Gullfossvirkjun: brot af óafturkræfum umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar.

Áratugina sem virkjun Gullfoss var á dagskrá höfðu menn fordæmi Norðmanna í orkumálum í huga. 

Þar í landi hafði fossinn Rjukan jafnan verið á dagskrá til að sýna erlendum gestum, svo sem Frakklandskeisara, svipað og gert var hér á landi, þegar Danakonungar komu í heimsókn. 

Síðan var Rjukan virkjaður sem hluti af rafvæðingu Noregs og hefur ekki sést síðan. 

Fróðlegt er að bera saman umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar og hugsanlegrar Gullfossvirkjunar. 

Gullfossvirkjun myndi nota Hvítárvatn sem miðlunarlón, stöðuvatn, sem þegar er tilbúið til slíks. Stíflan þar yrði ekki sjáanleg nema handan við Bláfell og þessi framkvæmd afturkræf að mestu. 

Kárahnjúkavirkjun þarf þrjú miðlunarlón og það stærsta mun fylla 25 kílómetra langan og 200 metra djúpan dal af aurframburði á algerlega óafturkræfan hátt, og gereyða fjölda einstæðra náttúruverðmæta. 

Gullfossvirkjun yrði aðeins í einni á. 

Kárahnjúkavirkjun tekur vatn úr þremur jökufljótum og þurrkar upp tugi fossa, þar sem þrir geta talist stórfossar líkt og Gullfoss. 

Líka er fróðlegt að velta vöngum yfir rökstuðningi með Gullfossvirkjun: Ísland var enn nær vegalaust, án beislaðrar raforku að mestu og virkjunin myndi skapa atvinnuuppbyggingu og færa landsmönnum stórt stökk inn í nútímann. 

Svipuð rök hafa verið uppi með stórvirkjunum á síðustu árum. En munurinn er sá, að nú notum við aðeins um 20 prósent af innlendri orku til íslenskra heimila og fyrirtækja en stóriðjufyrirtæki í erlendri eigu nota 80 prósent en skila nær helmingi minni virðisauka inn í efnahagslífið en sjávarútvegur og ferðaþjónusta. 

Samt er náttúruverndarfólk sakað um að að vera á móti rafmagni, vera á móti atvinnuuppbyggingu og vilja að við förum aftur inn í torfkofana.  

 

 


Lífeyrir aldraðra samt 80 þúsund krónum fyrir neðan lágmarkslaun?

Í fréttum ljósvakamiðlanna í gær mátti heyra það nefnt, að meðal aldraðra væru þúsundir fólks sem væri gert að sætta sig við lifa á átta þúsund krónum lægri upphæð en lágmarkslaun væru. 

Í ofanálag væri hvergi á byggðu bóli í nágrannalöndunum búið að ganga eins  hart fram af stjórnvöldum að koma í veg fyrir að aldraðir fengju að afla sér tekna í viðbót við hina strípuðu lífeyristaxta. 

Engin umræða hefur verið um þetta í dag, svo að séð verði. Þykir kannski hið sjálfsagðasta mál? 


mbl.is Meðallaun hækkað mun meira á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árangursríkasta farartækið er svona í laginu.

Hjólið, sem Arna Sigríður Albertsdóttir notar á Ólympíumóti fatlaðra, er mun merkilegra en sýnist í fyrstu. 900px-Seat_Minimo_Genf_2019_1Y7A5952

Helsta viðfangsefni bílahönnuða á tímum orkuskipta er að finna hagkvæmari leiðir til þess að nota einkafarartæki, allt frá rafreiðhjolum upp í rafknúin léttbifhjól, rafknúin vélhjól af fullri stærð, litla rafbíla og stóra rafbíla. 

Um meðalstóra bíla hefur það lengi gilt, að til þess að ná fram sem bestri hagkvæmni, sé mikils virði að hafa loftmótstöðuna sem minnsta. 

Gildir þar staðall, sem nefndur er cx, og var forðum um 0,50 eða hærri, en er nú á flestum bílum í kringum 0,30 cx.  

Einnig það að bíllinn ryðji sér braut í gegnum loft, sem er með sem minnst flatarmál í þvesniði, "frontal area" á erlendu máli. 

Með því að margfalda fram-flatarmálið með cx fæst tala yfir loftmótstöðu bílsins. 

Vandamálið varðandi loftmótstöðuna vex mjög mikið hlutfallslega eftir því sem farartækin verða minni í formi vélhjóla og örbíla. 

Uppréttur maður, sitjandi á hjóli, er nokkurn veginn eins illa lagaður til að kljúfa loftið og hugsast getur. 

Þess vegna verður niðurstaða Örnu Sigríðar eins útlítandi og raun ber vitni og þríhjólið hennar eins lágt og einfalt og mögulegt er.  

Meðal þeirra mörgu örlitlu rafbíla og nú eru ýmist í hönnun eða komnir á markað, svo sem Minimo hjá SEAT/Volkswagen, eru sætin tvö og farþeginnn sitjandi þétt aftan við bílstjórann, og bíllinn hafður eins mjór og lítill og hægt er til að gera bætta nýtni á gatnakerfinu mögulega og afköst bílsins sem mest. 

Til dæmis sá möguleiki að leggja þremur bílum þversum í stæði fyrir einn. 

 


mbl.is Arna keppir á frægri kappakstursbraut – myndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðið í Afganistan: Jafndýrt og rekstur ísl.ríksins í 300 ár!

Nú, þegar tuttugu ára hernaði NATO í Afganistan er að ljúka með greypilegum ósigri og fjöldamorðum hryðjuverkamanna fram á síðustu stund dunda fjölmiðlar sér við að velta upp ýmsum tölum og staðreyndum. 

Það er athyglisverður listi. 

Stríðið var háð til þess að uppræta hryðjuverkasamtök en endar með nýju upphafi á hryðjuverkum fyrir framan nefið á innrásarhernum. 

Þegar Bretar voru stærsta heimsveldið á 19. öld gerðu þeir tvívegis innrás í landið og biðu ósigur og hrökkluðust burtu í bæði skiptin.  

Rússar voru meira og minna í hernaði þar í meira en áratug en biðu ósigur og fóru þaðan 1989, auk þess sem hið dýrkeypta og vonlausa stríð var einn af myllusteinunum um háls Sovétríkjanna, þegar þau hrundu 1991.  

Í kjölfar valdatöku Talibana og veru hryðjuverkasamtaka í landinu, sem réðust á Bandaríkin 2001, gerðu Bandaríkin ásamt nokkrum NATO-þjóðum innrás í landið árið 2001, enn eitt vonlausa stríðið var háð þarna með snautlegum endi sem heimsbyggðin horfin á, þar sem ný og fersk hryðjuverkasamtök núa salti í sárin með mannskæðri morðárás í sjálfri höfuðborginni. 

Og hvað er þetta búið að kosta?

160 þúsund manns hafa verið drepin í þessu stríði og enn fleiri særðir. 

Herkostnaður Bandaríkjamanna er orðinn 255 þúsund milljónir króna, en fyrir það fé væri hægt að reka íslenska ríkið í tæp 300 ár! 

Drjúgur hluti af kostnaðinum fór í að uppræta eiturlyfjaframleiðslu landsins. 

Og hver varð árangurinn?

Jú, í stríðslok framleiðir landið 80 prósent af heimsframleiðslunni á heróini!

Bandaríkin eru eitt af skuldugustu ríkjum heims og skulda víst Kínverjum mest, en meirihlutinn af þessu stríði í Afganistan hefur verið rekinn fyrir lánsfé!

Eftir allan þennan stríðsrekstur erlendra stórvelda og annarra þjóða´í Afganistan, á það ekki að undra neinn þótt hin stríðsþjáða þjóð sé fyrir löngu búin að fá upp í kok af þessu brölti útlendinga í landinu.

Eitt af síðustu verkum Donalds Trumps var að semja beint við Talibana um að bandarískt herlið yrði komið úr landi innan 14 mánaða. 

Innlendu ríkisstjórninni var haldið algerlega utan við þessa samninga. 

Síðan undrast menn það mjög að stjórnarherinn gæfist baráttulaust upp á örfáum vikum eftir svona aðfarir. 


mbl.is Að minnsta kosti 13 látnir í tveimur sprengingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. ágúst 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband