Stefna jarðgöngurnar í ógöngur? Vandi með kýrina og Breiðadalslegg.

Orðið jarðgöng var oft notað í fréttaflutningi dagsins og því miður kom í ljós, að fjölmiðlafólk og fleiri eiga í fádæma basli með að nota þetta orð rétt.  

Í langri frétt nú í kvöld var í síbylju talað um jarðgangnagerð og fjárveitingar til jarðgangna og jarðgöngum þannig ruglað saman við orðið göngur, sem notað er um göngur og réttir á haustin. 

Með því að tala um jarðgangnagerð er samkvæmt orðanna hljóðan verið að tala um það ómögulega fyrirbæri að smala fé neðanjarðar. 

Um daginn kom í ljós í fréttaflutningi um kýr, að hvorki fréttamaðurinn né fréttastjórinn, sem var aðallesari kunnu beygingu á tegunarheiti þessara dýra. 

Og í frétt dagsins af jarðgöngum sást heitið "Breiðadalsleggur" um endurbættan áfanga í Vestfjarðagöngum. 

Kannski styttist í að sungið verði í laginu "Á Sprengisandi": "..drjúgur verðir síðasti leggurinn..." 

Og hið þekkta ljóð Jóns Helgasonar?  "Áfangar"?  Nei. "Leggir". 


mbl.is 900 milljarðar og ný Hvalfjarðargöng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. júní 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband