Milljóna tjón vegna kortamerkinga.

Á fundi Slóðavina, samtaka áhugamanna um akstur á torfæruhjólum og fjórhjólum í kvöld, þar sem við Andrés Arnalds vorum með framsögu voru fjörugar og áhugaverðar umræður. 

P1011260

Eitt af því sem þar kom fram var að vegna merkinga á þeim kortum sem ferðalangar hafi í höndum til aksturs um landið hafi margir bílaleigubílar og aðrir bílar skemmst að óþörfu.

Ástæðan sé sú að á kortunum sé enginn greinarmunur gerður á þokkalegum hálendisvegum og slóðum og gömlum reiðleiðum.

Afleiðingin sé sú að ferðamenn séu lokkaðir inn á slóðir sem séu stórvarasamar og alls kyns vandræði komi þá upp.

Sýndi Andrés ýmis dæmi um þetta sem voru þess eðlis að undrun vekur.

Upplýst var að hjá eigendum bílaleiga væru menn mjög ósáttir við þetta vegna skemmda, vandræða og kostnaðar sem þetta hefur valdið og einnig ylli þetta því að farið væri á vélknúnum farartækjum inn á gamlar þjóðleiðir, sem væru verndaðar samkvæmt lögum um fornleifar og valdið umhverfisspjöllum á þeim.

Athyglisverðar umræður spunnust um ýmsar leiðir, svo sem svonefndan Árnastíg, sem er forn gönguleið frá Grindavík norður á Rosmhvalanes en hann liggur á sléttum hraunhellum og hafa því ýmsir vélhjólamenn haldið að í góðu lagi væri að þeysa eftir honum.

En það göngufólk, sem gengur eftir stígnum, gerir það til að upplifa gamla tíma þegar vermenn gengu þennan stíg og sú stemning er auðvitað eyðilögð ef hópur vélhjólamanna þeysir eftir honum.

Þannig hafa þessar fáránlega ófullkomnu merkingar valdið margs kyns misskilningi og vandræðum sem og það ófremdarástand sem ríkir í skipulagi þessara mála allra, því að gagngers átaks er þörf til að endurbæta skipulagslög og skilgreina og flokka vegi og slóða á markvissari hátt varðandi leyfilega notkun en nú er.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Takk fyrir þennan pistil, Ómar. Þetta þarf að koma meira í  umræðaðurnar. Íslendingar eru því miður enn í 1. bekk hvað umhyggju um stórkostlega náttúru okkur snertir.

Úrsúla Jünemann, 4.3.2010 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband