða fyrsti loftbelgsfarþeginn hér á landi, en varð að byrja á því að hjálpa til í upphafi við að halda belgnum föstum á með loftbelgstjórinn og eigandi belgsins kynti gastæki hans eins og hann ætti lífið að leysa til að gefa honum lyftikraft og láta belginn rísa til himins. 

Flugtaksbrunið varð því á talsverðum hraða eftir allri túnskákinni í gegnum girðingu við enda hennar, yfir Álftanesveginn, gegnum girðingu hinum megin, þar sem belgurinn stóð fastur í nokkur augnablik en reif sig síðan lausan og tók loksins flugið. 

Alla þessa þeysireið hékk farþeginn utan á körfunni án þess að komast upp í hana, og hékk áfram utan á henni þegar hún hækkaði flugið, þá búinn að missa af sér stígvélin og orðinn blóðrisa á fótunum. 

Flugstjórinn heyrði ekki köll farþegans vegna hávaðans í gastækjunum, sem hann kynti ains og óður væri og sá heldur ekki hendur farþegans, sem héldu dauðahaldi í brún körfunnar. 

Nokkur skelfileg augnablik að horfa niður og sjá jörðina fjarlægast vitandi það að stutt væri í það að missa dauðahaldið í körfubrúnina. 

En til allrar hamingju kom smá niðurstreymi og karfan féll til jarðar, þar sem farþeginn kastaðist af henni og kútveltist í móanum. 

Við þessi endalok farþegaflugsins léttist belgurinn og náði aftur flugi en þó ekki betur en svo, að hann missti aftur hæð og lenti á ný, í þetta sinn í Lambhúsatjörn gegnt Bessastöðum  þar sem flugstjórinn stóð í sjó upp í mitti inni í körfunni og kynti áfram gastækin í gríð og erg til að losa sig úr festunni, svo að í hönd fór annað flugtakið í þessari ótrúlegu flugferð, sem þegar hafði innifaldar tvær lendingar, aðra á landi en hina á sjó og fyrsta loftbelgsflug með farþega hér á landi, en farþeginn þó útbyrðis á loftfarinu. 

Til stóð að taka kvikmyndir og ljósmyndir í fluginu, en myndavélarnar eyðilögðust þegar þær lentu í sjónum í Lambhúsatjörn. 

En áfram hélt þessi dæmalausa flugferð, og um hríð virtist loftbelgurinn stefna beint á húsin á forsetasetrinu á Bessastöðum, en náði að lyftast yfir þau og stefndi nú á Reykjavík og Akrafjall. 

Síðastnefnda hindrunin virtist sú glæfralegasta, svo að farþeginn hirti nú stígvél sín, fór til Reykjavíkur og flaug þaðan á flugvél upp á Narfastaðamela undir Hafnarfjalli til að sjá hvernig flugferðin myndi enda. 

Í ljós kom að belgurinn komst yfir Akrafjall en það var skammgóður vermir, því að framundan var tæplega tvöfalt hærri hindrun, Skarðsheiði. 

Þegar staðið var á Narfastaðamelum eftir lendingu sást mikill eldblossi í miðri sveit. 

Þegar þangað var komið kom í ljós að loftbelgurinn hafði lent á raflínu og kortslúttað sveitinni, en flugstjórinn slapp ótrúlega vel, lítillega sviðinn af blossanum og talsvert marinn. 

Belgurinn sjálfur hafði brunnið að hálfu.  

Þar lauk þessu tímamótaflugi í íslenskri flugsögu, en réttum tíu árum síðar fóru útlendingar í nokkrar afar vel heppnaðar ferðir með farþega í Reykjavík.  


mbl.is Fimm létust þegar loftbelgur hafnaði á raflínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skulu í gegn stefnan" hefur fyrir löngu beðið skipbrot.

Of lengi hefur sú tilhneiging verið í gangi hér á landi að þar sem þéttbýli myndaðist á sínum tíma við brýr eða krossgötur með verslunarkjörnum í miðjunni, skyldi framvegis forðast það að umferðin fengi fljótfarinn farveg framhjá miðju byggðarinnar þegar leiðin um miðjuna fór að líða fyrir umferðarteppur sem þar mynduðust. 

Þetta svona ástand varð til á sínum tíma við brúna yfir Ytri-Rangá og til stóð að gera nýja brú á nýjum stað, þar sem leiðin lægi stystu leið framhjá byggðinni fyrir sunnan hana, hófst mikil andspyrna gegn því og þess var krafist að leiðin lægi í gegnum miðju þorpsins, þar sem ný brú risi við hliðina á þeirri gömlu með þeim afleiðingu að afar seinfarið og þröngt yrði að fara þar um. 

En hörðustu andstæðingar nýrrar brúar og leiðar fyrir sunnan þorpið töldu í fúlli alvöru, að ef það yrði gert, myndi það þýða endalok þorpsins.  

Þess vegna snerist það um líf eða dauða að þvinga umferðina í gegnum gömlu miðjuna. 

Sem betur fer varð þessi stefna, sem kalla má "skulu í gegn stefnan", ekki ofaná, heldur hin nýja stefna bestu hagræðingar í skipulagi. 

Þær þúsundir, sem nú aka um nýju brúna, myndu undrast, ef þeir sæu, hvernig þetta hefði orðið ef hún hefði ekki verið tekin upp. 

Sú verslun og þjónusta, sem er á Hellu, hefur einfaldlega flutt sig nær nýjú brúnni. 

Lengi vel var uppi andstaða á Selfossi og víðar við það að færa Þjóðveg 1 norður fyrir Selfoss og yfir nýja brú. 

Andstæðingar þess töldu það höfuðnauðsyn, að allir þeir, sem ættu leið yfir Ölfusá, ættu ekki um neitt annað að velja en að fara krókaleiðina í gegnum miðbæinn með tilheyrandi umferðartöfum. 

Nú virðast menn hins vegar sem betur fer hafa séð, hve arfa óhagkvæm slík stefna er, enda er forsenda hennar kolröng, að allir vegfarendur á leið yfir Ölfusá eigi eða hafi átt erindi um hinn gamla miðbæjarkjarna. 

Hugsanleg hefur andóf gegn nýja brúarstæðinu og stæðinu fyrir Þjóðveg eitt tafið fyrir því að hafist hafi verið handa fyrr við þá þjóðþrifaframkvæmd. 

Sé svo, er það bagalegt, en þess meiri þörf á að sækja þetta mál þeim mun betur.  


mbl.is Umferðaröngþveiti á Selfossi: „Nýja brú strax!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Torfi Bryngeirsson var spurður að því af hverju hann væri aldrei nervös.

Torfi Bryngeirsson lét falla mörg athyglisverð tilsvör á litríkum ferli, en líklega er tilsvar hans þegar hann varð Evrópumeistari í langstökki þekktast. 

Torfi var annar besti stangarstökkvari Evrópu þegar hann fór á sitt fyrsta stórmót á EM 1950. 

En hann var líka skráður til keppni í langstökki þar sem hann var þó ekki á topp tíu listanum. 

Það er einstakt að stökkvari sé í fremstu röð í þessum tveimur greinum, og svo illa vildi til fyrir Torfa, að keppt var samtímis í þessum greinum. 

Honum tókst þó að komast í úrslit í báðum greinum, en varð því miður að velja á milli þeirra af því að úrslitakeppni í þeim var á sama tíma. 

Torfi íhugaði stöðu sína og tók þá furðulegu ákvörðun að flestra mati, að sleppa stangarstökkinu með tilheyrandi einvígi við Ragnar Lundbergog en fara í langstökkið, sem var miklu lakari grein fyrir hann. 

Torfi svaraði snöggt: Ég er búinn að skoða keppendurna og sjá að Ragnar Lundberg er í stuði en langstökkvararnir virðast bara vera kettlingar. 

"Þeir eru með miklu betri skráð afrek en þú" andmæltu menn. 

"Já, en þeir vinna keppnina hér á þeim afrekum" svaraði Torfi. 

Hófst nú keppnin voru aðstæður mjög erfiðar vegna misvindis sem gerði keppendum einstaklega erfitt fyrir. Þeir bestu fóru alveg á taugum en Torfi var hinn sperrtasti, geislaði af hugarstyrk, sjálfsöryggi og krafti, auk þess sem ekki vottaði fyrir neinum taugaóstyrk hjá honum þótt vindurinn blési sitt á hvað.

Þegar kom að honum í stðkkrðinni gekk hann sperrtur um og bar sig mannalega á tærri íslensku: "Sjáið þið, hér kem ég og skal sýna ykkur hvernig á að gera þetta; strákurinn frá Búastöðum, sem er sko enginn lopi!" 

Fór svo að Torfi stökk tvö bestu stökk sín á ferlinum á sama tíma og hinir voru allir langt frá sínu besta. 

Eftir keppnina þyrptust blaðamenn að hinum nýja og gersamlega óþekkta Evrópumeistara, sem hafði nákvæmlega enga reynslu að baki á stórmótum Evrópu og spurðu hann hvernig stæði á því að hann hefði náð þessum frábæra árangri. 

"Það var vegna þess að ég var sá eini sem var ekki vitund nervös," svaraði Torfi, "á sama tíma og hinir brotnuðu niður af taugaóstyrk." 

"En hvernig gast þú einn ráðið við þetta?" var spurt.

"Það er af því að ég er aldrei nervös," svaraði Torfi. 

"Af hverju ertu aldrei nervös?"

"Af því það er verra" svaraði Torfi.

 

Þetta svar er gullkorn, því að það lýsir alveg einstöku æðruleysi og hugarstyrk, sem getur orðið til bjargar þegar menn standa frammi fyrir því að láta ótta og panik ná tökum á sér. 

 


mbl.is „Til hvers þá að vera að þessu?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig voru Ólafur Thors og Bjarni Ben og Hermann og Eysteinn sem tvíeyki?

Íslensk og erlend stjórnmálasaga geyma fjölmörg dæmi um það, að tveir sterkir menn í forystu flokka, tvíeyki á borð við Ólaf Thors og Bjarna Benediktsson hjá Sjálfstæðisflokknum og Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson hjá Framsóknarflokknum, reyndust þessum tveimur stærstu stjórnmálaflokkum landsins svo vel, að þeir voru í stjórn, annar hvor eða báðir, í þrjá ártatugi frá miðjum fjórða áratugnum. 

Ólafur var formaður Sjalla og Bjarni varaformaður fram yfir 1960 og allan þann tíma hafði Bjarni svo mikil áhrif og var svo öflugur, að hann og Ólafur stóðu í stafni hjá flokknum og í ríkisstjórnum eins og tveir jafnstórir og samhentir foringjar, en þó nógu ólíkir til þess að sterkustu hliðar hvors um sig vógu upp veikustu hliðarnar hjá hinum. 

Þegar Ólafur dró sig í hlé og féll síðan frá, tók Bjarni við forystunni. 

Og hið sama gerðist þegar Hermann dró sig í hlé og Eysteinn tók við. 

Haraldur Benediktsson virtist í fyrstu ekki hafa skoðað vel þetta fordæmi úr sögu flokks síns og fleiri flokka þegar hann sýndist ætla að hverfa af þeim vettvangi, sem hafði valið sér fyrir nokkrum árum. 

Nú virðist hann hafa náð áttum og séð að Áslaug Arna verður með mikið í fanginu meðan hún er bæði varaformaður flokksins og ráðherra, og að fyrir bragðið verður margt annað eftir til að sýsla við fyrir hvern þann í því tvíeyki sem tveir efstu skipa. 


mbl.is Haraldur þiggur annað sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júní 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband