Fýkur fram og til baka.

Nýr veruleiki blasir við í þeim sveitum sem næst liggja Eyjafjallajökli. Hann mótast af því að askan, sem kom í gosinu fýkur fram og til baka og setur mark sitt á daglegt líf í þessum sveitum.

Fyrir nokkrum dögum fauk askan af afréttum og svæðunum norðan jökulsins yfir hann og gerði myrkur um miðjan dag undir Eyjafjöllum. 

Um miðjan dag í dag fauk þessi aska til baka yfir Eyjafjallajökul og Fimmvörðuháls og olli öskumistri norður yfir Fljótshlíð og þegar vindur snerist til suðausturs byrjaði hún að berast yfir Rangárþing. 

Ég flutti flugvélina til vesturs á tún við Meiritungu nálægt Landvegamótum til að forðast vindstrenginn, sem stendur oft í vestur frá Fljótshlíðinni, en hann ber ösku af aurunum og norðurhlíðum Eyjafjallajökuls til vesturs. 

Litlu skiptir þótt rykið setjist þegar rignir því að um leið og þornar, losnar um það og öskufokið byrjar á ný. 

Svona ástand var á Skeiðarársandi í meira en ár eftir hlaupið mikla 1996 en munurinn var sá, að sá aur, sem þá barst fram og þornaði og rauk, var á óbyggðu svæði. 


mbl.is Mistur vegna öskufoks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flaug fjallahringinn í gærmorgun í ágætu skyggni (Eyjafjallajökull og yfir Þórsmörk, svo áleiðis að suðurhluta Heklu). Svæðið er meira og minna grátt og svart, þannig að því miður er þetta rétt hjá þér Ómar. Þarna eru til ókjör af lausu efni, og víða í það þykku lagi (t.d. ca. 5 cm við Einhyrning) að gróður mun ekki ná að pota sér í gegn.

Það sem að berst niður á gróið eða gróskumikið láglendi kemur til með að "festast" og verður enn ein röndin í jarðveginum í fyllingu tímans. En það sem er laust uppi á hálendi á eftir að fjúka til og frá þar til það festist, annað hvort á láglendi, eða í sjó/vötnum.

Það verður lítið varið í stór svæði uppi á fjöllum suma dagana í sumar, því miður.

Jón Logi (IP-tala skráð) 31.5.2010 kl. 09:11

2 Smámynd: Júlíus Valsson

Það er víst um 40cm öskulag frá Kötlu undir Reykjavík frá forsögulegum tíma.

Júlíus Valsson, 31.5.2010 kl. 09:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband