Minnismerki um verkmiðjurnar, sem áttu að "bjarga Suðurnesjum."

Fyrir fjórtán árum fór fram einhver stærsta skóflustunguathöfn, sem haldin hefur verið hér á landi, í Helguvík skammt utan Keflavíkur. 

Þetta var löng röð af þáverandi ráðamönnum, fulltrúum sveitarfélaga á svæðinu, Norðuráls, orkusölum og ráðherrum úr ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, sem röðuðu sér upp á lóð kerskála fyrir fyrsta áfanga komandi álvers.   

Herinn var farinn tveimur árum fyrr og við blasti auðn á Suðurnesjum, sem álverið átti að "bjarga", rétt eins og álver í Eyjafirði átti að "bjarga Norðurlandi" um 1990 þegar ekki var lengur hægt að framleiða þar vörur fyrir hin hrundu Sovétríki.  

Álverið nyrðra reis aldrei, en Akureyri stendur þó enn.

Á opnum fundi með fulltrúa Norðuráls 2009 játaði hann því, að kerskálinn, sem byrjað hafði verið á í Helguvík, yrði aðeins þriðjungur eða fjórðungur álvers af nauðsynlegri stærð, sem væri 360 þúsund tonna framleiðsla á ári. 

Til þess að standa við slík áform átti eftir að semja við rúmlega tug sveitarfélaga á leiðinni milli Helguvíkur og Skaftárhrepp um háspennulínur og virkjanir, en auðvitað var samningsaðstaða þeirra engin, því að þeim var öllum stillt upp við vegg í þessu máli með hinni glæsilegu skóflustunguhátið. 

Áður en ár var liðið frá hinni miklu skóflustunguathöfn var ríkisstjórnin sprungin og sömuleiðis blaðran öll, sem hátimbrað bankakerfið var. 

Eftir stóð nakin stálgrind kerskálans þráða, en áfram var þó þráast við að koma upp verksmiðju í staðinn heilmiklu kísilveri, sem orðið gæti mikill léttir fyrir alla í Reykjanesbæ. 

Nú virðist þetta eftir allan vandræðaganginn hafa snúist við, og í fyrirsögnum af þessu máli segir: "Mörgum er létt í Reykjanesbæ."  

Eftir standa þögul minnismerkin um versmiðjum, sem áttu að bjarga Suðurnesjum. 

 

 


mbl.is Mörgum létt í Reykjanesbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setning kvöldsins? "Ég finn innilega til með þeim sem ekki kunna að meta fótbolta."

Æsilegir tveir knattspyrnuleikir á HM í kvöld voru þess eðlis, að Gunnar Birgisson, sem lýsti leik Þjóðverja og Costa Rica missti eftirfarandi út úr sér í öllum látunum: "Ég finn innilega til með þeim sem kunna ekki að meta fótbolta."

Lið Japana var ein helsta hetja kvöldsins eftir að hafa átt stærstan þátt í því að lið Þjóðverja verður að fara heim, og ekki síður fyrir að vinna bæði þá og Spánverja í leikjunum við þá. 


mbl.is Japan og Spánn áfram - Þýskaland úr leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Tímans þungi niður..." Aðeins fjórir lengur en Katrín á fullveldistímanum.

"Sjá, dagar koma, ár og aldir líða - og enginn stöðvar tímans þunga nið..." segir i lagi, sem hingað til hefur aðallega verið sungið af karlsöngvurum og karlakórum.  

Það virðast ekki svo mörg ár síðan fyrstu frumkvöðlarnir í í röðum íslenskra flugstjóra luku störfum einn af öðrum og fengu góðar móttökur þegar þeir komu úr síðasta atvinnufluginu. 

En nú speglast ný öld, afurð tímans sig í síðustu ferð Sigríðar Einarsdóttur og markar með því tímamót um svipað leyti Katrín Jakobsdóttir hefur fyrst kvenna verið í samfellt fimm ár í embætti forsætisráðherra og fleiri dagar koma þar sem tíminn teymir okkur öll á eftir sér eins og Megas orðaði það. 

Fyrir tæpum fjórum áratugum varð Michelle Mouton fyrst kvenna til þess að vera aðeins hársbreidd frá því að hampa heimsmeistaratitli í rallakstri. 

Þetta gerðist svo óvænt, að besti rallökumaður þess tíma, Ari Vatanen, sagðist ætla að hætta keppni ef hún hreppti hinn torsótta bikar! 

Til þess kom þó ekki, en ummælin sýna í hvaða umhverfi þau voru látin falla. 

Frá stofnun fullveldisins fyrir réttum 104 árum hafa aðeins fjórir menn á undan Katrínu Jakobsdóttur verið forsætisráðherrar og náð að sitja fimm ár samfellt eða meira í embætti, Jón Magnússon, Hermann Jónasson, Bjarni Benediktsson og Davíð Oddsson. 


mbl.is Síðasta ferð Sigríðar hjá Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband