Hinn dæmalausi veldisvöxtur græðginnar. Hundraðföldun á 20 árum!

Við Íslendingar upplifum nú þvílíka sprengingu í veldisvexti á flestum sviðum, að komið er út fyrir öll mörk. 

Fyrir um tiu árum var sett fram það takmark að tífalda framleiðslu í sjókvíaeldi næstu tíu ár, og viti menn, þetta gekk eftir, úr 4000 tonnum í 45 þúsund. 

Nú má sjá í nýrri "kolsvartri" skýrslu og með þvi að fletta til baka, hve harkalega hefur verið sprengt af stað með aldeilis dæmalausu offorsi, og skal engan undra, sem man eftir því þegar ráðherra kastaði sprengju inn í málið á upphafsstigi þess og leysti eftir ítrasta mætti úr öllum hömlum, sem gátu tafið fyrir græðgisvæðingu sjókvíaeldisins og innrás Norðmanna í þennan þátt sjávarútvegsins. 

Þetta leiðir hugann að næsta tíu ára kafla, sem nú hefur verið kynntur í fjölmiðlum og felur í sér að tífalda vaxtarhraðann, sem verið hefur, þ. e. að næstu ár verði vaxtarhraðinn hundraðfaldur miðað við byrjunina á þessum 20 ára sprengikafla! 

En svo deyfð er þjóðin fyrir þessu öllu, að hún kippir sér ekki upp við það hvernig gróðapungarnir eru að ganga af göflunum.  

Undanfarna daga hafa verið kynntar svipaðar sprengiáætlanir varðandi vindorkuver, og þegar það er talið saman, sem þegar er komið á blað um vindorkuver um allt land og á miðunum í kringum landið, eru menn að tala um alls meira en 30 þúsund megavött, eða tíföldun núverandi nýtingu stóriðjunýtingu á orkulindum landsins! 

Þegar þessi draumsýn hefur raungerst mun þjóðin framleiða innan við 5% af þeirri raforku, sem þarf fyrir íslensk fyrirtæki og heimili, en yfir 95 prósent fara til erlendra fyrirtækja.  

Þeir sem dirfast að andmæla þessu brjálæði, eru sakaðir um að vera á móti rafmagni og atvinnuuppbyggingu og vilja fara aftur inn í torfkofana!


mbl.is Veikburða og brotakennt eftirlit með sjókvíaeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þessu þakka ég Útilíf"! Hvernig er svona bull mögulegt?

"Þessu þakka ég Útilíf!" var upphrópun sem lesin var i auglýsingu i sjónvarpi i kvöld.  

Hvernig er svona bull mögulegt í eins rándýru sjónvarpsefni og auglýsing á dýrasta útsendingartíma dagsins er?  

Í auglýsingunni er tilgangurinn að þakka auglýsandanum fyrir vöru eða þjónustu, en útkoman verður óskapnaður.  

Í þessum bulltexta fær ákveðið fyritæki svipað sérleyfi og sífjölgandi fyrirtækjum og félögum er veitt daglega frá því að fallbeygja nöfn sín eftir íslenskum málfarsreglum. 

Þetta eru heiti eins og til dæmis Útilíf, Hagkaup, Bónus og Breiðablik. 

Leikmaður leikur hjá Breiðablik og verslar í Útilíf.  

Í auglýsingunni "Þessu þakka ég Útilíf" eru fjögur orð, og helmingur þeirra er bull.  

Meiningin hlýtur að eiga að vera þessi: "Þetta þakka ég Útilífi." 

En vitleysan flýgur í gegnum málfarseftirlit hjá fjölmiðli, sem hefur lagaskyldu til að standa vörð um íslenska tungu og menningu. 


Stríðið við sýkla og veirur að færast á gamalkunn stig.

Saga þjóðarinnar og mannkynsins er vörðuð eilífu stríði við sýkla og veirur, farsóttir og drepsóttir. 

20. öldin var öld geysilegra framfara í þessari styrjöld, og þa fundust lyf eða bólusetningar við ótal kvillum. 

Á tímabili héldu menn að stríðið væri unnið, en það reyndist mikil blekking. Sumar sýklategundir náðu vopnum sínum á ný og stökkbreyttust í öflugri sýkla, svo sem streptokokkana, sem nú eru nefndir æ meira til sðgunnar. 

Efling þessara sýkla var oft um að kenna rangri lyfjameðferð eða ofnotkun.  

Undir síðustu aldamót þóttust framsýnir sýklafræðingar sjá fyrir sér að 21. öldin yrði öld harðnandi átaka við veirurnar og sýklana, og COVId-19 var líklega rðkrétt framhald á HiV og fleiri nýjum kvillum.  

Á gamals aldri upplifir síðuhafi sveppasýksingar, blóðeitranir/sýkingar, flensur, kvef, umgangspestir og sykursýki 2, og allt í einu er orðið nóg að gera við að stunda sína eigin lyfjamerðferð undir forskrift heilbrigðisfólks. 

Við verðum að sætta okkur við að lifa með bakteríum; góðkynja tegundir þeirra halda líkamsstarfsemi okkar gangandi og eru fleiri í líkama okkar og á heldur en okkar eigin frumur. 


mbl.is Annar stofn fært sig upp á skaftið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. febrúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband